3. fundur, 10.06.2013

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og nýtingu orkusvæða

3. fundur, 10.06.2013, 9:00-12:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Helga Barðadóttir (HB), Elín R. Líndal (ERL), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifar fundargerð. Verkefnisstjórn er ekki fullmönnuð, vantar fulltrúa frá ráðuneyti menningarminja (forsætisráðuneyti).

1.      SG setur fund kl. 09:10.

2.      Faghópar: Umræðu frá síðasta fundi haldið áfram.

  1. Fjármál: Vinna starfsmanna stofnana UAR/ríkisins (?) við rammaáætlun tekur oft verulegan tíma og getur jafnvel truflað störf þeirra að öðrum verkefnum sem eru í gangi innan stofnananna. Þetta þarf að hafa í huga þegar fólk er beðið að taka þátt í vinnu faghópa. Launamál þeirra meðlima faghópa sem ekki koma frá stofnunum ríkisins þurfa að vera á hreinu áður en fólk er beðið um að taka þátt.
  2. Niðurröðun viðfanga og frekari liðsafli: Á heildina litið ríkir ánægja innan verkefnisstjórnarinnar með þá verkaskiptingu sem faghóparnir notuðu í fyrsta og öðrum áfanga, með ákveðnum fyrirvörum þó. Einnig þarf víða að bæta við nauðsynlegri sérfræðiþekkingu sem ekki var til staðar í hópunum í fyrri áföngum.
    1. Faghópur I fer með mjög vítt svið (í norsku rammaáætluninni voru fjórtán  faghópar og níu af þeim voru á verksviði faghóps I). Til þess að tryggja að öll nauðsynleg þekking sé til staðar innan þessa faghóps þarf hann því að vera nokkuð fjölmennur. Innan faghóps I vantar sárlega meiri kunnáttu í að meta landslag.
    2. Faghópur II: ÓÖH, sem starfaði innan faghóps II í 2. áfanga rammaáætlunar, nefnir einstök atriði sem skorti sérfræðiþekkingu á í fyrri áfanga. Þar má nefna staðbundna þekkingu bænda á beitarmálum. Þar að auki er nauðsynlegt að fá aðila frá frjálsum félagasamtökum á sviði útivistar til liðs við hópinn. Útivist verður sífellt mikilvægari fyrir lýðheilsu Íslendinga og umfjöllun um lýðheilsu á því hugsanlega heima í þessum hópi.
    3. Faghópur III: Mikil umræða um þennan faghóp og hvernig hægt sé að sjá til þess að hann skili sem verðmætustum upplýsingum. Rætt hvort og þá hvernig faghópar geti tekið á samfélagslegum rannsóknum sem mikið var kallað eftir í umsagnarferli fyrri áfanga. Skiptar skoðanir eru um það innan hópsins hvort best sé að fela slíkar rannsóknir faghópi III, sem viðbót við athuganir á áhrifum virkjanahugmynda á efnahag og byggðaþróun á hverjum stað, eða hvort vænlegra sé að mynda sérstakan faghóp.
    4. Faghópur IV: Beðið eftir umsögn Orkustofnunar um hvort setja megi þennan faghóp á ís í þessum áfanga.
    5. Faghópur V: Fyrri verkefnisstjórnir hafa verið gagnrýndar fyrir að veita hinum þremur grunnstoðum sjálfbærrar þróunar – náttúra, efnahagur og samfélag – mismikið vægi í rammaáætlun. Til að bregðast við þessari gagnrýni er hugsanlegt að fá sérstökum faghópi, faghópi V, samfélagsrannsóknir. Nauðsynlegt er að fá álit fagfólks á hve fýsileg þessi hugmynd er og hvernig niðurstöður rannsókn á þessu sviði geta nýst verkefnisstjórninni vegna áframhaldandi vinnu við rammaáætlun.
  3. Fjöldi í hóp: Mikilvægast er að tryggja að öll þekkingin sem þörf er á sé til staðar innan hvers hóps. Litlar líkur eru á því að uppskipting faghópa muni minnka sjálft vinnumagnið sem inna þarf að hendi heldur mun vinnan færast milli hópa. Helsta afleiðing þess að fjölga faghópum er sú að ákvörðunin um vægi hvers viðfangs í lokaútkomunni er flutt frá faghópunum til verkefnistjórnar.
  4. Nýliðun í faghópum: Verkefnisstjórn þarf að finna milliveg þess að skipa í faghópa fólk sem hefur setið þar áður og öðlast mikla þekkingu á málefninu og þess að skipa í þá nýtt fólk með ferskar hugmyndir og nýja sýn á viðfangsefnið, sem auk þess munu taka við vinnunni þegar fram líða stundir. Hér mun þekkingarmiðlun skipta gríðarlega miklu máli, t.d. hvað varðar svæðisbundna kunnáttu og vitneskju um óbirt gögn.
  5. Tilnefningar eða handval: Framhald frá síðasta fundi, engin niðurstaða enn.
  6. Ritari faghópa: Mælst til þess af verkefnisstjórn að HHS taki að sér ritarastörf fyrir alla faghópana.

3.      Rannsóknir:

  1. Lýðheilsa: Hópurinn biður SG um að fá á fund einhvern sem getur gefið yfirlit yfir áhrif jarðhitavirkjana á lýðheilsu, út frá loftmengun og fleiri atriðum. 
  2. Neðri-Þjórsá: Taka þarf saman allar rannsóknir sem farið hafa fram á laxastofninum og fá óháðan aðila til að meta þær. Bent á niðurstöðu rannsóknarseturs um fiskgengd (The Fish Passage Center) í Oregon, BNA, að svokallaða population viability assessment (PVA) á laxastofninum í Þjórsá sé nauðsynleg til að geta að fullu metið áhrif fyrirhugaðra virkjana.
  3. Á fyrri stigum rammaáætlunar hafa komið fram gagnrýnisraddir þess efnis að ekki sé tekið tillit til þátta á borð við vistkerfaþjónustu, tilvistargildi, afleiðslugildi (fyrir komandi kynslóðir) og þess háttar. Innan verkefnisstjórnar 3. Áfanga er talið mjög gagnleg og nauðsynlegt að halda þessum hugtökum á lofti í vinnunni, þó stjórninni sé ekki kunnugt um aðferðir við að meta þessi hugtök til fjár. Hér má þó nefna væntanlegar niðurstöður rannsókna Brynhildar Davíðsdóttur dósents við HÍ á verðgildi náttúru.

4.      Reglugerð: Hópur ræðir kosti þess að áform virkjunaraðila um mótvægisaðgerðir verði gerð að forsendu þess að taka hugmynd til athugunar hjá Orkustofnun og rammaáætlun. Sé svo mun reynast nauðsynlegt að skilgreina hvaða aðgerðir flokkist sem mótvægisaðgerðir og hvernig þær skuli vera útfærðar í beiðni til Orkustofnunar. Skv. lögum um rammaáætlun virðist hægt að setja þessa kröfu í reglugerð. SG biður ERL og ÞEÞ um að taka saman punkta um mótvægisaðgerðirnar.

5.      Varamenn: Lagt til að hver meðlimur sjái um að upplýsa sinn varamenn um gang mála hjá verkefnisstjórn. HHS tekur að sér að senda varamönnum samþykkta fundargerð eftir hvern fund.

6.      Vettvangsferð verkefnisstjórnar: Stefnt að því að fara í tveggja daga ferð um svæði þeirra átta virkjunarhugmynda sem ráðherra hefur falið verkefnisstjórninni að flýta vinnu við. Einu mögulegu dagsetningarnar fyrir haustið eru 9.-10. eða 10.-11. júlí nk.

7.      Fundi slitið kl. 11:59.