Fundur faghópa 1, 2 og 3 og náttúruverndarsamtaka, 05.11.2018

Fundarfrásögn

4. áfangi rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

Fundur faghópa 1, 2 og 3 og náttúruverndarsamtaka

05.11.2018, 12:30 – 16:00.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

 

Mætt frá faghópi 1: Ása L. Aradóttir (ÁA), Jón S. Ólafsson (JSÓ), Tómas Grétar Gunnarsson (TGG), Sólborg Una Pálsdóttir (SUP), Kristján Jónasson (KJ) og Þorvarður Árnason (ÞÁ).

Mætt frá faghópi 2: Anna Dóra Sæþórsdóttir (ADS), Anna G. Sverrisdóttir (AGS), Einar Torfi Finnsson (ETF), Guðmundur Jóhannesson (GJ), Guðni Guðbergsson (GG), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir (SSJ) og Sveinn Runólfsson (SR).

Mætt frá faghópi 3: Hjalti Jóhannesson (HJ) og Magnfríður Júlíusdóttir (MJ).

Frá náttúruverndarsamtökum: Árni Finnsson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, Hólmfríður Arnardóttir frá Fuglavernd, Auður Önnu Magnúsdóttir frá Landvernd, Ingibjörg Eiríksdóttir frá Eldvötnum í Skaftárhreppi.

Frá Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF): Gunnar Valur Sveinsson sem ekki gat mætt á fund þann 1. nóvember s.l..

Frá verkefnastjórn: Guðrún Pétursdóttir (GP) og Elín R. Líndal ERL) sem var viðstödd í fjarfundabúnaði.

Frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu: Herdís Helga Schopka (HHS).

Fundarritarar: SSJ og AGS

 

  1. Kynning: HHS bauð fundarmenn velkomna til fundarins, þar sem ætlunin er að kynna þær aðferðir sem faghópar 1,2 og 3 hafa notað og leita eftir athugasemdum og ábendingum náttúruverndarsamtaka um hvað má að þeirra mati betur fara. Þátttakendur kynntu sig.
  2. Kynning á aðferðafræði faghóps 1 í 3. áfanga rammaáætlunar: ÁA, KJ, TGG, JSÓ, ÞÁ og SUP kynntu aðferðafræði faghóps 1 við mat á áhrifum virkjunarkosta á náttúru, menningarminjar, landslag og víðerni.
  3. Umræður um aðferðafræði faghóps 1: 
    • Óskað var eftir nánari kynningu á verðmæta- og áhrifamati. ÁA útskýrði aftur glærur þar sem annars vegar var farið yfir verðmætamat og hins vegar áhrifamat. Lögð var áhersla á að alltaf væri verið að skoða innbyrðisröðun virkjanakosta.  Tekið væri tillit til sérstaks mikilvægis einstakra svæða í APH greiningunni þar sem tveir og tveir virkjunarkostir eru bornir saman. Sú greining byggir á einkunnum fyrir verðmæti (eða áhrif) auk gátlista yfir friðlýstar menningar- og náttúruminjar, friðlýst svæði, válistategundir eða önnur stök sem gætu haft áhrif á röðun svæða eða virkjunarkosta.
    • Spurt var um vægi fugla þegar áhrif vindlunda á náttúru eru metin. Mörg viðföng eru skoðuð og metin og fær hvert viðfang alltaf sama vægi óháð virkjunarkostum.. Ekki er hægt að auka vægi einstakra viðfanga, t.d. fugla, þegar kemur að einstökum virkjanakostum eins og Búrfellslundi. Viðföngin fá hins vegar mismunandi verðmætaeinkunnir. Þannig fengu t.d. fuglar háa einkunn fyrir búsvæði á Auðkúluheiði en ekki á Hafinu en á báðum þessum stöðum voru metin áhrif af vindorkuverum. Vindorkukostir komu fyrst til umfjöllunar í RÁ3 og er vinnulag við mat þeirra, t.d. hvað varðar áhrifasvæði, enn í mótun.
    • GP vakti máls á atriði sem kom upp á fundi með faghópi 3 og virkjunaraðilum varðandi flokkun virkjunarkosta í nýtingarflokk, verndarflokk og biðflokk og mikilvægi innbyrðis röðunar í því samhengi. Spurningin er hvort flokkun í verndarflokk sé óháð samanburði við önnur svæði, eða hvort í verndarflokk fari þau svæði sem teljast (náttúrufarslega eða menningarlega) verðmætust þeirra virkjanakosta sem til umfjöllunar eru hverju sinni. Það færi þá eftir “þeim félagsskap sem virkjanakostur væri í” hvort hann flokkaðist í verndarflokk eða lenti í nýtingarflokki. Það gæti hvatt virkjanaaðila til að senda inn til umfjöllunar kosti sem þeir vissu að myndu flokkast í verndarflokk, til þess að auka líkurnar á því að aðrir kostir færu í nýtingarflokk. Það væri galli á aðferðafræðinni. Minnt er á, að ákvörðun um vernd miðast við landsvæðið en ekki virkjunarhugmyndina.
    • Rætt var um að ástæður flokkunar í biðflokk væru fyrst og fremst skortur á gögnum.
    • Spurt var hvort áhrif virkjunar á náttúru, menningarminjar, landslag og víðerni gætu aldrei verið jákvæð samkvæmt aðferðafræði faghóps 1.  Aðferðafræði faghóps 1 tekur mið af núgildandi lagaumhverfi og metur röskun á svæðum.  Einkunnaskalinn sem notaður er miðast við að áhrif röskunar séu neikvæð eða hlutlaus.
  4. Kynning á aðferðafræði faghóps 2 í 3. áfanga rammaáætlunar: ADS kynnti aðferðafræði faghóps 2 við mat á áhrifum virkjana á ferðamennsku og útivist, SR kynnti aðferðafræði faghópsins við mat á áhrifum virkjana á beitarhlunnindi og GG kynnti aðferðafræði faghópsins við mat á áhrifum virkjana á veiði.
  5. Umræður um aðferðafræði faghóps 2: 
    • Spurt var hvort að betri vegir vegna virkjana skili sér ekki inn í áhrifamatið. Vegir geta haft jákvæð áhrif á sum viðföng (aðgengi) en neikvæð á önnur (víðerni). Sýnt var dæmi frá Hagavatnsvirkjun þar sem einkunn fyrir vegi hækkar með tilkomu betri vegar og skilar sér þar með jákvætt inn í áhrifamat af virkjuninni. 
    • Spurt var hvort að ferðir á Langjökul væru teknar með inn í mat (verðmætamat og áhrifamat) á afþreyingarmöguleikum fyrir Hagavatnsvirkjun. ADS taldi svo vera að einhverju leyti en það mætti þó skoða betur.
    • Fulltrúi frá SAF, Gunnar Valur Sveinsson, sem hafði ekki getað verið viðstaddur fundinn þann 1. nóvember 2018 var hann nú sérstaklega inntur eftir áliti SAF á aðferðafræði faghóps 2 varðandi ferðamennsku og útivist. Hann taldi að aðferðafræði faghóps 2 virkaði nokkuð vel og þar væri beitt skynsamlegri nálgun. Það hefði verið til bóta að fækka viðföngum í RÁ3 frá því sem var í RÁ2, og nauðsynlegt væri að taka tillit til fjarlægra ferðasvæða sem yrðu einnig fyrir áhrifum eins og dæmin um Hagavatnsvirkjun og Búrfellslund sýna. Hann minnti á að ferðaþjónustan væri ein mikilvægasta útflutningsgrein Íslands og taldi rétt að miða við vægi ferðaþjónustu í landsframleiðslu í lokaröðun faghópsins, eins og gert var í RÁ3.
    • Spurt var hvort að vægi sauðfjárbeitar í útreikningum væri ekki of hátt miðað við að fækka þyrfti sauðfé á landinu til að draga úr beitarálagi. SR taldi að það væri kannski ekki spurning um of mikið sauðfé heldur um hvernig beitarstýringu væri háttað. Vægið er  fengið út frá landsframleiðslu. TGG benti á að náttúruverndargildi náttúru Íslands væri nátengt beit. Þar væru mjög stórir stofnar fugla sem Íslendingar bera sérstaka ábyrgð á, eins og heiðlóan, sem eru háðir beittu landi.
    • Spurt var hvort fuglaskoðun væri ekki metin undir afþreyingarmöguleika og var því svarað játandi og að hún væri metin undir náttúruskoðun.
    • Spurt var hvort möguleg skörun væri milli faghópa 1 og 2 og hvort verið væri að meta áhrif á gróður og víðerni í tveimur faghópum. Þessar vangaveltur komu einnig upp á fundi faghóps 3 með virkjanaaðilum, sem höfðu áhyggjur af því að verið væri að hækka neikvæð áhrif með því að meta sömu hlutina tvisvar. Faghóparnir nálgast þessi tvö viðföng á mismunandi hátt. Í faghópi 2 eru áhrif á gróður aðeins skoðuð út frá beitarnýtingu og beitarhlunnindum, á meðan faghópur 1 metur náttúrulegt gildi gróðurs.  ÞÁ telur hugsanlega skörun milli landslags og víðerna en telur að landslag skipti einnig máli fyrir faghóp 3 þar sem landslag getur haft áhrif á samfélagsleg gildi. Faghópur 1 metur landslag út frá hlutbundnum þáttum, tölulegum gildum um náttúruleg einkenni landslags, fengnum út frá niðurstöðum rannsókna af vettvangi. Faghópur 2 skoðar hins vegar gildi landslags fyrir upplifun ferðamanna, ferðaþjónustu og útivist og reynir að ná utan um þann þátt meðal annars með hliðsjón af skoðanakönnunum meðal ferðamanna á stöðunum. Á sama hátt má segja að faghópur 1 meti náttúrulegt gildi ferskvatnslífvera, þ.m.t. nytjafiska, á meðan faghópur 2 metur hagrænt gildi af veiði sömu fiska fyrir ferðaþjónustu og útivist. Faghópur 1 notast því meira við hlutlægt mat en faghópur 2 huglægt (a.m.k. meðan ekki liggja fyrir töluleg gögn). Faghópur 1 metur jafnframt víðerni með hliðsjón af lagalegri skilgreiningu eins og kemur fram í lögum um náttúruvernd, á meðan faghópur 2 notast við huglægt mat ferðamanna og útivistarfólks á víðerni. Þannig verði ekki komist hjá því að meta einhver atriði í fleiri en einum faghópi, en það sé gert með mismunandi hætti og út frá mismunandi sjónarhornum.
    • Spurt var hvar ferli rammaáætlunar væri statt. Af hverju er ekki búið að samþykkja RÁ3 og af hverju er haldið áfram inn í RÁ4 þegar RÁ3 er ósamþykkt? GP svaraði því að RÁ3 biði afgreiðslu Alþingis og á meðan gæti Orkustofnun ekki kallað eftir nýjum virkjunarkostum fyrir RÁ4. Ef RÁ4 verður afgreidd á vorþingi verður mögulegt að kalla eftir nýjum kostum næsta sumar og í framhaldinu gætu faghópar og verkefnastjórn hafið vinnu við mat þeirra. Tími faghópa og verkefnisstjórnar er nýttur til að endurbæta aðferðir í samvinnu við hagaðila. Einnig hefur verið unnið að rannsóknum á svæðum  sem fóru í biðflokk í RÁ2.
  6. Kynning á aðferðafræði faghóps 3 í 3. áfanga rammaáætlunar.  MJ kynnti faghópinn og vinnu faghóps 3 í RÁ3. 
    • Fjórir fulltrúar eru í faghópi 3 í RÁ4. Faghópurinn kom seint inn í vinnuna við RÁ3 en þar lögðu þau áherslu á að tala við íbúa í nágrenni virkjanasvæða og náðu að halda þrjá íbúafundi á mismunandi svæðum. Einnig var gerð skoðanakönnun á viðhorfum landsmanna til samfélagslegra áhrifa virkjana. Nánar má lesa um vinnu og niðurstöður faghópsins á vefsíðu rammaáætlunar. Faghópurinn vinnur nú að þróun aðferðanna, og er hugmyndin að standa að  íbúafundum og gera rannsóknir á ákveðnum svæðum, t.d. í Þingeyjarsýslum.
    • Á fundi faghóps 3 með virkjunaraðilum nýlega  kom fram óánægja þeirra með að ekki var tekið tillit til samfélagslegra áhrifa virkjana í RÁ3.
    • Í könnuninni sem framkvæmd var í RÁ3 vakti athygli að jarðvarmavirkjanir hugnast Íslendingum síður en búist hafði verið við. Varðandi viðhorf til virkjana var ekki mikill munur á svörum af höfuðborgarsvæðinu og landsbyggð. Afgerandi stuðningur kom fram við að stjórnvöld setji stefnu í orkumálum áður en ákvarðanir eru teknar. Varðandi sjálfbærni þá hafa orkufyrirtækin stuðst við sjálfbærnivísa sem snúa einkum að hversu hver og ein virkjun er sjálfbær sem rekstrarleg eining.  Aðrir sjálfbærnivísar sem þróaðir hafa verið þykja henta illa fyrir verkefni rammaáætlunar.
    • Rætt var um tekjustofna sveitarfélaga og  áhrif hugsanlegra breytinga á tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.  Slíkar breytingar geta breytt samfélagsáhrifum í nærsveitum virkjana. Á  íbúafundum í RÁ3 spáði fólk oft í hvort virkjun eða verndun myndi tryggja betur afkomu viðkomandi samfélags til framtíðar. Oft tengt við störf sem gætu skapast í tengslum við annað hvort virkjun eða ferðamennsku og verndarsvæði. Rædd voru áhrif veikleika í flutningskerfi raforku og hvort taka eigi tillit til þeirra við mat á samfélagsáhrifum virkjana. Skörun er milli hagrænu áhrifanna sem  faghópur 2 fjallar um og þess sem er verkefni faghóps 3. Þetta kann að vera mjög viðkvæmt í litlum samfélögum.
    • Hugmyndir eru í faghópnum um að halda fundi um landið þar sem fulltrúar Orkustofnunar, orkufyrirtækja og náttúruverndarsamtaka væru líka með. Hugmyndin þykir góð en bent var á að náttúruverndarsamtökin byggja á sjálfboðaliðastarfi og eiga því erfitt með að taka þátt í slíku. Kanna mætti hvort hægt væri að fjármagna þátttöku þeirra sérstaklega.
  7. Vindorka og rammaáætlun: Rædd voru áform um uppbyggingu vindorku um landið, sem virðast tilviljanakennd. GP skýrði frá að RÁ4 hyggst standa að opnum fundi  um vindorku í byrjun janúar 2019.
  8. Fleira ekki rætt. Fundi slitið kl. 16:00.