Fréttasafn

Endurskoðuð lokaskýrsla verkefnisstjórnar birt, umsagnarvefur opnaður

11.5.2016

Þann 31. mars sl. lagði verkefnisstjórn rammaáætlunar fram drög að lokaskýrslu 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar. Í kjölfarið fylgdi þriggja vikna kynningar- og samráðsferli sem lauk 20. apríl sl. Sextán umsagnir bárust frá fjórtán aðilum. Verkefnisstjórn hefur nú unnið úr þessum umsögnum og lagt fram endurskoðaða lokaskýrslu þar sem gerðar eru tillögur um flokkun 26 virkjunarkosta og landsvæða.

Verkefnisstjórn leggur til að eftirfarandi kostir fari í orkunýtingarflokk:  Skrokkölduvirkjun, Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun, Austurgilsvirkjun, Austurengjar, Hverahlíð II, Þverárdalur og Blöndulundur. Í verndarflokk fari fjögur svæði með eftirtöldum virkjunarkostum:  Héraðsvötn (Villinganesvirkjun, Skatastaðavirkjanir C og D), Skjálfandafljót (Fljótshnúksvirkjun og Hrafnabjargavirkjanir A, B og C), Skaftá (Búlandsvirkjun) og Þjórsá vestur (Kjalölduveita). Í biðflokk fari tveir virkjunarkostir í Hólmsá (við Atley og án miðlunar), Búðartunguvirkjun, Hagavatnsvirkjun, Stóra-Laxá, Trölladyngja, Innstidalur, Hágönguvirkjun, Fremrinámar og Búrfellslundur.

Um leið og verkefnisstjórnin leggur fram tillögur sínar hefst lögbundið 12 vikna umsagnarferli þar sem almenningi og öðrum hagsmunaaðilum gefst kostur á að koma athugasemdum á framfæri. Umsagnarferlið stendur dagana 11. maí – 3. ágúst 2016.

Í umsagnarferlinu er jafnframt kallað eftir umsögnum um umhverfisskýrslu í samræmi við lög nr. 106/2005 um umhverfismat áætlana, en umhverfisskýrslan er hluti af skýrslu verkefnisstjórnar.

Ítarlegri upplýsingar og greinargerðir faghópa má finna á umsagnarvef rammaáætlunar. Þar má jafnframt senda inn umsagnir um tillögu verkefnisstjórnar. Umsagnarfrestur er til miðnættis miðvikudaginn 3. ágúst 2016.