31. fundur, 21.10.2014

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

31. fundur, 21.10.2014, 10:00-12:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Helga Barðadóttir (HB), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ), Elín R. Líndal (ERL), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Hildur Jónsdóttir (HJ) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð.

Gestir: Guðni Á. Jóhannesson (GÁJ), Erla Björk Þorgeirsdóttir (EBÞ) og Kristinn Einarsson (KE) frá Orkustofnun sátu fundinn frá 10:00-10:25.

  1. Fundur settur kl. 10:03. 
  2. Listi Orkustofnunar yfir virkjunarkosti til umfjöllunar: 
    1. GÁJ útskýrði verklag OS við að túlka reglugerð um virkjunarkosti og útbúa beiðni til virkjunarðila um gögn. Stofnunin vinnur nú að því að útbúa þrjú „módel“ sem virkjunaraðilar geta notað sem fyrirmynd að gagnaskilum til stofnunarinnar, eitt fyrir vatnsorku, annað fyrir jarðvarma og það þriðja fyrir vindorku. Stefnt er að því að „módelin“ verði tilbúin 14. nóvember og að þá verði beiðni um gögn send virkjunaraðilum með fresti til áramóta eða þar um bil til að skila inn gögnum. Í kjölfarið mun OS fara yfir þau gögn sem berast og biðja um frekari upplýsingar í þeim tilvikum þar sem slíks er þörf. GÁJ taldi að frumlisti ætti að vera kominn til verkefnisstjórnar í kringum 20. janúar, en hugsanlega myndu einhverar ítarupplýsingar berast síðar.
    2. Rætt var um upplýsingar um náttúrufar, menningarminjar o.þ.h. og hvernig best væri að tryggja að tiltækar upplýsingar um slíkt bærust verkefnisstjórn. Ekki er tekið á þess konar gögnum í reglugerð um virkjunarkosti enda öflun þeirra ekki á ábyrgð OS. SG fór þess á leit við fulltrúa OS að ef virkjunaraðilar leiti til OS með spurningar um gagnaskil um náttúrufar og minjar þá verði þeim vísað til verkefnisstjórnar. ÞEÞ benti á að í lögum 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun sé kveðið á um heildstætt mat og að ákveðnar stofnanir (UST, NÍ, Minjastofnun og Ferðamálastofa) þurfi að gefa samþykki fyrir að gögn séu nægileg til að leggja slíkt mat á verndargildi svæða og minja. ÞEÞ benti auk þess á að í skipunarbréfi verkefnisstjórnar sé henni falið að skoða sjálfbærni og spurði í framhaldi af því hvernig OS geri grein fyrir þessum fyrirmælum í gagnabeiðni sinni. GÁJ svaraði því til að reglugerðin biðji um gögn um samspil nýtingar og endingartíma og lengra geti OS ekki gengið í að biðja um gögn um sjálfbærni. Fulltrúar OS bentu auk þess á að í 2. áfanga hafi rammaáætlun ekki verið bundin af umhverfismati áætlana eins og raunin sé nú og þessu þurfi verkefnisstjórn og faghópar að laga sig að.
    3. Fulltrúar OS yfirgáfu fundinn kl. 10:25.   
  3. Viðfangsefni verkefnisstjórnar og faghópa næstu vikur: 
    1. Gloppugreining. Bæði verkefnisstjórn og faghópar hafa áhyggjur af því að tími til að greina rannsóknaþörf vegna virkjunarkosta og framkvæma nauðsynlegar rannsóknir sé orðinn afar naumur. Formlegur og endanlegur listi yfir virkjunarkosti frá OS mun ekki liggja fyrir fyrr en í janúar 2015.  
      1. SG lagði fyrir fundinn tillögu þess efnis að verkefnisstjórn útbúi nú þegar bráðabirgðalista yfir þá virkjunarkosti sem fullvíst má telja að verði á endanlegum lista. Tillagan var samþykkt enda litu fulltrúar í verkefnisstjórn almennt svo á að vegna tímaskorts væri þeim nauðugur einn kostur að fara þessa leið. Samþykkt var að fela faghópum að hefjast handa við greiningu á rannsóknaþörf vegna virkjunarkosta á listanum. Þau gögn sem til eru frá 2. áfanga verði lögð til grundvallar. Í framhaldi af þessu leggi faghópar fram hugmyndir um rannsóknaverkefni fyrir sumarið 2015.
      2. HJ benti á að e.t.v. hafi orkufyrirtækin látið vinna frekari rannsóknir á náttúrufari eða menningarminjum síðan gögnum var safnað vegna 2. áfanga rammaáætlunar og að nauðsynlegt væri að óska eftir slíkum gögnum.
    2. Sérfræðikynningar: Ákveðið var að nýta hluta fundartíma haustsins í að fá kynningar frá sérfræðingum um afmörkuð málefni á borð við vindorku og sjálfbærni jarðhitanýtingar.   
    3. Skilgreining á gagnaþörf vegna náttúrufars: HB tók undir ábendingu GÁJ frá því fyrr á fundinum að gott væri að hafa gátlista um hvað teljist fullnægjandi gögn um náttúrufar, enda hafi umræða um það ítrekað komið upp. Í umræðum kom fram að erfitt væri að staðla gagnakröfur á þessu sviði þar sem aðstæður væru mjög ólíkar eftir virkjunarkostum og landsvæðin fjölbreytt. Einfaldast væri að nota listann um viðföng faghópa í 2. áfanga sem gátlista. Faghóparnir þurfi auk heldur að fá frjálsar hendur til að meta hvort gögnin séu fullnægjandi, enda færi þeir rök fyrir slíkum ákvörðunum.   
  4. Fundaáætlun til áramóta: Bókaðir voru fundir verkefnisstjórnar fram til jóla. Næsti fundur verður þriðjudag 4. nóvember kl. 10-13.   
  5. Starfsreglur verkefnisstjórnar: Yfirlesin og endurbætt drög bárust frá UAR 17. október. Samþykkt var að taka drögin til umræðu á næsta fundi verkefnisstjórnarinnar.   
  6. Fundargerðir faghópa: Fundargerðir fyrstu þriggja funda faghópa 1 og 2 voru lagðar fram.   
  7. Fjármál faghópa: SG kynnti minnisblað frá UAR um þóknun til fulltrúa faghópa og mótmæli faghóps 2 til ráðuneytisins vegna téðs minnisblaðs. Verkefnisstjórn telur mikilvægt að faghópum verði tryggð viðunandi starfsskilyrði og lýsir áhyggjum af fyrirkomulagi greiðslna, mikilli ólaunaðri vinnu, lágu tímagjaldi og takmörkun á ferðakostnaði fulltrúa utan höfuðborgarsvæðisins.   
  8. Faghópur 3: Faghópur um samfélagsleg áhrif virkjunarframkvæmda hefur ekki verið skipaður. SG hefur rætt við ákveðinn aðila um að vera í forsvari fyrir hóp sem myndi gera tillögur að aðferðafræði faghópsins. Ekki er ljóst hve langan tíma verkið mun taka eða hvenær það getur hafist.   
  9. Bréfsefni: Frestað til næsta fundar.   
  10. Erindi frá forstöðumanni Minjastofnunar Íslands: Frestað til næsta fundar.   
  11. Fundi slitið kl. 12:08.

 

Herdís H. Schopka