6. fundur faghóps 1, 22.01.2019
Fundarfrásögn
Faghópur 1
í 4. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða
6. fundur 22. janúar 2019 kl. 15-16:30
Fjarfundur (Zoom)
Mætt: Þorvarður Árnason (ÞÁ), Kristján Jónasson (KJ), Jón S. Ólafsson (JSÓ), Sólborg Una Pálsdóttir (SUP) og Ása L. Aradóttir (ÁLA). Tómas Grétar Gunnarsson boðaði forföll.
- Umræða um áhrif vindorkuvera í framhaldi af málþingi 9. janúar sl.
- Góð aðsókn að málþinginu sýndi mikinn og breiðan áhuga á viðfangsefninu. Graham Marchbank (GM), skoskur sérfræðingur á sviði vindorku, hélt þar fyrirlestur auk framlaga frá innlendum aðilum sem opnuðu umræðuna vel. Rætt var um að framlag GM hafi einkennst nokkuð af bakgrunni hans í skipulagsfræði og hefði náttúrufræðingur líklega gefið aðra mynd. Hins vegar kom hann ÞÁ í samband við sérfræðinga hjá Scottish Natural Heritage (SNH) sem geta gefið betri upplýsingur um áhrif á viðfangsefni faghóps 1, einkum landslag og víðerni. Mun ÞÁ mun funda með einum þeirra síðar í vikunni.
- Vindorkuver hafa áhrif fuglastofna, landslag og víðerni; þeim fylgir yfirborðsrask auk hávaðamengunar og ljósflökts. Áhrifin á einstök viðföng á sviði faghóps 1 eru hins vegar afar mismikil. Á meðan áhrif á víðerni og landslag eru víðfem og mikil eru önnur mun staðbundnari, svo sem yfirborðsrask er getur haft áhrif á góður og jarðfræðifyrirbrigði. Þó ber að hafa í huga að yfirborðsrask og mannvirki geta haft áhrif á ásýnd og heildir, s.s. jarðminja, menningarminja eða vistkerfa.
- ÞÁ lagði til að teknar yrðu saman heimildir um áhrif beislunar vindorku á einstök viðföng, eins og byrjað var á, en ekki lokið, í RÁ-3. Einnig væri mikilvægt fyrir faghópa og stjórn RÁ að spá í áhrif frekari þróunar vindorku, t.d. áhrif á bæði náttúrulegt landslag og menningarlandslag, vindorkuver á grunnsævi líkt og tíðkast í sumum nágrannalöndunum, o.s.frv. Samráðsvettvangur, t.d. RÁ-4 og Skipulagsstofnunar, til að skoða áhrif vindorkuvera og móta stefnu um leiðbeiningar í líkingu við þær sem SNH hefur sett fram gæti verið æskilegur í þessu sambandi. KJ benti í því sambandi á að svæði og minjar sem eru friðlýst eða njóti sérstakrar verndar, t.d. samkvæmt náttúruverndarlögum, ættu að vera sjálfkrafa undanskilin (sbr. flokkur 1 í skosku spatial framework viðmiðunum).
- Afmörkun svæða. Umræða um afmörkun
áhrifasvæða var nokkuð fyrirferðarmikil á fundum með haghöfum, einkum
virkjunaraðilum sem gerðu athugasemdir við að áhrifasvæði vatnsorkuvera væru
almennt mjög stór og að hlutar skilgreindra áhrifasvæða geti verið langt frá
fyrirhuguðum mannvirkjum. Eins og fram hefur komið á fyrri fundum getur hluti
af vandanum legið í því að talað er um áhrifasvæði fyrir bæði mat á verðmætum
svæða og áhrifum framlagðra virkjunarframkvæmda. Í því síðarnefnda er tekið
tillit til þess að áhrif orkuvinnslunnar eru mest á virkjunarsvæðinu sjálfu en
síðan eru belti út frá því þar sem áhrifin fara dvínandi. Til að draga úr hættu á að þetta valdi misskilningi
þarf að draga betur fram muninn á verðmætamati og áhrifamati í lýsingum á
aðferðafræði faghópsins. Rætt var um hvort ástæða væri til að nota önnur
hugtök, t.d. rannsóknarsvæði eða matssvæði varðandi verðmætamatið, og tala
aðeins um áhrifasvæði í sambandi við áhrifamatið. Þetta gæti þó valdið
ruglingi, enda er að grunni til um sömu svæði að ræða. Einnig þyrfti þá að kanna vandlega hvort
einhverjar líkur væru á að slíkt geti haft áhrif á túlkun niðurstaðna
faghópsins.
- Vatnsorkuver: Í RÁ-3 var notuð afmörkun sem spannar bæði vatnafræðilega samfellu og vistfræðileg tengsl, þ.e. vatnasvið ofan fyrirhugaðra stíflumannvirkja en meginfarveginn og næsta nágrenni neðan hans. Fyrir sum viðföng, svo sem vatnalíf og vatnafar, getur áhrifa gætt yfir allt vatnasviðið og því er sú afmörkun sem notuð var í RÁ-3 rökrétt fyrir þessi viðföng. Það myndi auka flækjustigið að nota mismunandi afmörkun fyrir mismunandi viðmið hjá faghópi 1 og byði heim hættu á því að mismunandi virkjunarkostir verði ekki samanburðarhæfir. Þegar metin eru áhrif einstakra virkjunarhugmynda vega áhrifin á mannvirkjabeltinu og önnur næráhrif oftast mest, þó að ýmis fjaráhrif geti einnig skipt máli í sambandi við einstök viðföng. xxxTalsvert var rætt um hvort hægt væri að nálgast afmörkun vatnsorkusvæða á einhvern annan hátt, en niðurstaðan var sú að það væri ekki æskilegt vegna þeirra þátta sem taldir eru hér að ofan, auk þess sem það gæti leitt til skorts á samfellu á milli mismunandi áfanga RÁ.
- Jarðvarmaver: Afmörkun jarðhitasvæða var í RÁ-3 dregið eftir útbreiðslu háhita eftir viðnámsmælingum að viðbættu 1-2 km jaðarsvæði, en stækkað ef líkur voru taldar á að áhrif vinnslunnar næðu út fyrir viðnámssvæði eða landslagsheild. Svipuð afmörkun var notuð í RÁ-2 nema á stærstu háhitasvæðunum þar sem staðsetning virkjunarhugmynda eða mannvirkja lá ekki fyrir; þar var litið á viðkomandi svæði sem eina heild. KJ benti á að við verðmætamat væri eðlilegra að miða við megineldstöð eða eldstöðvakerfi frekar en að búta þau niður í mörg lítil virkjunarsvæði, stundum hlið við hlið. Slík náttúruleg afmörkun væri æskileg þar sem virkjun á einum hluta slíks svæðis getur haft áhrif á verðmætamat annarra hluta þess. Það þarf að skoða hvort hægt sé að taka upp í þessum áfanga. Rætt um að SUP sendi minnisblað um afmörkun jarðhitasvæða til faghópsins.
- Vindorkuver voru í fyrsta skipti tekin til mats í RÁ-3. Afmörkun þeirra byggðist f.o.fr. á sjónrænum þáttum og var miðað við 25 km radíus út frá vindmyllum. Hins vegar þarf meiri rannsóknir, þróunarvinnu og stefnumótun til að skilgreina afmörkun þeirra, sbr. lið 1 hér að ofan, m.a. byggt á reynslu annarra þjóða.
- Önnur mál.
- Koma þarf á samráði við faghópa 2 og 3, til að skoða hvort hætta sé á „tvítalningu“ ákveðinna þátta í viðföngum landslags og víðerna (sbr. fundargerð 5. fundar faghóps 1). Ákveðið að ÁLA og ÞÁ sendi póst á formenn faghópa til að óska eftir slíku samráði. Hver hópur tilnefni 2-3 fulltrúa í vinnuhóp er fari yfir viðföng hópanna með hliðsjón af því hvort verið sé að meta sama gildið í fleiri en einum faghópi og gera tillögur til breytinga á viðföngum eða vogtölum ef ástæða þykir til. Samþykkt að tilnefna ÞÁ, TGG og SUP sem fulltrúa faghóps 1.
- Huga þarf að skipulagningu rannsókna ársins á næstu vikum, ekki síst ef þær kalla á útivinnu.
- Fram kom hugmynd um að taka saman lista yfir lykilhugtök sem notuð eru í starfi faghópsins.
- ÁLA minnti þáttakendur á að senda áætlun um vinnuþörf í einstökum verkefnum sem þeim hafa verið eða verða falin.
- JSÓ talaði um mikilvægi þess að halda reglulega fundi; þeir væru afar gagnlegir til að setja sig inn í viðfangsefnin og halda sér við efnið. Ákveðið að halda næsta fund faghópsins á tímabilinu 5.-15. febrúar.
Tucson 22. janúar 2019,
Ása L. Aradóttir