13. fundur verkefnisstjórnar, 31.01.2018

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 4.áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

13. fundur 31.01.2018 12:00-15:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Guðrún Pétursdóttir (GP), Elín R. Líndal (ERL), Guðrún A. Sævarsdóttir (GAS) (mætti kl. 13:30), Helgi Jóhannesson (HJ), Magnús Guðmundsson (MG), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ), Þórgnýr Dýrfjörð (ÞD) og Herdís Helga Schopka (HHS).

Gestir: Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- auðlindaráðherra (Rh) ( kl. 12:00-13:00), Sif Konráðsdóttir og Orri Páll Jóhannsson aðstoðarmenn ráðherra sátu allan fundinn.

  1. Fundur settur kl. 12:00.
  2. Staða mála: 
    • Rh skýrði í stuttu máli frá sýn sinni á framhald vinnu við rammaáætlun, í samhengi við ákvæði í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar um betri orkunýtingu og gerð orkustefnu til langs tíma. GP fór yfir stöðu verkefnisstjórnar (vstj), þar sem þingsályktunartillaga þriðja áfanga RÁ hefur ekki verið afgreidd af Alþingi, eins og lög gera ráð fyrir. GP kallar eftir leiðbeiningum frá Rh um hvernig vstj geti nýtt tímann sem best, einkum hvort hefja megi undirbúning afgreiðslu tillagna sem eru í biðflokki skv.RÁ3.  Nauðsynlegt er að heimild til þess komi frá Rh, en vstj taki ekki sjálf ákvörðun þar um.   
    • Fyrir dyrum stendur að skilgreina betur hvaða leiðir eru færar í að greina samfélagsleg áhrif virkjanakosta (faghóps 3), og að skoða nánar hvernig standa má að mati á hagrænum áhrifum þeirra, en sérfræðingar hafa lagt til að slíkt mat verði unnið á seinni stigum og aðeins fyrir valda kosti, sökum þess hve umfangsmiklar kostnaðar- og ábatagreiningar eru. Brýnt er að geta nýtt sumarið 2018 til vettvangsrannsókna, en til að svo megi verða þurfa línur um verkheimildir vstj að skýrast hið fyrsta. Til greina kemur að láta vinna rannsóknir á náttúrufari og menningarminjum á ákveðnum svæðum þar sem nokkra virkjanakosti er að finna, til að flýta fyrir ítarlegri rannsóknum þegar fyrir liggur hvaða virkjanakosti vstj á að taka fyrir. Ákveðið var að fulltrúar í verkefnisstjórn listi upp tillögur að verkefnum eða verkþáttum sem verkefnisstjórn getur unnið að á næstu vikum til að flýta fyrir störfum á seinni stigum.   
    • Ýmsum hliðum mála velt upp varðandi framhaldið. HJ ítrekaði nauðsyn þess að niðurstaða fáist um hvort vstj hefur heimild til að taka upp virkjanakosti í verndarflokki, ef fram kemur ný og vægari útfærsla á viðkomandi virkjunarkosti. Einnig rædd nauðsyn þess að gera vinnu vstj skilvirkari með því að Orkustofnun forgangsraði þeim virkjanakostum sem raunhæfastir eru, í stað þess að fyrir vstj séu lagðir margir tugir virkjanakosta hverju sinni.
  3. GP og MG skýrðu frá fundi sem þau áttu sama morgun með orkumálastjóra og nokkrum sérfræðingum Orkustofnunar. Þar voru þeim kynnt  margvísleg kortagögn sem tengjast orkumálum og virkjanakostum og nýst geta verkefnisstjórn og faghópum mjög vel. Fundað verður um hvernig tryggja má greiðan aðgang þeirra að þessum mikilvægu gögnum.
  4. Fleira ekki gert og fundi slitið kl 14:10.


HHS ritaði fundargerð.