25. fundur faghóps 1, 25.08.2020

Fundarfrásögn

Faghópur 1 

í 4. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

25. fundur, 25. ágúst 2020 kl. 9:30-10:30

Fjarfundur á Teams

FUNDARGERÐ

Mætt úr faghópi: Jón S. Ólafsson (JSÓ), Sólborg Una Pálsdóttir (SUP), Tómas Grétar Gunnarsson (TGG) og Þorvarður Árnason (ÞÁ) og Ása L. Aradóttir (ÁLA) er ritaði fundargerð.

Forföll: Kristján Jónasson (KJ)

Fundarfrásögn

  1. Frágangur samninga vegna vettvangsvinnu sumarsins hefur gengið hægt en nú er komið grænt ljós á flesta verkþætti. 
    • Útlit er fyrir að gögn um vatnalíf á virkjanasvæðum á Vestfjörðum náist um miðjan september og öflun gagna fyrir viðfang landslag og víðerni stendur yfir. Ekki er vitað hvort fyrirhugaðri loftmyndatöku er lokið (viðbót: samkvæmt upplýsingum frá KJ náðist loftmyndataka á Vestfjörðum ekki fyrri partinn í ágúst vegna óhagstæðra veðurskilyrða en búið að taka myndir á virkjunarsvæði Hamarsvirkjunar). 
    • Vettvangsvinna vegna viðfangs menningarminja er ekki hafin en gert er ráð fyrir að hægt verði að fara í hana þegar samningar skýrast. ÁLA hafi samband við formann verkefnisstjórnar og fulltrúa ráðuneytis til að þoka áfram því sem út af stendur.
  2. Önnur verkefni á vegum faghópsins ganga almennt vel. Samantekt á gögnum um lífríki vatnavistkerfa er langt komin og von er á fyrstu skýrslunni fljótlega. Sama á við um verkefni er snýr að flokkun fuglalands. Vinna við að koma fornleifaskráningu fyrir áherslusvæði RÁ inn í gagnagrunna er sömuleiðis hafin. Verkefni varðandi viðmið um kortlagningu óbyggðra víðerna og landslagsáhrif vindorkuvera eru sömuleiðIs langt komin en endanlegur frágangur þeirra hefur tafist af óviðráðanlegum orsökum.
  3. Fyrirsjáanlegt er að niðurstöður þessara verkefna munu nýtast vel, ekki bara í matsvinnu í núverandi áfanga RÁ heldur einnig í komandi áföngum. Einnig hafa þær ótvírætt fræðilegt gildi og bæta við þekkingu á náttúru Íslands. Rætt var um mögulega kynningu á niðurstöðunum í vetur, t.d. með málþingi. Einnig mikilvægi þess að niðurstöður faghópsvinnunnar verði gerðar aðgengilegar í gegn um vefsjá í samræmi við stefnu stjórnvalda um opið aðgengi, gegnsæi og upplýsingagjöf til almennings.

Fleira var ekki á dagskrá. Næsti fundur faghópsins er áætlaður eftir miðjan september, nema sérstök ástæða sé til að flýta honum.