4. fundur, 21.06.2013
Fundarfrásögn
Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og nýtingu orkusvæða
4. fundur, 21.06.2013, 10:00-12:00
Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu
Mætt: Stefán Gíslason (SG), Helga Barðadóttir (HB), Guðjón Bragason (GB) fyrir Elín R. Líndal (ERL), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifar fundargerð. Verkefnisstjórn er ekki fullmönnuð, vantar fulltrúa frá ráðuneyti menningarminja (forsætisráðuneyti).
- Fundur settur kl. 10:16
- Enn hefur enginn fulltrúi verið skipaður fyrir hönd forsætisráðuneytis, einnig er ekki enn kominn viðauki við erindisbréf verkefnisstjórnar.
- Vettvangsferð: Vegna anna næst ekki fullmönnuð vettvangsferð. Allir meðlimir þó sammála um að ekki sé skynsamlegt að fresta ferðinni fram á haustið.
-
- Ákveðið að fara úr bænum að kveldi 8. júlí, gista tvær nætur.
- Ferðin verður skipulögð þannig að þeir sem ekki komast með allan tímann geti hitt hópinn á þeim stöðum sem viðkomandi þekki síst.
- Rætt hvort það sé æskilegt að fá aðra en bara meðlimi verkefnisstjórnar í ferðina og þá hverja.
-
- Samstaða var í hópnum um að brýnt væri að fá fulltrúa frá virkjunaraðilum með, svo tryggt sé að verkefnisstjórnin hafi góða mynd af því hvernig virkjanamannvirki og lón verði útfærð.
- Einnig var samstaða um að fá fulltrúa frá Landsneti til að fræða verkefnisstjórnina um fyrirhugaðar línulagnir.
- Eftir töluverðar umræður í hópnum var ákveðið að bjóða ekki fulltrúum sveitarstjórna, náttúrufræðingum og öðrum staðkunnugum og/eða fróðum aðilum með, ekki síst því það væri nánast útilokað að ná öllum hlutaðeigandi saman á svona stuttum tíma og til þess að tryggja að ekki verði gert upp á milli hagsmunaaðila sé einfaldast að engir slíkir fari með í ferðina.
- Hins vegar er að sjálfsögðu mikilvægt að öll sjónarmið fái að heyrast og í því skyni mætti t.d. fylgja fordæmi verkefnisstjórnar í öðrum áfanga, sem hélt opna kynningarfundi víðs vegar um landið.
- Hér er mikilvægt að hafa í huga að tilgangur ferðarinnar er ekki að skiptast á skoðunum og diskútera heldur að sjá svæðin og fræðast um hvað stendur til að gera.
- Vegna stutts fyrirvara var einnig ákveðið að bjóða varamönnum ekki með í ferðina.
- Mikilvægt að hafa tilbúið kort af línulögnum fyrir ferðina, sérstaklega fyrir Hágöngur, Tungnaáröræfi og Veiðivötn. Línan milli Landmannalauga og Eldgjár. Hvernig á að tengja Hólmsá við Atley við Suðurlínu?
- Ein rúta, hátalarakerfi og bílstjóri.
- Hugsanlega verður möguleiki að skoða fleiri virkjanahugmyndir, t.d. Búlandsvirkjun og Norðlingaölduveitu.
- Sjónræn áhrif línulagna: Varpað var fram þeirri ósk að athugað verði hvort það sé hægt að fá gerðar 3-D hreyfimyndir af fyrirhuguðum línulögnum til að auðvelda mat á sjónrænum áhrifum.
- Fundargerðir: Umræður um fundargerðir verkefnisstjórnar. Athugasemd gerð við að til séu tvær útgáfur af fundargerðinni þar sem ein og sú lengri sé ætluð verkefnisstjórninni og sú styttri sé ætluð til birtingar á vefsvæði verkefnisins. Þessi tilhögun er rædd stuttlega, færð rök fyrir að hún stuðli að frjálsari skoðanaskiptum og hugmyndaflæði á fundum hópsins. Eftir þessar umræður er engu að síður ákveðið að rita héðan í frá einungis eina fundargerð.
- Rannsóknir í Þjórsá: Mælt fyrir þeirri hugmynd að fá óháðan fagaðila til að framkvæma samræmda greiningu á öllum rannsóknum sem hafa verið gerðar um laxinn í Þjórsá, og fela viðkomandi að skrifa greinargerð um þær niðurstöður, hvort rannsóknirnar séu fullnægjandi til að taka ákvarðanir um virkjanir eða hvort, og þá hvaða, frekari rannsókna sé þörf. Nauðsynlegt er að þessi aðili sé eins óháður fyrri rannsakendum og hagsmunaaðilum og mögulegt er. Alls hafa þrír aðilar verið nefndir í þessu samhengi, verkefnisstjórn samþykkti að til eins þeirra yrði leitað.
- Verðmæti náttúru: Afhending skýrslu Brynhildar Davíðsdóttur dósents við HÍ og samstarfsfólks um verðmæti náttúru var frestað frá 1. júní til1. ágúst. Brynhildur kemur á fund með SG, Jóni Geir Péturssyni (JGP) skrifstofustjóra í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og HHS mánudaginn 24. júní.
- Fjármál: Sama dag (24. júní nk.) verður fundur JGP, SG og HHS um fjármál verkefnisstjórnar. Upp úr því ættu mál varðandi þóknun til meðlima faghópa o.þ.h. að taka að skírast.
- Vefsíða: Vinna við endurhönnun síðunnar komin aðeins af stað og kynnt lítillega fyrir verkefnisstjórn. Stefnt er að því að á næsta formlegum fundi verkefnisstjórnar, sem verður í haust, verði verkefnið kynnt frekar.
- SG var á fundi með SAF í síðustu viku, beðinn um það með stuttum fyrirvara að segja stuttlega frá hvað er í gangi með RÁ.
- Stækkanir núverandi virkjana: Búið er að senda erindi til Landsvirkjunar en ekki hefur náðst að hefja neinar samræður enn. Það er ekki ljóst hvernig sé best að fá þessar upplýsingar eða í hvaða farveg málið eigi að fara gagnvart rammaáætlun og verkefnisstjórninni. Skoða þarf þann möguleika að senda erindi til Orkustofnunar þar sem stofnunin er beðin um að fara fram á það við Landsvirkjun sendi sér gögn um stækkanir.
- Reglugerð: ríður á að útbúa hana. Útbúin í UAR með aðkomu verkefnisstjórnar.
- Faghópar: Hópur IV er kominn á ís. SG talaði við Kjartan Ólafsson formann hóps III í 2. áfanga, ekki viss um að það þurfi nýjan faghóp V, segir að gamli hópurinn ætti að geta lagt meiri áherslu á samfélagsleg mál. SG leggur til að hópur III haldi sér en áherslum breytt, nýtt nafn: „Samfélag, byggðaþróun, atvinnulíf“. Þá verða bara þrír hópar og sá fjórði á ís. E.t.v. er þjóðhagslegum áhrifum þá lítill gaumur gefinn en mælistikurnar eru erfiðar.
- Lýðheilsa: myndi þá t.d. loftmengun frá jarðvarma fara í hóp III? SG telur það líklegra, enda hafi loftmengunin líklega meiri áhrif á almenna heilsu heldur en bara útivist. SG búinn að heyra aðeins í Lýðheilsustofnun um málið.
- Fundi slitið kl. 11:56.