12. fundur verkefnisstjórnar, 04.12.2017

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 4.áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

12. fundur 04.12.2017 12:30-15:30

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

 

Mætt: Guðrún Pétursdóttir (GP), Elín R. Líndal (ERL), Guðrún A. Sævarsdóttir (GAS), Helgi Jóhannesson (HJ), Magnús Guðmundsson (MG), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ) og Þórgnýr Dýrfjörð (ÞD).

Gestir: Jón Ásgeir Kalmansson og Magnfríður Júlíusdóttir, sem sátu í faghópi 3 í 3. áfanga rammaáætlunar, sátu fundinn kl. 12:30-14:15.

  1. Fundur settur kl. 12:30.
  2. Samfélagsleg áhrif: Fram var haldið umræðum um aðferðir til að rannsaka samfélagsleg áhrif virkjanakosta. Á fundinn hafði verið boðið faghópi 3 frá 3. áfanga RÁ. Jón Ásgeir Kalmansson og Magnfríður Júlíusdóttir þáðu boðið. 
  3. Umræður spunnust um eftirfarandi atriði:
    • Mikilvægi þess að funda með íbúum á svæðum þar sem áformað er að virkja, strax og það liggur fyrir hvaða virkjanakosti á að fjalla um í 4. áfanga RÁ .
    • Þótt það sé erfiðleikum bundið að raða virkjanakostum eftir samfélagsáhrifum er mikilvægt að funda með íbúum og haghöfum og rannsaka í hverju samfélagsleg áhrif framkvæmdanna verða fólgin. 
    • Áframhaldandi þróun aðferða m.a. með aðferðum rökræðukannanna en slíkt kallar  á góðan undirbúning þátttakenda.
    • Möguleiki á að skipta starfi faghóps 3 í a) upplýsingagjöf  og kynningu og b) rannsókn á viðhorfum:  
    1. Mikilvægt er að útbúa aðgengilegt fræðsluefni um þá virkjanakosti sem fjalla á um, þannig að almenningur – og haghafar – geti fræðst um þá að vild. Slíkt efni gæti innihaldið annars vegar almennan inngang um orkuframleiðslu á landinu, orkunotkun, valkosti og horfur, og þess háttar – en hins vegar upplýsingar um hvern virkjunarkost sem til umfjöllunar er, þar sem fram kæmi stærð og staðsetning, útlit mannvirkja og áhrif á landslag (með áherslu á myndir/myndbönd),  tenging við flutningskerfið, helstu fjárhagslegar stærðir, væntanleg áhrif á atvinnu, tekjur og útgjöld sveitarfélaga, o.s.frv.
    2. Eftir kynningarþáttinn tæki við rannsókn á viðhorfum almennings, sem mætti gera með viðtölum, spurningakönnunum, íbúafundum o.s.frv.
    • Miklar og góðar umræður spunnust.
    • Klukkan 14:15 var gestum þökkuð aðstoðin og þeir kvaddir.
  4. MG kynnti fundarmönnum kortavefsjá sem Landmælingar Íslands hafa unnið að og getur gagnast starfi verkefnastjórnar.
  5. Rætt um ríkisstjórnarskiptin og sáttmála nýrrar ríkisstjórnar, einkum hvað varðar orkumál.
  6. Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:30


GP ritaði fundargerð.