6. fundur faghóps 3, 19.05.2022

Fundargerð

6. fundur í 

faghópi 3 um mat á samfélagslegum áhrifum virkjunarkosta, 

19. maí 2022 kl. 13:00 – 14:00 á Teams.


Mætt: Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, Hjalti Jóhannesson, Jón Ásgeir Kalmansson, og Sjöfn Vilhelmsdóttir.

Fundargerð
  1. Rætt um opinn kynningarfund verkefnisstjórnar um starf rammaáætlunar sem fram fór 18. maí að Skúlagötu 4, en þar kynntu formenn verkefnisstjórnar og faghópa tilgang, lagalega umgjörð, aðferðafræði og annað er við kemur rammaáætlun. Rætt um þær spurningar sem beint var að störfum faghóps 3, en þær vörðuðu meðal annars hvernig faghópurinn afmarkaði áhrifasvæði, til dæmis þegar virkjunarkostir væru staðsettir á hálendinu. Einnig var spurt um hvernig faghópurinn ætlaði að meta samfélagsleg áhrif á þjóðina í heild. 
  2. Rætt um skjal frá Hjalta Jóhannessyni um hvernig megi áætla í grófum dráttum fasteignagjöld vegna orkumannvirkja. Ákveðið að leita álits utanaðkomandi sérfræðings á þessari nálgun. 
  3. Rætt um að leita til Landsnets um fund til að fá upplýsingar um kerfisáætlun fyrirtækisins og stöðu einstakra landshluta hvað orkuöryggi og orkuaðgengi varðar. Ákveðið að athuga hvort verkefnisstjórn vildi koma að slíkum fundi eða hvort faghópurinn geri það á eigin vegum. 
  4. Umræður um hvernig taka megi mið af möguleikum á fjölnýtingu orku. Einkum sé horft til jarðvarmaorku og möguleika á að nota hana í senn til rafmagnsframleiðslu, upphitunar húsa, ferðamennsku, matvæla- og vöruframleiðslu, auk annars. Ákveðið að leita eftir samráði við sérfróðan aðila á þessu sviði. 
  5. Rætt um tækifæri sem tengjast verndun eða friðun landsvæða, meðal annars í ljósi þeirra starfa sem skapast geta í tengslum við þjóðgarða. Ákveðið að skoða nánar stefnumörkun og áætlanir um þjóðgarða, friðlýst svæði og annað þessu tengt. 
  6. Áfram verði unnið að söfnun gagna um rannsóknir sem gerðar hafa verið um viðhorf til virkjana, verndunar og annars sem komið getur að gagni við mótun aðferðafræði faghópsins. 
  7. Ákveðið að næsti fundur verði 9. júni kl. 10.