42. fundur 27.04.2020

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 4. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

42. fundur 27. apríl 2020 kl. 16:15-17:45

Fjarfundur á Teams

Mætt voru: 

Verkefnisstjórn: Elín Líndal, Guðrún Pétursdóttir, Guðrún Sævarsdóttir, Hilmar Gunnlaugsson, Magnús Guðmundsson, Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Þórgnýr Dýrfjörð.

Formenn faghópa: Anna Dóra Sæþórsdóttir, Ása L. Aradóttir, Jón Ásgeir Kalmansson og Sigurður Jóhannesson.

Frá UAR: Þorsteinn Sæmundsson

Dagskrá

  1. Öflun nauðsynlegra gagna og kynningar virkjanaaðila

  1. Forgangsröðun verkefna

  1. Ný verkefni faghópa

  1. Vettvangsferð RÁ4 2020

  1. Önnur mál

  1. Öflun nauðsynlegra gagna og kynningar virkjanaaðila

Formaður sagði frá samtali sínu og Guðna Jóhannessonar orkumálastjóra um þau gögn sem verkefnisstjórn og faghópar telja nauðsynleg svo hægt sé að meta hugmyndir um vindorkuver. OS yfirfór ekki innsend gögn virkjanaaðila vindorku á þessu ári, heldur áframsendi þau beint til verkefnisstjórnar. OS lét þess jafnframt getið að frekari gagna kynni að verða óskað. Það varð að samkomulagi að formaður sendi OS formlega ósk um að stofnunin kynni virkjanaaðilum þær kröfur sem verkefnisstjórn gerir um gögn vegna vindorkuvera. Slíkt bréf var sent Orkumálastjóra 22. apríl 2020.

Hvað varðar aðra orkukosti, mun formaður hafa beint samband við virkjanaaðilana um þau stafrænu kort sem faghóparnir þurfa á að halda, þar sem ekki var farið formlega fram á þau þegar lýst var eftir kostum. Verkefnisstjórn mun síðan koma á framfæri við OS upplýsingum um hvaða gögn hún þarf til að meta virkjanakosti, svo þær liggi fyrir áður en lýst verður eftir kostum næst.

Í vinnu RÁ3 gafst vel að bjóða virkjanaaðilum að kynna virkjanahugmyndir sínar fyrir verkefnisstjórn og faghópum. Lagt er til að RÁ4 geri það líka, og mun formaður hafa samband við virkjanaaðila um það og boða verkefnisstjórn og alla faghópa á slíka fundi á Teams innan skamms. Beðið verður með að bjóða þeim virkjanaaðilum vindorku sem ljóst er að þurfa ráðrúm til að senda inn frekari gögn áður en lengra er haldið.

  1. Forgangsröðun verkefna

Þar sem naumur tími er til stefnu er ákveðið að beina kröftum faghópanna fyrst að kostum sem eru vel skilgreindir og þar sem þörf fyrir gögn er að mestu mætt. Það á til dæmis við um tillögur að stækkun núverandi virkjana. Faghópar eru að taka saman hvaða gögn eru til og hvað vantar um hvern virkjanakost. Það er þó ljóst að það mun flýta mjög fyrir allri vinnu ef virkjanaaðilar senda inn stafræn kort sem hægt er að nota í landupplýsingakerfum og sem sýna ætlaða staðsetningu allra mannvirkja sem tengjast virkjunarkostinum. Formaður mun hafa samband við virkjanaaðila vatnsorku- og jarðvarmavirkjana og biðja um slík kort.

Formenn faghópa munu á næstunni bera saman bækur sínar um hvaða kostum vænlegt er að byrja á. Stefnt er að því að allir faghópar vinni að sömu kostum, svo að sem best verði hægt að afgreiða þá. ÁLA mun kalla saman formenn faghópa til slíks fundar eftir 2 vikur.

Formaður greindi frá samtali við ráðherra um forgangsröðun verkefna. Vinnunni verður hraðað eins og hægt er, en þar sem lögin krefjast minnst 4 mánaða kynningarferla á drögum að afgreiðslu verkefnisstjórnar, er ljóst að ekki mun vinnast tími til að ganga formlega frá röðun margra kosta innan RÁ4. Faghópar og verkefnisstjórn munu því miða að því að halda áfram vinnu við mat virkjanakosta eins lengi og hægt er til að ljúka mati á sem flestum kostum og skila þeim í hendur næstu verkefnisstjórnar. Verkefnisstjórn mun ráðfæra sig við lögfræðinga um skilvirkustu leiðir sem lögin leyfa og setja síðan fram tímaáætlun um vinnuna til loka skipunartímans í marslok 2021.

  1. Ný verkefni faghópa

Í RÁ4 hefur tíminn m.a. verið nýttur til að afla nauðsynlegrar þekkingar á ýmsum þáttum sem virkjanir geta haft áhrif á og þar með að flýta fyrir starfi þeirra sem á eftir koma. Þetta á ekki síst við um vindorkuver, sem Íslendingar hafa nánast enga reynslu af. Í ljósi þess að nú hafa borist 34 umsóknir um vindorkuver ætti að vera ljóst að brýnt er að vanda til verka og byggja ákvarðanir á þekkingu. Faghóparnir hafa hug á að halda þeirri vinnu áfram og voru eftirfarandi verkefni lögð fram til umræðu og ákvörðunar

  1. Gerð fræðilegrar samantektar um áhrif vindorkuvera á ferðamennsku og útivist

  1. Gerð fræðilegrar samantektar um áhrif vindorkuvera á búfé, hreindýr og hestatengda ferðamennsku

  1. Gerð fræðilegrar samantektar um samfélagsleg áhrif vindorkuvera

  1. Einföld flokkun á landi með tilliti til mikilvægis þess fyrir fugla

  1. Skráning fornleifa í landupplýsingakerfi í samvinnu við Minjastofnun, þar sem þeim svæðum verður forgangsraðað sem RÁ er að vinna með.

Verkefnisstjórn metur öll verkefnin mikilvæg og að þau muni nýtast hverjum þeim sem þarf að meta áhrif vindorkuvera á komandi árum. Samþykkt að farið verði í þau. Formaður mun kynna þau fyrir Skipulagsstofnun, svo ekki verði tvíverknaður.

  1. Vettvangsferð RÁ4 árið 2020

Vettvangsferð RÁ4 2020 hafði verið áformuð í byrjun júní. Ákveðið að fresta henni fram í ágúst og miðað við dagana 11-14 ágúst 2020. Nánari ákvörðun verður tekin fljótlega, en formaður mun láta faghópa vita af þessari dagsetningu strax.

  1. Önnur mál

Formaður upplýsti um ítrekun á erindi til UAR um lögfræðiálit vegna endurupptöku virkjanakosts sem afgreiddur var í RÁ2.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl 17:30

GP/ÞS rituðu fundargerð