Fréttasafn

Fréttatilkynning - drög að tillögu um flokkun virkjunarkosta

31.3.2021

ForsidaVerkefnisstjórn 4. áfanga rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða hefur lagt fram skýrslu verkefnisstjórnar ásamt drögum að tillögu um flokkun 13 virkjunarkosta og svæða. 

Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði verkefnisstjórnina til fjögurra ára 5. apríl 2017. Vinna verkefnisstjórnar bar þess mjög merki að þingsályktunartillaga byggð á vinnu í 3. áfanga rammaáætlunar hefur enn ekki verið afgreidd af Alþingi. Þetta skapaði lagalega óvissu um störf verkefnisstjórnar og mjög dróst að fá virkjanakosti til mats frá Orkustofnun. Þeir bárust ekki fyrr en vorið 2020. Þá var afar knappur tími til framkvæma þær rannsóknir sem nauðsynlegar eru til að meta virkjunarkostina.

Ljóst var að á skipunartíma verkefnisstjórnarinnar ynnist ekki tími til að fara í lögboðið tvískipt kynningarferli, sem tekur 4-5 mánuði. Því varð niðurstaðan að verkefnisstjórn stefndi að því á skipunartíma sínum að ljúka mati og drögum að flokkun þrettán virkjunarkosta sem tækir voru til meðferðar.

Samkvæmt þessu leggur verkefnisstjórn nú fram, þegar skipunartíma hennar er að ljúka, Drög að tillögu um flokkun virkjunarkosta, eins og aðrar verkefnisstjórnir hafa gert á þessum stað í matsferlinu.

Leiðsögn um næstu skref í ferlinu er að finna í 10. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun:

Tillagnanna bíður að fara í tvö aðskilin kynningar- og samráðsferli, þar sem haghafar og aðrir geta sent inn athugasemdir og ábendingar.  Ný verkefnisstjórn fer yfir innsendar ábendingar og tekur afstöðu til hverrar og einnar að loknum báðum kynningarferlunum. Þær tillögur sem hér eru kynntar geta því  breyst áður en þeim verður skilað til ráðherra. Ráðherra getur svo gert á þeim breytingar áður en hann leggur þingsályktunartillögu um vernd og orkunýtingu landsvæða fyrir Alþingi. 

Tillögur verkefnisstjórnar eru sem hér segir:

Verkefnisstjórn telur ekki tilefni til að flokka svæði í verndarflokk að þessu sinni.

Orkunýtingarflokkur:

Nr. Svæði Virkjunarkostur
R4159AGláma - Ísafjörður Hvanneyrardalsvirkjun
R4160A Þjórsársvæði Vatnsfellsstöð - Stækkun
R4161A Þjórsársvæði Sigöldustöð - Stækkun
R4162A Þjórsársvæði Hrauneyjafossstöð - Stækkun
R4163A Gláma - Vattardalur Tröllárvirkjun
R4293A Svartsengi - Eldvörp Svartsengi - Stækkun
R4328A Reykhólahreppur Garpsdalur
R4331A Borgarbyggð Alviðra
R4305A Hörgárbyggð Vindheimavirkjun

Biðflokkur:

Nr. Svæði Virkjunarkostur
R4103AÓfeigsfjarðarheiði Skúfnavatnavirkjun
R4158A Hraun - Austurland Hamarsvirkjun
R4301B Rangárþing ytra Búrfellslundur
R4318A Dalabyggð Sólheimar 

Ítarlegri upplýsingar og greinargerðir faghópa má finna í skýrslu verkefnisstjórnar. Fylgigögn, þ.e. mörk mats- og framkvæmdasvæða, minnisblöð, umsagnir stofnana um gæði gagna og handbók um hagrænt umhverfismat er að finna hér.

Bestu þakkir eru færðar öllum þeim sem hafa unnið með verkefnisstjórninni að þeim áfanga sem nú er náð, sérstaklega faghópum og öðrum sérfræðingum, fagstofnunum og tengiliðum verkefnisstjórnar við umhverfis- og auðlindaráðuneytið.