Nýr vefur rammaáætlunar opnaður
www.ramma.is
Í dag verður nýr vefur rammaáætlunar opnaður á nýju léni, www.ramma.is. Nýi vefurinn tekur við af eldri vef sem ekki uppfyllti lengur nýjustu kröfur um útlit og notendavænleika. Vefurinn er rekinn af verkefnisstjórn rammaáætlunar og hýstur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Á nýja vefnum er lögð áhersla á ítarlegar og auðfundnar upplýsingar um yfirstandandi vinnu við rammaáætlun.
Vefurinn er helsta tæki verkefnisstjórnar rammaáætlunar til að miðla upplýsingum um starf sitt og stöðu áætlunarinnar. Á vefnum eru sögu rammaáætlunar gerð skil, svo og þeim hugmyndum og fræðum sem að baki liggja. Auk þess er vefurinn einn helsti samráðsvettvangur verkefnisstjórnarinnar sjálfrar.
Unnið er að gerð gagnagrunns með gögnum sem orðið hafa til í vinnu við núverandi og fyrri áfanga rammaáætlunar, en öll þessi gögn verða aðgengileg almenningi. Gagnagrunnurinn verður hluti af vefsíðunni í náinni framtíð.
Um leið og nýr vefur er opnaður er nýtt einkennismerki rammaáætlunar kynnt. Nýja merkið byggir á fyrra merki en er nokkru einfaldara.
Nýi vefurinn og hið nýja einkennismerki rammaáætlunar eru bæði hönnuð af Hugsmiðjunni.