27. fundur faghóps 3, 19.04.2023

Fundarfrásögn

27. fundur í 

faghópi 3 um mat á samfélagslegum áhrifum virkjunarkosta, 

19. apríl 2023 kl. 10:00 – 10:50 á Teams.


Mætt: Hafsteinn Birgir Einarsson, Hjalti Jóhannesson, Jón Ásgeir Kalmansson og Sjöfn Vilhelmsdóttir.

Fundargerð

  1. Rætt um Kveiksþátt á RÚV þriðjudagskvöldið 18. apríl sem fjallaði um Hvammsvirkjun, áhrif hennar á samfélagið og ólík sjónarmið íbúa og annarra varðandi hana. Í framhaldinu sköpuðust meðal annars umræður um hönnun og fagurfræði virkjunarmannvirkja og áhrif hennar á íbúa og daglegt líf þeirra.

  1. Farið yfir fund verkefnisstjórnar og faghópa með fulltrúum Landverndar þann 18. apríl en þar lýstu þeir sjónarmiðum sínum varðandi uppbyggingu vindorkuvera á Íslandi. Einkum var rætt um þau atriði í máli Landverndar sem vörðuðu samfélagsleg áhrif, eins og áhrif plastmengunar, ruðningsáhrif framkvæmda og áhrif sýnileika vindorkuvera á samfélög.

  1. Jón sagði frá því að tillögur frá Félagsvísindastofnun um útfærslu á könnun og rýnihópavinnu vegna virkjanakosta í neðri hluta Þjórsár hafi ekki borist enn vegna veikinda starfsfólks hjá stofnuninni.

  1. Rætt um verktilboð frá RHA varðandi þróun matsviðmiða og beitingu þeirra í tengslum við mat á samfélagslegum áhrifum virkjunarkostanna Skúfnavatna-, Tröllár-, Hvanneyrardals-, Hamars-, og Bolaölduvirkjun, sem nú hefur verið sent til formanns verkefnisstjórnar. Einkum rætt um óvissuna sem tengist því hve mikla vinnu verkið útheimti og hvernig störf faghópsins munu koma inn í það. Að höfðu samráði við verkefnisstjórn munu Hjalti og Jón þróa verkefnislýsingu áfram og leggja síðan fyrir faghópinn í heild.

  1. Umræður um ábendingu frá Agnesi Stefánsdóttur í verkefnisstjórn um að bæta mætti við spurningu í landskönnun um afstöðu fólks til áhrifa virkjana á minjavernd og búsetulandslag. Ákveðið að leggja til við Félagsvísindastofnun að bæta við spurningarlið varðandi minjavernd. Í framhaldinu sköpuðust á hinn bóginn líflegar umræður og myndasýningar um búsetulandslag, einkum í tengslum við virkjanir hérlendis og erlendis.

  1. Ákveðið að næsti fundur verði miðvikudaginn 3. maí kl. 10:00 á Teams.