20. fundur faghóps 1, 28.02.2023

Fundarfrásögn

Fundur faghóps 1 

Í 5. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða (RÁ). 

20. fundur – 28. febrúar 2023.   

Fjarfundur

Mætt: Hafdís Hanna Ægisdóttir (HHÆ) formaður, Birna Lárusdóttir (BL), Edda Ruth Hlín Waage (ERW), Guðbjörg R. Jóhannesdóttir (GRJ),  Ívar Örn Benediktsson (ÍÖB), Jón Einar Jónsson (JEJ), Jón S. Ólafsson (JSÓ), Kristín Svavarsdóttir (KS) og Kristján Jónasson (KJ).

Guðný Zoëga (GZ) boðaði forföll.

Fundarritari: BL 

Fundur hófst kl. 9 

  1. Rætt var um stöðu mála við endurmat virkjanakosta sem var breytt við samþykkt 3. áfanga RÁ (Héraðsvötn, Skrokkalda, Kjalölduveita og neðri hluti Þjórsár) með færslu annað hvort í bið- eða nýtingarflokk. Í tilfelli Héraðsvatna er aðallega verið að skoða vistgerðir með hátt verndargildi nánar (sbr. tilmæli frá Alþingi) og mun faghópur 1 vinna endurmatið. Á áhrifasvæði Skrokköldu þarf að kanna áhrif á víðerni og nálægðar við Vatnajökulsþjóðgarð.

  1. HHÆ sagði frá viðhorfskönnun sem faghópur 3 hyggst senda út fljótlega í samstarfi við Félagsvísindastofnun. Velt var upp spurningum á mögulega samlegð við viðfangsefni í faghópi 1.

  1. HHÆ greindi frá því að verkefnisstjórn sé að vinna að matrixu sem inniheldur yfirlit um gögn sem eru til um tiltekna vindorkukosti svo hægt sé að byrja að bera saman og leggja mat á gæði gagna.

  1. HHÆ greindi frá því að verkefnisstjórn vildi hefja skoðun á nokkrum virkjanakostum sem sendir voru 4. áfanga og unnið með að hluta þar (Skúfnavötn; Glámuheiði (Hvanneyrardalsvirkjun og Tröllárvirkjun); Hamarsvirkjun; Bolaalda). Óskað er eftir að faghópur 1 yfirfari kostina, skoði gæði gagna og mat sem þegar liggur fyrir, enda liggur fyrir að þeir renna inn í 5. áfanga RÁ. Mismunandi er hve langt kostir voru komnir í ferlinu og t.d. var Bolaalda ekki tekin til mats í 4. áfanga. Hver og einn sérfræðingur kannar stöðu gagna á sínu sviði fyrir þessa kosti og hefur til reiðu fyrir fund þann 21. mars nk.

  1. Rætt var um kynningarfund verkefnisstjórnar sem haldinn var 15. febrúar sl. í sal Þjóðminjasafns. Almennt þótti fundurinn mjög vel heppnaður.

Fundi slitið kl. 11:03.