3. fundur verkefnisstjórnar, 12.06.2017

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 4.áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

3. fundur 12.06. 2017 09:00-12:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneyti

 

Mætt, aðalmenn:  Guðrún Pétursdóttir (GP), Elín R. Líndal (ERL), Guðrún A. Sævarsdóttir (GAS), Helgi Jóhannesson (HJ), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ) og Þórgnýr Dýrfjörð (ÞD).

Mætt, varamenn:  Jórunn Harðardóttir (JH), Laufey Jóhannsdóttir (LJ),

Forföll boðuðu: Ágúst Sigurðsson (ÁS), Guðjón Bragason (GB), Magnús Guðmundsson (MG), Ragnheiður H. Þórarinsdóttir


  1. Fundur settur kl 9:00.
  2. Jón Ásgeir Kalmansson, formaður faghóps 3 í 3.áfanga rammaáætlunar, gerði grein fyrir starfi hópsins. Skammur tími setti faghópnum skorður, einkum þar sem móta þurfti aðferðir við að meta áhrif mögulegra virkjana á samfélög. Sú leið var farin að fá aðstoð Félagsvísindastofnunar við að undirbúa og halda íbúafundi á völdum svæðum og gera spurningakannanir bæði á þeim svæðum og yfir landið allt. Umræður spunnust um að brýnt er að íbúum finnist ekki komið aftan að sér með tillögum um virkjunarkosti. Kynna þarf mögulega virkjunarkosti svo fljótt sem auðið er, og veita eins greinargóðar upplýsingar og mögulegt er um fyrirhugaðar virkjanir. Leita þarf leiða til þessa í samvinnu við Orkustofnun.
  3. Stefán Gíslason formaður verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar gerði grein fyrir starfi verkefnisstjórnar í heild. Hann lagði áherslu á að verkefnisstjórn er hlekkur í langri keðju, með afmarkað verksvið og skyldur. Með reynslunni slípast verkferlar og batna, en fara þarf gætilega í að breyta aðferðum. Hann ræddi samsetningu faghópa og mikilvægi þess að í þá veldust færustu sérfræðingar á hverju sviði, sem jafnframt hefðu ekki hagsmunatengsl sem hömluðu hlutlægu starfi. Gott samstarf milli faghópa væri einnig mikilvægt. Umræður sköpuðust um viðfangsefni og verklag faghópanna og verkefnisstjórnar, vettvangsferðir, kynningarmál og fundi verkefnisstjórnar úti um land, og samstarf við Orkustofnun. 
  4. Fleira ekki gert og fundi slitið kl 12:00

GP ritaði fundargerð