Verkefnisstjórn 3. áfanga skilar lokatillögu sinni til ráðherra
Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar afhenti í dag umhverfis- og auðlindaráðherra tillögur sínar að flokkun virkjunarkosta . Tillögurnar voru afhentar ráðherra við athöfn í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
Verkefnisstjórn leggur til að átta nýir virkjunarkostir bætist í orkunýtingarflokk áætlunarinnar, þ.e. Skrokkölduvirkjun, Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun, Austurgilsvirkjun, Austurengjar, Hverahlíð II, Þverárdalur og Blöndulundur. Um er að ræða fjórar vatnsaflsvirkjanir með uppsett afl upp á alls 277 MW, þrjár jarðhitavirkjanir með uppsett afl allt að 280 MW og einn vindlund með uppsett afl allt að 100 MW. Ekki eru lagðar til breytingar á flokkun þeirra virkjunarkosta sem fyrir voru í orkunýtingarflokki en þeir eru alls tíu talsins. Samtals er því lagt til að átján virkjunarkostir verði flokkaðir í orkunýtingarflokk og hafa þeir samtals 1421 MW uppsett afl. Með þessari tillögu verkefnisstjórnar aukast möguleikar á orkuvinnslu um sem nemur tæpum 50% í jarðvarmaafli og um rúm 150% í vatnsafli frá 2. áfanga rammaáætlunar.
Í verndarflokk bætast við fjögur landsvæði með tíu virkjunarkostum, þ.e. Skatastaðavirkjunum C og D, Villinganesvirkjun, Blöndu – veitu úr Vestari Jökulsá, Fljótshnjúksvirkjun, Hrafnabjargavirkjunum A, B og C, Búlandsvirkjun og Kjalölduveitu. Allir nýir virkjunarkostir á landsvæðum í verndarflokki eru vatnsaflsvirkjanir. Ekki eru lagðar til breytingar á flokkun þeirra virkjunarkosta sem fyrir voru í verndarflokki en þeir eru sextán talsins. Samtals er því lagt til að 26 virkjunarkostir verði flokkaðir í verndarflokk.
Þrjátíu og átta virkjunarkostir eru í biðflokki og hafa tíu bæst við þann flokk frá fyrri áfanga. Þar af eru fjórir virkjunarkostir í jarðvarma (Trölladyngja, Innstidalur, Hágönguvirkjun og Fremrinámar), fimm í vatnsafli (Hólmsárvirkjun án miðlunar, Hólmsárvirkjun neðri við Atley, Búðartunguvirkjun, Hagavatnsvirkjun og Stóra-Laxá) og einn í vindorku (Búrfellslundur).