13. fundur faghóps 3, 21.10.2022
Fundarfrásögn
13. fundur í
faghópi 3 um mat á samfélagslegum áhrifum virkjunarkosta,
21. október 2022 kl. 09:00 – 12:00 í húsnæði Menntavísindasviðs H.Í., Stakkahlíð.
Mætt: Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, Hjalti Jóhannesson, Jón Ásgeir Kalmansson, og Sjöfn Vilhelmsdóttir.
Fundargerð
Umræður um mat á samfélagslegum áhrifum virkjunarkosta í neðri hluta Þjórsár, og nefndarálit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis með þingsályktun um 3. áfanga. rammaáætlunar er að þessum virkjunarkostum lýtur. Ákveðið að leggja til við verkefnisstjórn að Hjalti Jóhannesson og Sjöfn Vilhelmsdóttir kanni með viðtölum og greiningarvinnu hvaða þættir varðandi umrædda virkjunarkosti valdi helst ágreiningi í nærliggjandi byggðum. Verði þeim til dæmis falið að skoða hvort þeir þættir sem nefndir eru í nefndarálitinu varðandi sjálfsmynd íbúa og laxastofninn í Þjórsá ráði þar miklu. Einnig verði þeim falið að koma með tillögur um hvaða frekari rannsóknir og greiningarvinna þurfi að fara fram vegna mats á samfélagslegum áhrifum virkjunarkosta í neðri hluta Þjórsár. Meðal annars verði þeim falið að meta hvort skynsamlegt sé að kanna afstöðu íbúa á svæðinu til umræddra virkjunarkosta, með svipuðu sniði og gert var með skoðanakönnun sem gerð var á vegum faghóps 3 í 3. áfanga rammaáætlunar. Þá verði þeim falið að kanna hvort og þá hvaða ráðstafanir gætu mögulega dregið úr deilum á svæðinu um umrædda virkjunarkosti.
Inn á fundinn, gegnum Teams, komu þær Ásta Kristín Óladóttir og Michaela Hrabalikova frá Landmælingum Íslands. Gerðu þær grein fyrir kortasjá sem þær vinna nú að af þeim vindorkukostum sem fjallað verður um í 5. áfanga rammaáætlunar. Faghópurinn kom á framfæri sínum óskum um hvaða upplýsingar í tengslum við kortasjána gætu sérstaklega komið að notum í mati hans á samfélagslegum áhrifum vindorkukostanna.
Farið var yfir spurningar úr landskönnun frá árinu 2016 á viðhorfum Íslendinga til orkuöflunar og virkjunarkosta, með það fyrir augum að endurskoða hana og leggja fyrir á ný. Guðbjörgu falið að vinna spurningarnar áfram með það fyrir augum að þær verði teknar fyrir á næsta fundi.
Næsti fundur ráðgerður fimmtudaginn 10. nóvember kl. 10.