11. fundur, 14.10.2013
Fundarfrásögn
Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og nýtingu orkusvæða
11. fundur, 14.10.2013, 10:00-13:00
Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu
Mætt: Stefán Gíslason (SG), Helga Barðadóttir (HB), Elín R. Líndal (ERL), Jón Gunnar Ottósson (JGO) varamaður Þóru Ellenar Þórhallsdóttur, Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifar fundargerð.
Fjarverandi: Hildur Jónsdóttir.
Gestir: Árni Jón Elíasson frá Landsneti, 10:30-11:05.
- Fundur settur kl. 10:10.
- Skýrsla Skúla Skúlasonar (SS) um laxfiska í Þjórsá: Farið var örstutt yfir lokaeintakið af skýrslunni sem barst á föstudagskvöld. Niðurstaða skýrslunnar var rædd og hvernig verkefnisstjórnin gæti brugðist við henni. Fyrri ákvörðun um að SS, SG og HHS myndu semja lista með spurningum og athugasemdum til LV var rædd aftur og staðfest. Sá listi mun verða sendur á Orkustofnun og þeim falið að koma honum áleiðis til LV. Ákveðið var að um leið og listinn verður sendur til Orkustofnunar fái allir fulltrúar í verkefnisstjórn afrit. Einnig var rætt hvernig skilja beri 1. mgr. 10.gr. laga nr. 48/2011. JGO spurði hvort ekki ætti að leita álits stofnana á því hvort fyrirliggjandi gögn væru fullnægjandi áður en matsferlið hæfist. Fram kom að það hefði verið skilningur verkefnisstjórnar að leitað yrði samráðs við þessar stofnanir í fyrra umsagnarferlinu. JGO telur þann skilning stangast á við síðustu setningu 1. mgr. 10. Gr. laganna, en þar segir að teljist gögn ófullnægjandi skuli verkefnisstjórn láta safna viðbótargögnum áður en eiginlegt matsferli hefst. Engin niðurstaða fékkst í þetta mál.
- Landsnet, sýnileikagreining: Árni Jón Elíasson frá Landsneti kom á fundinn og hélt stutta kynningu á nýrri, einfaldri aðferð sem greinir sýnileika línulagna. Framhald á þeirri vinnu rætt og hvernig hún geti nýst verkefnisstjórn.
- Gögn úr 2. áfanga: JGO spurði um gagnavörslu og hvort það sé rétt að hluti gagna sem aflað var í 2. áfanga og upplýsingar um notkun gagna og matsferlið séu enn á tölvum meðlima faghópa í stað þess að vera varðveitt miðlægt á vegum verkefnisstjórnarinnar. Mikilvægt sé að tryggja varðveislu gagnanna til að tryggja gagnsæi og rekjanleika og samfellu í starfi verkefnisstjórna. Verkefnisstjórn var sammála um að þessum gögnum þurfi að koma í viðeigandi vistun hjá Orkustofnun, en stofnunin hafði formlega umsjón með gagnavörslu 2. áfanga RÁ.
- Fundur með ráðherra og frestun á skilum: Mánaðarlegur fundur SG og umhverfis- og auðlindaráðherra var 08.10. síðastliðinn. Aðalefni fundsins var beiðni SG, fyrir hönd verkefnisstjórnar, um fjögurra vikna frest til að skila tillögum. Tveggja vikna frestur var veittur og er nýr skiladagur 1. mars 2014. Skrifleg staðfesting lá ekki fyrir en slíkt plagg er í vinnslu í ráðuneytinu. Á fundinum kom fram að til greina kæmi að hafa samráð við faghópa úr 2. áfanga við mat á þeim kostum sem nú eru í vinnslu og var þeirri hugmynd vel tekið. Í kjölfarið var tímalínunni breytt með hliðsjón af þessu. Verkefnisstjórn er sammála um að miðað við þessa tímalínu sé e.t.v. mögulegt að ljúka við mat á virkjunarkostunum þremur í neðri hluta Þjórsár á tilsettum tíma, en óraunhæft sé að ljúka einnig mati á virkjunarkostum í Hólmsá og Hagavatni. Í kjölfarið var rætt hver forgangsröðun verkefnisstjórnar í framhaldinu skyldi vera. Sú skoðun kom fram að næsta mál á borði verkefnisstjórnar verði þá að ljúka mati á Hagavatns- og Hólmsárvirkjunum, en aðrir töldu liggja beinna við að eftir skiladag 1. mars 2014 yrðu tekin upp hefðbundnari vinnubrögð þar sem allir virkjunarkostir væru undir. Fundurinn ákvað að geyma þessa umræðu til seinni tíma.
- Aðkoma faghópa úr 2. áfanga: Fundarmenn voru á einu máli um að fremur ólíklegt yrði að teljast að hægt verði að ná faghópum úr 2. áfanga saman, enda sé fólk sem var í þeim hópum mikið til upptekið í öðrum störfum. Eftir nokkra umræðu var ákveðið að skipa tímabundið lítinn, afmarkaðan faghóp sem hefði það eina hlutverk að sinna matsvinnu fyrir virkjunarkostina þrjá í neðri Þjórsá og að í þann hóp verði valdir þeir aðilar úr gömlu faghópunum sem hefðu sérþekkingu á viðkomandi sviði. Allir fundarmenn voru sammála þessari niðurstöðu. SG tók að sér að hafa samband við þessa aðila sem allra fyrst.
- Fjármál faghópa: Ekkert nýtt að frétta. Ósk verkefnisstjórnar frá síðasta fundi um að UAR kæmi með skriflega tillögu um fyrirkomulag greiðslu var komið á framfæri. Boðaður fundur í UAR um efnið féll niður.
- Fundur með umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis: SG og HHS gengu á fund nefndarinnar 9. október, gáfu skýrslu um stöðu mála og svöruðu spurningum nefndarmanna. Fundurinn var gagnlegur.
- Starfsreglur og reglugerð fyrir verkefnisstjórn eru í vinnslu í UAR. Samráðsfundur með fulltrúum atvinnuvegaráðuneytis um reglugerð um aðkomu Orkustofnunar að rammaáætlun var boðaður seinna þennan dag.
- Lógó: Umræðu frestað fram yfir 1. nóvember.
- Fundur með Samorku og öðrum: Í kjölfar auglýsingar Orkustofnunar frá 1.10. sl. (sjá fundargerð 10. fundar) var boðað til fundar með Samorku. Sá fundur verður haldinn 16.10. nk. í húsakynnum Orkustofnunar.
- Tillaga frá Skúla Skúlasyni: Erlendir sérfræðingar sem hafa verið í sambandi við SS vegna starfa hans að málefnum laxfiska í Þjórsá fyrir verkefnisstjórn hafa lýst yfir áhuga á að haldið verði einhvers konar málþing eða ráðstefna hérlendis um málið, þar sem allir hagsmunaaðilar komi saman. Hafði SS beðið um að sá möguleiki yrði ræddur að verkefnisstjórn kæmi að skipulagningu slíks málþings. Fundarmenn töldu það ekki vera í verkahring verkefnisstjórnar að sinna slíkum verkum heldur væri það á ábyrgð framkvæmdaaðila og/eða rannsóknastofnana og háskóla að sinna því.
- Aðkoma varamanna: Rætt var hvort senda eigi sk. lykilgögn til varamanna. Sú vinnuhefð, sem mótuð var í upphafi starfsins var áréttuð, þ.e. að það sé á ábyrgð aðalmanna að halda varamönnum sínum upplýstum og senda þeim viðeigandi gögn eins og þarf.
- Næsti fundur: Ákveðið var að næsti fundur verði haldinn 24.10. kl. 10:00-13:00.
- Fundi slitið kl. 13:00.
Herdís H. Schopka