21. fundur, 11.02.2014

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og nýtingu orkusvæða

21. fundur, 11.02.2014, 10:00-12:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Helga Barðadóttir (HB), Elín R. Líndal (ERL), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Hildur Jónsdóttir (HJ) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð.

Gestur: Stefán Thors, ráðuneytisstjóri í UAR.

1. Fundur settur kl. 10:15.

2. Reglugerð um virkjunarkosti: HHS lýsti stöðu mála. Reglugerðin er ekki tilbúin en langt komin. Reglugerðin er ákveðin forsenda þess að vinna verkefnisstjórnar geti hafist, þar sem ekki er hægt að fá öll gögn frá virkjunaraðilum og Orkustofnun fyrr en reglugerðin er tilbúin. Vinna við reglugerðina er í gangi í samvinnu UAR og ANR. ERL lýsti óánægju sinni með að reglugerðin skyldi ekki vera tilbúin. Í framhaldi af því var óskað eftir því að Stefán Thors, ráðuneytisstjóri, kæmi inn á fundinn til að fara yfir þessa stöðu. Stefán brást skjótt við þessu og gerði fundarmönnum grein fyrir gangi mála.

3. Samskipti við OS: Það var samdóma álit verkefnisstjórnar að setja þyrfti reglur um samskipti og verkaskiptingu verkefnisstjórnar og Orkustofnunar. HHS var falið að athuga grundvöll þess að gera einhvers konar samning til að ramma samskipti verkefnisstjórnar og UAR við Orkustofnun frekar inn.

4. Starfsreglur verkefnisstjórnar: Fundarmenn fóru í gegnum uppkast að starfsreglum sem HHS gerði sl. haust. Rætt var um framhaldið og ákveðið að HHS myndi koma málinu áleiðis innan UAR, setja uppkastið í reglugerðarform og senda á verkefnisstjórn til yfirferðar. HJ tók að sér að ræða við skrifstofu stjórnsýsluþróunar í FOR varðandi ráðleggingar og hugsanlegar fyrirmyndir að starfsreglum annars staðar frá.

5. Faghópar: Ljóst er hverjir muni sitja í faghópi II, en eftir er að gefa út skipunarbréf. Upp kom vandamál varðandi kynjaskiptingu í faghópi I vegna breytinga á verkaskiptingu innan tiltekinnar stofnunar. Ekki er ljóst hvort faghópar rammaáætlunar falli undir lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. Ákveðið var að reyna til hlítar að skipa faghópinn þannig að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40%. Formanni var falið að vinna áfram að málinu.

6. Næsti fundur verkefnisstjórnar var boðaður mánudaginn 24. febrúar 14-16.

7. Fundi slitið kl. 12:05.

Herdís H. Schopka