14. fundur verkefnisstjórnar, 05.03.2018
Fundarfrásögn
Verkefnisstjórn 4. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða
14. fundur 05.03.2018 13:00-16:00
Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu
Mætt: Guðrún
Pétursdóttir (GP), Elín R. Líndal (ERL), Guðrún A. Sævarsdóttir (GAS) (mætti
kl. 13:30), Helgi Jóhannesson (HJ), Magnús Guðmundsson (MG), Þóra Ellen
Þórhallsdóttir (ÞEÞ), Þórgnýr Dýrfjörð (ÞD) og Herdís Helga Schopka (HHS).
Gestir: Frá Þjóðskrá: Margrét Hauksdóttir forstjóri, Ingi Þór Finnsson verkfræðingur á Mats- og hagsviði, Friðþór Sófus Sigurmundsson landfræðingur á Mats- og hagsviði voru á fundinum kl. 13:30-14:20. Frá Orkustofnun (OS): Erla Björk Þorgeirsdóttir (EBÞ), Sigurður Elías Hjaltason (SEH), og Þorvaldur Bragason (ÞB) voru á fundinum kl. 14:30-15:30.
- Fundur settur kl. 13:00.
- GP segir frá fundi á OS í liðinni viku. Þrír sérfræðingar frá Noregi voru á landinu í tilefni af fundi IEA, en haldinn var sérstakur fundur til að ræða reynslu Norðmanna af rammaáætlun þar í landi. Ljóst að rammaáætlun var mjög mikilvægt tæki til að stýra nýtingu vatnsorku í Noregi, en er nú lokið þar sem fjallað hefur verið um öll mikilvæg vatnsföll og Vatnatilskipun Evrópusambandsins hefur komið í hennar stað. Haakon Thaulow, sem stýrði verkefnisstjórninni áratugum saman, sagði að aðferðafræðin hafi verið barn síns tíma og að í dag myndu félagslegir þættir vera mun veigameiri í matinu.
- Gestir frá Þjóðskrá: Margrét Hauksdóttir kynnir verkefni Þjóðskrár Íslands við skráningu orkumannvirkja og vatnsréttinda í landfræðilegan gagnagrunn, en skort hefur samræmda skrá um þessi efni. Sófus og Ingi fóru yfir þær upplýsingar sem skráðar eru og sýndu dæmi úr kortagrunninum. Mikilvægt er að verkefnisstjórn og vinnuhópar rammaáætlunar fái að nota þessar upplýsingar í sinn samræmda kortagrunn og í þeirri vinnu sem framundan er.
- Gestir frá
Orkustofnun:
- Rætt um málefni rammaáætlunar almennt og hvernig menn sjá fyrir sér framhald vinnunnar. GP spyr hvað gestirnir frá OS telji rétt að gera í núverandi stöðu. OS leggur áherslu á orkuöryggi sem háð er skilvirkum orkuflutningi um landið, og óttast að nú stefni í að landshlutar verið orku-eyjar þar sem flutningskerfið ræður ekki við að flytja orku milli landshluta eins og þarf á háannatímum. Langstærsti hluti orku hérlendis er framleiddur á gosbeltinu og brýnt er að draga úr áhættunni sem því fylgir með því að staðsetja orkuver utan beltisins. Nokkrar umræður spunnust um virkjanir undir 10MW, þ.e. þær sem eru undir lágmarki rammaáætlunar. Aðspurð svaraði Erla að í núverandi lagaumhverfi væri hægt að stækka slíkar virkjanir í áföngum sem hver um sig væri undir 10 MW (t.d. í 9,9 MW skrefum) án þess að þær kæmu til umfjöllunar hjá rammaáætlun.
- ÞB og SEH kynntu kortasjá/landupplýsingagrunn OS, sem er mjög aðgengilegur og skýr. Enn eru aðeins virkjunarkostir OS inni í sjánni og þarf að bæta úr því. Til bóta væri ef orkufyrirtæki/virkjunaraðilar skiluðu inn LUK-gögnum á sama formati og OS notar. Einnig væri þarft að útbúa 3-D gögn, sem hægt vær að skoða t.d. í Google Earth, sem gætu m.a. nýst vel þegar virkjanakostir væru kynntir almenningi.
- Unnið verður að því að setja upp sérstakan vettvang innan kerfis OS fyrir RÁ, þar sem safnað verður öllum upplýsingum sem að gagni mega koma. Safna þarf viðbótargögnum frá viðeigandi stofnunum og útbúa þekjur með mismundandi upplýsingum, s.s. menningarminjum, gróðurfari, fuglalífi o.s.frv. Mikið efni er til hjá ýmsum stofnunum, s.s. kortasjá LMÍ vegna miðhálendisþjóðgarðs. LUK-gögn fyrir langflesta virkjunarkosti sem fjallað var um í 3. áfanga RÁ eru til. MG bendir á mikilvægi þess að komast hjá tvíverknaði í kortavinnu og leggur til að OS velji þann hugbúnað sem þeim henti best til að vinna kortasjána áfram.
- Ákveðið var að nýta þá miklu vinnu sem þegar hefur farið fram hjá OS við að safna saman rafrænum kortum og tengdum upplýsingum varðandi orkumál og tillögur orkufyrirtækja einnig í vinnu vegna rammaáætlunar og vinnuhópa. Þannig verði sem best nýtt sú mikla sérþekking sem þegar er fyrir hendi hjá OS. Rætt um að skipta vinnu við kortamálin í eftirfarandi áfanga:
- RÁ fái sem allra fyrst aðgang að kortasjá OS sem sýnir yfirlit yfir virkjunarkosti í rammaáætlun eins og það sem sýnt var á fundinum.
- RÁ fái aðgang að kortasjá sem sýnir mannvirki allra virkjunarkosta á sambærilegan hátt og hægt er að skoða virkjunarkosti OS í dag og var einnig sýnd á fundinum.
- Útbúin verði sérstök kortasjá fyrir RÁ með fleiri “þekjum” sem gæti verið bætt við í áföngum.
- Kortastjá fyrir almenning til að kynna hugmyndir og tillögur verkefnisstjórnar m.a. á samráðsgátt stjórnarráðsins. ÞB falið að vinna tillögur að framangreindu sem fyrst þar sem m.a. kemur fram mögulegur viðbótarkostnaður vegna sérvinnu fyrir verkefnisstjórnina. MG verður tengiliður við OS í þessu verkefni.
- Rannsóknir sumarsins. Brýnt er að nýta sumrin til rannsókna. Meðan ákveðnir virkjanakostir liggja ekki fyrir, má búa í haginn með því að vinna að rannsóknum á stærri svæðum, sem mikilvæg eru fyrir orkuvinnslu. Fundað verður á næstunni með Náttúrufræðistofnun og formanni faghóps 1 til að kanna hvaða rannsóknir eru fyrirhugaðar í sumar.
- Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:00.
HHS ritaði fundargerð.