7. fundur verkefnisstjórnar, 18.09.2017

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 4.áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

7. fundur 18.09.2017 12:30-15:30

Umhverfis- og auðlindaráðuneyti

 

Mætt: Guðrún Pétursdóttir (GP), Elín R. Líndal (ERL), Guðrún A. Sævarsdóttir (GAS), Helgi Jóhannesson (HJ), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ), Þórgnýr Dýrfjörð (ÞD), Magnús Guðmundsson (MG) og Herdís Helga Schopka (HHS).

Gestir: Ásdís Hlökk Theodórsdóttir (ÁHT), Birna Björk Árnadóttir (BBÁ) og Jakob Gunnarsson (JG) frá Skipulagsstofnun sátu fundinn kl. 13:10-14:30.

  1. Fundur settur kl 12:35.
  2. Fundargerð síðasta fundar samþykkt.
  3. Tímalína 4. áfanga: HHS kynnti tímalínu rammaáætlunar eins og hún kemur fram í lögunum. Framhald vinnu verkefnisstjórnar rætt, einkum í ljósi nýrra vendinga í stjórnmálum.
  4. Skipulagsstofnun: ÁHT, forstjóri Skipulagsstofnunar, hélt kynningu á stöðu rammaáætlunar gagnvart skipulagslögum og lögum um umhverfismat áætlana og framkvæmda. Meðal atriða sem þar komu fram eru:  
    • Virkjunarkost í biðflokki ber að skilgreina sem varúðarsvæði í skipulagi, þannig að ekki má ráðstafa svæðinu í neitt sem gæti hindrað virkjunar- eða friðlýsingaráform. Þetta vekur upp spurningar um skilgreiningu áhrifasvæða virkjanakosta í biðflokki, sem er á hendi RÁ,  og getur einnig varðað stöðu virkjanakosta undir 10 MW á slíkum svæðum.
    • Í 3. gr. laga um RÁ, nr 48 frá 2011,  er í raun lýst umhverfismati áætlana. Þar sem RÁ fellur undir lög um umhverfismat áætlana þurfa málsmeðferð og efnistök við gerð RÁ að uppfylla skilyrði beggja laga. Skipulagsstofnun bendir á mikilvægi þess að samlegðaráhrif virkjanakosta séu metin, og einnig samlegðaráhrif í ljósi þeirra virkjana sem þegar starfa á viðkomandi svæði. Mikilvægt er að mat á samlegðaráhrifunum sé fléttað inn í matsvinnu verkefnisstjórnar RÁ, en það getur kallað á að settar séu fram nokkrar sviðsmyndir um röðun virkjanakosta t.d. í einstökum landshlutum eða sem hafa áhrif á sambærilegar jarðmyndanir eða landslag. 
    • Skipulagsstofnun telur að orkuflutningsmannvirki, þ.e. tengingu virkjunar við flutningskerfi raforku, þurfi að meta í RÁ.
    • Skipulagsstofnun telur eðlilegt að virkjun vindorku sé hluti RÁ.  Samræma þarf sjónarmið opinberra stofnana um vindorku.
    • Verkefnastjórn þarf að fylgjast með breytingum sem orðið hafa á virkjanakostum og nýjum upplýsingum sem komið hafa fram, s.s. í mati á umhverfisáhrifum, síðan þeir voru til umfjöllunar í fyrri áföngum RÁ.
  5. Tímalína 4. áfanga, frh.: 
    • Verkefnisstjórn vill eiga fundi með sveitarstjórnum og almenningi eins snemma í ferlinu og við verður komið til að kynna verkefnisstjórnina og vinnuna framundan. Kannaðir verða möguleikar á því, t.d. í samvinnu við Samband sveitarfélaga.
    • ÞEÞ leggur til að málefni faghóps 3 um samfélagsáhrif verði sett í forgang í vinnu verkefnisstjórnarinnar.
    • GAS bendir á að verkefnisstjórn þurfi að undirbúa aðferð til að vinna úr niðurstöðum faghópanna og telur rétt að fá aðstoð við það hjá fagfólki.
    • GP leggur til að á næsta fundi verði rætt um hugsanlega formenn faghópa.
  6. Fleira ekki gert og fundi slitið kl 15:25

HHS ritaði fundargerð.