35. fundur, 31.10.2019
Fundarfrásögn
Verkefnisstjórn 4. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða
35. fundur 31.10.2019 kl 11-13
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
Mætt: Verkefnastjórn RA4: Guðrún Pétursdóttir, Elín R. Líndal, Guðrún Arnbjörg Sævarsdóttir, Hilmar Gunnlaugsson (á fjarfundi), Magnús Guðmundsson.
Formaður faghóps 1: Ása Lovísa Aradóttir.
Fjarverandi: Þórgnýr Dýrfjörð vegna veikinda.
Þorbjörg Auður Ævarr Sveindsdóttir sérfræðingur UAR aðstoðaði við tæknimál.
Dagskrá:
Yfirferð korta vegna afmörkunar friðlýsingarsvæða frá RÁ3
Afmörkun verndarsvæða
Önnur mál
1. Yfirferð korta vegna afmörkunar friðlýsingarsvæða frá RÁ3
GP og MG gerðu grein fyrir því sem gerst hefur varðandi afmörkun friðlýsingarsvæða sem rædd var á síðasta fundi, 23. okt 2019. Eftir fundinn barst bréf UAR þar sem óskað er eftir að verkefnisstjórn RÁ4 fari yfir tillögur verkefnisstjórnar RÁ3 og tryggi nákvæmni afmarkana þeirra landsvæða sem verkefnisstjórn RÁ3 lagði til að yrðu vernduð. GP og MG hafa óskað eftir aðstoð Landmælinga Íslands og Veðurstofu Íslands, sem hafa tekið erindinu vel. Fundað hefur verið með sérfræðingum, skipst á gögnum og vinnan er hafin.
Umræður sköpuðust um það hvort verkefnisstjórn tæki með þessari vinnu ábyrgð á verndartillögum verkefnisstjórnar RÁ3, eða gerði þær tillögur að sínum. Verkefnisstjórn RÁ4 er ekki tilbúin til þess, heldur lítur alfarið svo á, að hennar aðstoð sé eingöngu tæknilegs eðlis, þ.e. að fara yfir þær afmarkanir sem lagðar eru til af RÁ3 og kanna hvort misræmi er milli þeirra og fyrirliggjandi gagna Veðurstofu Íslands og Landmælinga Íslands um viðkomandi vatnasvið.
GP og HG falið fylgja þessu frekar eftir.
2. Afmörkun verndarsvæða
GS hafði óskað eftir umræðu um orðalag í greinargerð með frumvarpi til laga um rammaáætlun (44/2011), en í kafla 6 um virkjunarkosti og afmörkun kemur fram að þar sem fleiri en einn virkjunarkostur geti verið í sama fallvatni og áhrif hvers kosts fari eftir útfærslu virkjunarinnar geti mismunandi virkjunarkostir á sama virkjunarsvæði lent í mismunandi flokkum. Hins vegar komi til álita að vernda heil vatnasvið eða að friðlýsa hluta vatnasviðs.
Umræða skapaðist um það hvort flokkun virkjunarkosts í verndarflokk hafi alltaf í för með sér tillögu um vernd alls vatnasviðs ofan stíflu. ÞEÞ og ÁLA skýrðu að það eru verðmæti svæða sem ráða tillögu um flokkun í vernd. Tillaga um vernd byggir á því að viðkomandi virkjunarsvæði telst mjög verðmætt af mörgum ástæðum. Verðmætin kunna að vera misdreifð en alla jafna er víðfeðmast það sem lýtur að vatnalífi/vatnafari og landslagi/víðernum. Ef margir virkjunarkostir eru í sama fallvatni, er hver og einn þeirra metinn fyrir sig.
3.Önnur mál voru ekki borin upp og fundi slitið kl 13:00
GP ritaði fundargerð