4. fundur faghóps 1, 15.10.2018

Fundarfrásögn

Faghópur 1 

í 4. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða 

4. fundur 15. október 2018 kl. 12:30 til 16:10

Fundur faghóps 1 og virkjunaraðila

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

 

Mætt voru

Úr faghópi 1: Ása L. Aradóttir (ÁLA), formaður, Jón S. Ólafsson (JSÓ), Kristján Jónasson (KS), Sólborg Una Pálsdóttir (SUP), Tómas Grétar Gunnarsson (TGG) og Þorvarður Árnason;

Gestir, fulltrúar virkjunaraðila (sátu fundinn til kl. 15:45): Jóna Bjarnadóttir (JB), Óli Grétar Sveinsson (ÓGS) og Helgi Jóhannesson (HJ) frá Landsvirkjun (Lv); Sigurjón Kjærnested (SK) og Sigurlilja Albertsdóttir (SA) frá Samorku; Heiða Aðalsteinsdóttir (HA) frá On og OR; 

Frá verkefnisstjórn Rammaáætlunar: Guðrún Pétursdóttir (GP), formaður, Magnús Guðmundsson  (MP), varaformaður, Elín Líndal (EL).

Allir fundarmenn voru á staðnum nema ÞÁ og EL sem tengdust fundinum í gegn um fjarfundasíma

Glærukynning faghóps 1

 

Viðfangsefni fundarins var samráð milli faghóps 1 í RÁ-4 og virkjunaraðila um aðferðafræði faghópsins.

 

Fulltrúar faghópsins kynntu í sameiningu helstu forsendur og þætti aðferðafræðinnar ( sjá meðfylgjandi glærur ) og bentu sérstaklega á breytingar sem urðu á milli RÁ-2 og RÁ-3.

ÁLA benti á að faghópurinn væri þarna til að hlusta á sjónarmið virkjunaraðila og lagði áherslu á að fjalla sem mest almennt um aðferðafræðina frekar en um niðurstöður fyrir einstaka virkjunarkosti í RÁ-3. Nokkrar umræður urðu um einstaka þætti sem gerð verður stuttlega grein fyrir hér á eftir.

  • Áhrifasvæði vindorkuvera: Í RÁ-3 var miðað við 25 km radíus út frá miðju virkjanasvæðis. Vindorkuver höfðu ekki áður verið tekin til mats í RÁ og því þurfti faghópurinn að ákveða afmörkun áhrifasvæðisins. Byggt var á fyrirliggjandi sýnileikagreiningum frá framkvæmdaaðila og bætt við 5 km buffer-svæði. SK benti á hvort ekki væri ástæða til að miða frekar við sýnileikasvæði. Rætt um að slíkt væri æskilegt en kalli á talsvert nákvæm gögn frá virkjunaraðilum.
  • Áhrifasvæði vatnsaflsvirkjana: Fulltrúar Lv bentu á skilgreind áhrifasvæði ofan stíflumannvirkja væru samkvæmt skilgreiningu oft mjög stór (allt vatnasvið ofan stíflu) og að áhrif virkjananna geti verið takmörkuð á þeim hlutum vatnasviðsins sem er lengst frá mannvirkjum. Tekið var dæmi um ófiskgenga fossa ofan lóns sem brjóti upp samfellu hjá fiskistofnum og hvort í slíkum tilvikum gæti nægt að skilgreina áhrifasvæði upp að næsta fossi. Nærsvæði mannvirkjanna hlytu að vega þyngst og það gæti verið æskilegt að skilgreina áhrifasvæðin þrengra; en kalla stærri svæðin (vatnasviðin) athugunarsvæði.

Fulltrúar í faghópnum greindu frá því að áhrifasvæðin hefðu mikið verið rædd í síðustu rammaáætlunum og yrði því eflaust haldið áfram í þessari. Þau bentu m.a. á að þótt umfang áhrifa sé mismunandi fyrir mismunandi viðföng (sem kemur fram í áhrifamatinu), sé illmögulegt annað en að byggja verðmætamat á sambærilegu svæði fyrir öll viðföng. Í máli JSÓ kom fram að þó að fossar hafi áhrif á fiskgengd valdi þeir ekki endilega rofi í samfellu hjá öðrum lífverum sem lifa í vatni, t.a.m. skordýrum. SUP benti á að oft væri mikil óvissa um áhrifin, m.a. vegna óvissu um umfang og staðsetningu mannvirkja.

  • Í framhaldi af umfjöllun um umsagnarferli um gæði gagna velti HA því upp hversu nákvæmar upplýsingar um einstök svæði þurfi að vera í rammaáætlun; ekki síst í ljósi þess að einstakar framkvæmdir eigi þá bæði eftir að fara í gegn um mat á umhverfisáhrifum og leyfisveitingaferli. Fulltrúar í faghópnum bentu á að léleg gæði gagna auki hættu á að síðar geti komið fram upplýsingar sem gætu breytt niðurstöðu matsins verulega. Því sé gefin einkunn fyrir gæði gagna fyrir öll viðföng fyrir alla virkjunarkosti, og að þetta sé einn af þeim þáttum sem geti haft áhrif á röðun virkjunarkosta í biðflokk. Mismunandi svæði séu misvel rannsökuð og því séu gæði gagna afar mismunandi á milli svæða og milli viðfanga. Skortur á grunnupplýsingum um náttúru og menningarminjar landsins er e.t.v. einn helsti flöskuhálsinn fyrir því að allir sitji við sama borð i matinu. Þó að talsvert hafi áorkast á síðustu árum með tilkomu nákvæmari gagnagrunna, t.d. um jarðfræði og vistgerðir, er staðreyndin sú að upplýsingar um svæðin eru afar mismiklar og misnákvæmar.
  • Í umfjöllunum um einstök viðmið bentu KJ og ÁLA sérstaklega á áhrif laga um náttúruvernd nr 60/2013, er tóku gildi undir lok vinnu í RÁ-3. Markmið laganna er m.a. að vernda til framtíðar fjölbreytni íslenskrar náttúru, þar á meðal líffræðilega og jarðfræðilega fjölbreytni og fjölbreytni landslags. Þá eru markmið um vernd bæði jarðfræðilegra og vistfræðilegra ferla og þróun íslenskrar náttúru á eigin forsendum, auk þess að vernda það sem þar er sérstætt eða sögulegt.
    Bent var á að í náttúruverndarlögum sé einnig mikil áhersla á stök eða náttúrufyrirbrigði sem hætta sé á að týnist í fjölþáttagreiningu eins og þeirri sem faghópur 1 beitir. Reynt er að koma til móts við það gátlistum yfir stök sem hafa sérstöðu eða sérlega mikið verndargildi, t.d. svæði á náttúruminjaskrá, friðlýstar tegundir, o.s.frv. Slíkir gátlistar geti haft áhrif á röðun svæða samkvæmt AHP greiningu, þannig að svæði raðist ofar eða neðar en meðaleinkunn þeirra segir til um.
  • TGG fjallaði um viðfangið fugla og útskýrði hvernig einkunnagjöf fyrir mismunandi undirviðföng fugla er byggð upp og á hvaða upplýsingum er byggt. Nálgunin verður væntanlega hliðstæð og í RÁ-3 þar sem helstu staðtölur sem eru bornar saman milli svæða eru tegundafjöldi, fjöldi einstaklinga af mismunandi tegundum og sjaldgæfar tegundir. Til hliðsjónar er alþjóðleg ábyrgð á ýmsum fuglastofnum sem skilgreind er í alþjóðlegum samningum og gögnum er málið varða. Ýmis ritrýnd gögn og skýrslur liggja til grundvallar ásamt gögnum frá Náttúrufræðistofnun Íslands og válista.
  • JSÓ sagði frá því að töluvert sé til af gögnum um lífríki straum- og stöðuvatna á hinum ýmsu stofnunum. Þær upplýsinga sem þar er að finna eru þó frekar brotakenndar og þyrfti nauðsynlega að skoða heildstætt til að fá betri yfirsýn. Hann dró m.a. fram sérstöðu lindarvatna hvað varðar fjölbreytni og framleiðni lífríkis. Vistkerfi lindarvata eru á margan hátt sérstök m.a. vegna stöðugleika þeirra og frjósemi. Víða hefur þeim því miður verið raskað m.a. vegna orkunýtingar.
  • ÞÁ reifaði stuttlega rannsóknir á landslagi og víðernum í RÁ-2 og 3 og sagði frá þeim nýju rannsóknum sem hafnar eru í RÁ-4. Þær snúa einkum að þróun aðferða við mat á gildi landslags og við kortlagningu óbyggðra víðerna, auk kortlagningar og greiningar á menningarminjum á miðhálendinu. Hann ræddi einnig um styrkari lagalegar stoðir fyrir skilgreiningu og verndun landslags og víðerna eftir gildistöku laga um náttúruvernd nr. 60/2013 og samþykktar þingsályktunartillögu um landskipulagsstefnu 2016-2025. Í þeirri síðarnefndu er gert ráð fyrir að útbúið verði kort af víðernum hálendisins er nýtist inn í vinnu faghópsins.

JB spurði út í að hve miklu leyti væri hægt að byggja á vinnu um mat á landslagi og víðernum á því sem þegar hefur verið gert í öðrum löndum. ÞÁ svaraði að höfð hafi verið hliðsjón af slíkri vinnu erlendis, enda væri rík hefð t.d. fyrir landslagsgreiningu í nágrannalöndum okkar. Þær aðferðir sé þó ekki hægt að heimafæra beint upp á landslag og víðerni á Íslandi; rætt hafi verið ítarlega um þetta efni í skýrslunni um Íslenska landslagsverkefnið sem út kom árið 2010.

  • Skv. SUP er talið að aðeins um 30% menningarminja séu þegar skráð. Þetta takmarkar mjög mat á vissum svæðum, m.a. vegna þess að svo takmarkað úrtak geri erfitt fyrir um að meta þætti eins og fágæti og sérstæði.  
MG benti á átak í kortlagningu menningarminja á miðhálendi sem gefur mikilvægan samanburð og nýtist við þróun á aðferðafræði.

  • SUP minntist einnig á vandamál við áhrifamat. Í framhaldi af því var rætt um möguleika á að byggja á mismunandi áhrifabeltum (var gert að hluta í RÁ-3). Rætt um mikilvægi þess að fá betri upplýsingar um áhrif einstakra virkjana á bæði náttúru- og menningarminjar (og samfélag). Í því sambandi sögðu fulltrúar Lv frá því að fyrirtækið ynni að úttektum á fjölþættum áhrifum virkjana, m.a. á  Þjórsársvæðinu, en fyrirhugað er að sú skýrsla komi út um mitt næsta ár.  
  • Rætt var hvort rétt væri að meta saman áhrif mismunandi virkjana, vatns, jarðhita og vinds, þar sem um svo ólík mannvirki væri að ræða. Fulltrúar faghópsins minntu á að RÁ væri ætlað að fjalla um nýtingu eða vernd landsvæða, en ekki um fýsileika mismunandi virkjanakosta sem slíkra.

HÁ þakkaði fyrir greinargóðar upplýsingar um aðferðafræðina. Í framhaldi af því talaði MG um að mikilvægt væri að kynna aðferðafræðina betur fyrir samfélaginu.

SK spurði hvort virkjunaraðilar hefðu tækifæri til að koma skriflegum ábendingum til faghópsins um einstök atriði. Var því vel tekið. Einnig talaði hann um að samtalið þyrfti að halda áfram eftir að búið væri að fara betur í aðferðafræðina. 

ÓGS lagði áherslu á að áhrifasvæðin væru oft vítt skilgreind, þannig að nærsvæði fái ekki næga umfjöllun og mikilvæg stök vegi lítið í heildareinkunn.

Fulltrúar virkjunaraðila þökkuðu fyrir fundinn og ræddu mikilvægi áframhaldandi samráðs. Þau yfirgáfu fundinn kl. 15:45.

Fulltrúar úr stjórn RÁ funduðu áfram með faghópnum og var einkum rætt um starfið framundan og fyrirhugaðan kynningarfund með fulltrúum náttúruverndarsamtaka 5. nóvember. GP minnti á að faghóparnir þurfi að skila inn lýsingu á aðferðafræði áður en kallað er eftir orkukostum. Æskilegt sé að það dragist ekki of lengi.

 

Fundi var slitið kl. 16:10