10. fundur faghóps 1, 07.06.2019
Fundarfrásögn
Faghópur 1
í 4. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða
10. fundur 7. júní 2019 kl. 9:00 til 12:30
Fundarherbergi LbhÍ, Keldnaholti
Mætt: Jón S. Ólafsson (JSÓ), Kristján Jónasson (KJ), Sólborg Una Pálsdóttir (SUP), Tómas Grétar Gunnarsson (TGG) og Ása L. Aradóttir (ÁLA) er ritaði fundargerð. Þorvarður Árnason boðaði forföll
1. Samband viðfanga í 3. áfanga rammaáætlunar
- · TGG kynnti niðurstöður tölfræðigreininga á verðmætamati faghóps 1 í 3. áfanga rammaáætlunar. Þessar greiningar eru liður í endurskoðun og frekari mótun á aðferðafræði faghópsins. Þær sýndu meðal annars að ekki var marktækur munur á heildareinkunn svæða eftir því hvort um væri að ræða vatnsafls- eða jarðvarmakosti; almennt var talsverð skörun á milli þeirra þó að þungi nokkurra viðfanga væri mismunandi eftir eðli virkjanakosta. Niðurstöðurnar gefa því ekki tilefni til að nota mismunandi aðferðir við að meta verðmæti svæða fyrir vatnsafl og jarðvarma. Há fylgni á milli nokkurra undirviðmiða, einkum hvað varðar lífverur, gefur hins vegar tilefni til að endurskoða meðferð þeirra.
2. Lýsing á aðferðafræði faghóps 1
Farið var yfir drög að lýsingu á aðferðafræði faghópsins. Í flestum meginatriðum verður aðferðafræðin sú sama og í síðasta áfanga. Hana þarf þó að aðlaga í ljósi bættrar þekkingar og niðurstöðu greininga á verðmætamati í 3. áfanga RÁ (dagskrárliður 1). Meðal annars var ákveðið að sameina skyld undirviðföng og uppfæra vægi og vogtölur undirviðfanga og viðmiða. Þessar breytingar ættu að gera matið skilvirkara, án þess að hafa afgerandi áhrif á heildarniðurstöðuna.
Í lýsingunni verður gerð grein fyrir öllum breytingum á aðferðafræðinni. Auk þess verður reynt eftir föngum að skerpa textann og bæta við skýringum til að koma til móts við athugasemdir og ábendingar er komu fram á samráðsfundum með hagsmunaaðilum sl. haust.
Faghópurinn stefnir að því að ganga að mestu frá lýsingu aðferðfræðinnar fyrir lok júní; þó með þeim fyrirvara að einstakir þættir geti tekið breytingum í ljósi nýrra rannsókna, m.a. þeirra sem eru að hefjast á vegum faghópsins. Það á ekki síst við um aðferðafræði við mat á svæðum fyrir vindorkuver, þar sem eftir er að vinna umtalsverða þróunarvinnu á næstu mánuðum og árum.
3. Starfið framundan
- · Ganga þarf sem fyrst frá endurskoðun rannsóknaáætlana og samningum fyrir þau rannsóknaverkefni sem verkefnisstjórn er búin að samþykkja. Viðkomandi tengiliðir /verkefnisstjórar leiði þá vinnu en ÁLA er tilbúin að aðstoða eftir þörfum.
- · Vettvangsferð verkefnisstjórnar og faghópa er áætluð 13. ágúst. Mögulega verður vinnufundur með sérfræðingi um vindorkuver daginn á undan (eða eftir).
- · Óska þarf eftir fundi með sérfræðingum Náttúrufræðistofnun og e.t.v. fleiri stofnana síðsumars eða í haust til að fá yfirlit yfir stöðu mismunandi gagnagrunna um náttúru- og menningarminjar og nýtingu þeirra við mat á orkukostum.
- · Rætt um að halda vinnufund með völdum sérfræðingum í okt.-nóv., til að taka saman faglega þekkingu um tengsl mismunandi viðfanga sem faghópurinn metur. TGG geri drög að lýsingu og dagskrá.