54. fundur, 13. febrúar 2021
Fundarfrásögn
Verkefnisstjórn 4. áfanga rammaáætlunar
um vernd og orkunýtingu landsvæða
54. fundur, 13. febrúar 2021 kl. 14:00-16:00
Fjarfundur á Teams
Mætt voru
Verkefnisstjórn: Guðjón Bragason, Guðrún Sævarsdóttir, Guðrún Pétursdóttir, Hilmar Gunnlaugsson, Magnús Guðmundsson, Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Þórgnýr Dýrfjörð
Formenn faghópa: Ása L. Aradóttir, Anna Dóra Sæþórsdóttir og Jón Ásgeir Kalmansson
Elín Líndal hefur látið af störfum sem aðalmaður í verkefnisstjórn og tekur Guðjón Bragason sæti hennar. Formaður bauð Guðjón velkominn og þakkaði Elínu fyrir hennar góða félagsskap og góðu vinnu fyrir rammaáætlun í áranna rás.
Fram var haldið umræðum um ábendingar til umhverfis- og auðlindaráðuneytis vegna Skýrslu starfshóps um samspil vindorku og rammaáætlunar, Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun (málsmeðferð virkjunarkosta í vindorku), og Tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um staðsetningu vindorkuvera í landslagi og náttúru Íslands.
Faghópur 2 sendi sínar ábendingar í samráðsgáttina 10.febrúar 2021, en aðrir faghópar munu senda sínar ábendingar til ráðuneytisins beint, eins og verkefnisstjórn.
Ýmis sjónarmið komu upp, einkum hvað varðar nauðsyn þess að meta fleiri hagsmuni en nú er lagt til, þegar ákvörðun um heimild til að reisa vindorkuver er tekin. Fjarlægðamörk voru rædd og möguleikar á sveigjanleika þeirra eftir aðstæðum. Augljóslega þarf að gera úrbætur á vefsjánni sem fylgir ofangreindum gögnum, og einnig var rætt um verklagið í þessu ferli.
Hópurinn mun funda með umhverfis- og auðlindaráðuneytinu eftir fáeina daga og koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
Formanni var falið að taka saman endurskoðuð drög að ábendingum nú þegar liggur fyrir að faghópar senda sínar ábendingar sérstaklega.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl 16.
GP ritaði fundargerð