Bráðabirgðaniðurstöður rannsókna tilbúnar í vetrarbyrjun
Í sumar hefur verið unnið að tólf rannsóknarverkefnum á vegum rammaáætlunar og munu bráðabirgðaniðurstöður úr þeim öllum verða tilbúnar í vetrarbyrjun. Þessar niðurstöður verða lagðar til grundvallar mati faghópa á verndar- og nýtingargildi þeirra virkjunarkosta sem þeir hafa nú til umfjöllunar. Faghóparnir munu síðan skila tillögum sínum til verkefnisstjórnar rammaáætlunar 17. febrúar 2016. Drög að endanlegum tillögum verkefnisstjórnar verða kynnt í apríl og þann 1. september 2016 mun verkefnisstjórn afhenda umhverfis- og auðlindaráðherra fullfrágengna tillögu að loknu 12 vikna opnu umsagnarferli. Tillaga ráðherra til þingsályktunar um nýja rammaáætlun verður svo væntanlega afgreidd á vorþingi 2017.
Á síðasta vetri og fram á vor unnu faghópar að því að skilgreina hvar mest þörf væri á að bæta í þann þekkingargrunn sem fyrir var um einstaka virkjunarkosti og landsvæði. Snemma í mars lá fyrir hvaða virkjunarkostir yrðu teknir til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar og í framhaldi af því forgangsröðuðu faghópar nauðsynlegustu verkefnum með tilliti til þeirra fjármuna sem ætlaðir eru til rannsókna. Hóparnir voru sammála um að leggja mesta áherslu á rannsóknir á landslagi og víðernum, á áhrifum virkjana sem þegar hafa verið byggðar og á ferðamennsku á þeim landsvæðum sem til umfjöllunar eru. Faghópar hafa samráð um öll verkefnin sín á milli, m.a. til að tryggja þverfaglegt notagildi upplýsinganna og til að veita aðhald og uppbyggjandi gagnrýni.
Sameiginleg rannsóknaráætlun faghópa lá fyrir um miðjan maí og í framhaldi af því gekk umhverfis- og auðlindaráðuneytið, að fenginni tillögu verkefnisstjórnar, frá 12 verksamningum um þau verkefni sem faghóparnir töldu brýnust, samtals að fjárhæð 102,3 milljónir króna.
Verkefnin eru eftirtalin:
Faghópur 1 (Náttúru- og menningarminjar):
- Víðerni
Samningsaðili: Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands
Umsjónarmaður f.h. faghóps 1: Þorvarður Árnason
- Hitakærar örverur á háhitasvæðum á Reykjanesi, Hengilsvæðinu og Fremrinámum
Samningsaðili: Matís ohf.
Umsjónarmaður f.h. faghóps 1: Sólveig Pétursdóttir
- Áhrif virkjana á náttúru- og menningarminjar, landslag og víðerni
Samningsaðili: Náttúruminjasafn Íslands
Umsjónarmenn f.h. faghóps 1: Skúli Skúlason og Birna Lárusdóttir
- Fjölbreytni lífs, lands og menningarminja
Samningsaðili: Náttúruminjasafn Íslands
Umsjónarmenn f.h. faghóps 1: Skúli Skúlason og Tómas Grétar Gunnarsson
- Landslagsgreining
Samningsaðili: Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands
Umsjónarmaður f.h. faghóps 1: Þorvarður Árnason
- Landslagsmat
Samningsaðili: Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands
Umsjónarmaður f.h. faghóps 1: Þorvarður Árnason
Faghópur 2 (Auðlindanýting önnur en orkunýting):
- Áhrif fyrirhugaðra vatnsaflsvirkjana í Skagafirði á ferðamennsku
Samningsaðili: Háskóli Íslands - Land og ferðamálafræðistofa
Umsjónarmaður f.h. faghóps 2: Anna Dóra Sæþórsdóttir
- Áhrif fyrirhugaðra vatnsaflsvirkjana í Skjálfandafljóti á ferðamennsku
Samningsaðili: Háskóli Íslands - Land og ferðamálafræðistofa
Umsjónarmaður f.h. faghóps 2: Anna Dóra Sæþórsdóttir
- Áhrif fyrirhugaðrar jarðvarmavirkjunar við Hágöngur á ferðamennsku
Samningsaðili: Háskóli Íslands - Land og ferðamálafræðistofa
Umsjónarmaður f.h. faghóps 2: Anna Dóra Sæþórsdóttir
- Áhrif fyrirhugaðra jarðvarmavirkjana á Reykjanesi á ferðamennsku
Samningsaðili: Háskóli Íslands - Land og ferðamálafræðistofa
Umsjónarmaður f.h. faghóps 2: Anna Dóra Sæþórsdóttir
- Áhrif fyrirhugaðra vatnsaflsvirkjana á Suðurlandi á ferðamennsku
Samningsaðili: Háskóli Íslands - Land og ferðamálafræðistofa
Umsjónarmaður f.h. faghóps 2: Anna Dóra Sæþórsdóttir
- Viðhorf til virkjunarhugmynda, víðerna og óbyggða og raflína
Samningsaðili: Háskóli Íslands - Land og ferðamálafræðistofa
Umsjónarmaður f.h. faghóps 2: Anna Dóra Sæþórsdóttir
Faghópar verkefnisstjórnar rammaáætlunar eru skipaðir leiðandi sérfræðingum á þeim fræðasviðum sem viðkomandi faghópi er ætlað að skoða. Gagnaöflun á vegum faghópanna er sérhæfð og krefst viðurkenndrar faglegrar þekkingar og reynslu. Því gegna einstakir fulltrúar í faghópum lykilhlutverki við skipulag og umsjón flestra verkefnanna í samvinnu við aðra fagmenn á viðkomandi sviði. Þetta er í samræmi við það hlutverk faghópa að afla sem bestra upplýsinga og gagna varðandi virkjunarkosti og landsvæði fyrir það frummat sem faghópunum er ætlað að gera. Allir sérfræðingar viðkomandi faghóps leggja síðan mat á gæði upplýsinganna og staðfesta notagildi þeirra. Til að tryggja jafningjamat á fræðilegu gildi og gagnsemi verða niðurstöður verkefna jafnframt bornar undir fagstofnanir og í sumum tilfellum eru verkefnin skipulögð og unnin í samráði við þær. Ef athugasemdir eru gerðar verður tekið tillit til þeirra og leitast við að afla meiri eða betri upplýsinga. Ef verkefnisstjórn eða faghópar telja þörf á verða niðurstöður verkefna einnig bornar undir aðra innlenda eða erlenda fagaðila til að fá óháð jafningjamat (ritrýni) á gæðum upplýsinga og notagildi.
Sumarið 2015 er eini tíminn sem nýtist til rannsókna á vegum verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar. Eins og fram hefur komið lágu upplýsingar um þá virkjunarkosti sem taka skyldi til umfjöllunar ekki fyrir fyrr en í mars á þessu ári og faghópar þurfa að skila tillögum sínum til verkefnisstjórnar í febrúar á næsta ári. Því gafst afar naumur tími til að skipuleggja nauðsynleg verkefni. Ekki leið nema rúmur mánuður frá því að sameiginleg rannsóknaráætlun hópanna lá fyrir þar til flest rannsóknarverkefnin voru komin af stað. Vegna þess hversu skammur tími var til stefnu og þess hve fræðasamfélagið er fámennt reyndist erfitt að manna sum verkefnin og dreifa þeim á fleiri aðila, t.d. verkefni í ferðaþjónustu og útivist. Ljóst er að faghóparnir hafa gert vel í að koma metnaðarfullum rannsóknarverkefnum í gang og skipuleggja þau með svo stuttum fyrirvara þannig að bráðabirgðaniðurstöður geti legið fyrir í vetrarbyrjun, þ.e. nógu snemma til að þær nýtist verkefnisstjórn rammaáætlunar við frágang endanlegrar tillögu til ráðherra.