64. fundur faghóps 2, 14.02.2024

Fundarfrásögn

Faghópur 2

5. áfangi rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

64. fundur, 14.02.2024, kl. 14:00-17:00

Fundur haldinn í netheimum

Mætt: Anna Dóra Sæþórsdóttir (ADS), Anna G. Sverrisdóttir (AGS), Bryndís Marteinsdóttir (BM), Einar Torfi Finnsson (ETF), Guðni Guðbergsson (GG), Hjörleifur Finnsson (HF), Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir (SSJ) og Unnur Svavarsdóttir (US)

Fundarritari: SSJ

Fundur settur kl. 14:00

1. Staða mála.

ADS greindi frá fundi með verkefnisstjórn. Þar kom fram að verkefnaskil fyrir mat á vatnsafls- og jarðvarmavirkjunarkostum eru í febrúar en vindorkukostum í mars en verkefnastjórnin leggur til að skilum sé skipt upp með þessum hætti. Hún setur sig þó ekki upp á móti því að faghópur 2 skili einni sameiginlegri skýrslu fyrir lok febrúar. Á fundinum kom einnig fram að verkefnisstjórn mun taka kortlagningu víðerna fyrir í lokaskýrslu.

Varðandi misræmi á hæð vindmylla í skýrslum og kynningum virkjunaraðila þá áréttaði verkefnisstjórn að skýrslurnar, sem virkjunaraðilar skiluðu inn til Orkustofnunar, væru þau formlegu gögn sem notast ætti við.

Á fundinum óskaði verkefnisstjórn einnig eftir því að faghópar huguðu að næstu skrefum í framhaldi af skýrsluskilum, þ.m.t. nauðsynlegum rannsóknum og greiningum á öðrum virkjunarkostum fyrir sumarið. Faghópurinn leggur áherslu á að fyrst þurfi að skila skýrslu áður en tími vinnst til að íhuga næstu skref.

2. Niðurstöður og lokaskýrsla

Farið yfir niðurstöður mats á áhrifum virkjunarkosta á ferðaþjónustu. GG greindi frá stöðu mála varðandi mat á áhrifum virkjunarkosta á veiði og BM sýndi niðurstöður fyrir mat á áhrifum virkjunarkosta á landbúnað.

ADS fór yfir nokkur atriði varðandi framsetningu efnis í skýrslu. Rætt um vægi ferðamennsku, landbúnaðar og veiði í lokaútreikningum og ákveðið að réttast væri að miða við sömu hlutföll og í 4. áfanga rammaáætlunar þar sem Covid ár gefa ekki rétta mynd af vægi ferðaþjónustu.

Stefnt að því að fara yfir sameiginlegar niðurstöður á næsta fundi faghópsins þann 19. febrúar og í kjölfarið senda skýrsluna til yfirlestrar. Ef það næst ekki er bókaður fundur til vara þriðjudaginn 20. febrúar.

Fundi slitið kl. 17:00