20. fundur, 14.01.2014

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og nýtingu orkusvæða

20. fundur, 14.01.2014, 10:00-12:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

 

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Helga Barðadóttir (HB), Elín R. Líndal (ERL), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Hildur Jónsdóttir (HJ) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð.

  1. Fundur settur kl. 10:30. 
  2. Skipun faghópa: Fram var lögð endanleg tillaga að skipan faghóps II, að öðru leyti en því að þátttaka þjóðfræðings er óráðin. SG og HHS var falið að ganga frá skipun hópsins. Sömuleiðis var SG og HHS falið að ganga skipun faghóps I miðað við þann lista sem fyrir liggur, enda verði breytingar bornar undir verkefnisstjórnina. 
  3. Drög að lista af virkjunarkostum til umfjöllunar:Listi hefur verið tekinn saman yfir þá virkjunarkosti sem framkvæmdaaðilar hafa óskað eftir að verkefnisstjórn taki til umfjöllunar. Umræða spannst um lagalega stöðu þeirra kosta sem raðað var í orkunýtingarflokk eða verndarflokk í 2. áfanga og eru komnir inn aftur til meðferðar. HHS var falið að leita lögfræðiálits innan ráðuneytisins varðandi þetta atriði. Hvað jarðhitann snertir þá eru atriði í erindisbréfinu sem voru ekki tekin fyrir í 2. áfanga og því ástæða til að fjalla aftur um þessa virkjunarkosti. Umræður spunnust um afmörkun svæða til verndunar. SG leggur til að sett verði ákvæði í starfsreglur um að faghópar skilgreini svæðin og skili kortum með nákvæmlega skilgreindum mörkum. 
  4. Gagnaöflun og gagnavarsla. Verkefnisstjórn þarf fyrr en síðar að ræða öflun og vistun gagna vegna vinnu faghópa og hver muni sinna þessum verkum. Engin gögn eru til fyrir suma kosti í biðflokki, t.d. fyrir Glámuvirkjun. Í 1. og 2. áfanga sá OS um að útvega gögn af þessu tagi, en skv. gildandi lögum mun sá háttur ekki verða hafður á núna. Gagnaskil verkefnisstjórnar og faghópa þurfa að vera skilgreind í starfsreglum. Afar mikilvægt er að bæði gögnin sjálf og rökstuðningur faghópa/verkefnisstjórnar séu aðgengileg eftir að vinnu við hvern áfanga lýkur. 
  5. Reglugerð og starfsreglur: HHS lýsti gangi mála. 
  6. Fundaráætlun næstu vikna: Stefnt er að því að auglýsa fundi fyrir almenning, .þannig að hver sem er geti pantað viðtalstíma hjá verkefnisstjórn á ákveðnum dögum. Einnig var rætt um að halda opinn fund til að kynna störf verkefnisstjórnarinnar, t.d. með vorinu. Ákveðið var að halda þessari umræðu áfram síðar. 
  7. Ákveðið var að næsti fundur verði haldinn þriðjudaginn 11. febrúar kl. 10-13. 
  8. Fundi slitið kl. 12:05.

 

Herdís H. Schopka