Fréttasafn

Uppfærður vefur rammaáætlunar

21.1.2022

Vefur rammaáætlunar hefur verið uppfærður og forsíða hans einfölduð. Breytingarnar miða að því að gera lykilupplýsingar um virkjunarkosti og störf verkefnisstjórnar aðgengilegri. 

Gerðar hafa verið töluverðar uppfærslur á vef rammaáætlunar, www.ramma.is. Í upphafi 5. áfanga var ákveðið að gera nokkrar breytingar á skipulagi og uppsetningu vefsins og er þeim hér með fylgt úr hlaði.

Markmið breytinga á vefnum er fyrst og fremst að auðvelda aðgengi að þeim upplýsingum sem reynslan hefur sýnt að mest þörf er fyrir og mest er leitað eftir - þ.e. yfirliti yfir heildarstöðu rammaáætlunar, upplýsingum um núgildandi rammaáætlun eins og hún hefur verið samþykkt af Alþingi, og yfirliti yfir stöðu allra virkjunarkosta í rammaáætlun. Í þessu skyni hefur forsíðu vefsins verið breytt og hún einfölduð verulega.

Í náinni framtíð má búast við frekari breytingum á vef rammans. Einkum er þá verið að horfa til þess að bæta til muna upplýsingagjöf um stöðu allra virkjunarkosta í rammaáætlun.

Notendur vefsins eru hvattir til að koma endurgjöf á framfæri við vefstjóra.