46. fundur, 13.05.2015
Fundarfrásögn
Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða
46. fundur, 13.05.2015, 10:00-13:00
Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu
Mætt: Stefán Gíslason (SG), Elín R. Líndal (ERL), Helga Barðadóttir (HB), Hildur Jónsdóttir (HJ), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð.
- Fundur settur kl. 10:10.
- Ákvörðun varðandi umfjöllun um þrjá virkjunarkosti í verndarflokki, þ.e. Tungnaárlón, Norðlingaölduveitu og Gjástykki: Borist höfðu svör faghópa við erindum formanns verkefnisstjórnar frá 2. og 26. mars varðandi umrædda þrjá virkjunarkosti, auk Kjalölduveitu og Hverahlíðarvirkjunar, (sbr. einnig fundargerðir 39. og 41. fundar verkefnisstjórnar). Í svörunum kemur fram að forsendur umræddra þriggja virkjunarkosta og landsvæða í verndarflokki hafi að mati faghópa ekki breyst svo mikið frá því sem var í 2. áfanga að það geti haft áhrif á flokkun virkjunarkostanna. Samþykkt var að fresta endanlegri afgreiðslu málsins til 48. fundar verkefnisstjórnar 30. júní nk.
- Ákvörðun varðandi umfjöllun um Kjalölduveitu: Borist höfðu svör faghópa (sbr. dagskrárlið 2) við erindum formanns verkefnisstjórnar frá 2. og 26. mars varðandi það hvort líta beri á Kjalölduveitu sem nýjan virkjunarkost eða hvort þar sé fyrst og fremst um að ræða nýja útfærslu á Norðlingaölduveitu og þá hvort þær breytingar sem Kjalölduveita feli í sér miðað við þá útfærslu Norðlingaölduveitu sem fjallað var um í 2. áfanga séu svo miklar að það geti haft áhrif á flokkun virkjunarkostsins. Í svörum faghópanna kemur fram að umræddar framkvæmdir hafi áhrif á sama landssvæði og Norðlingaölduveita og að það landsvæði sé í verndarflokki. Samþykkt var að fresta afgreiðslu málsins til næsta fundar og óska fyrir þann tíma eftir myndrænni framsetningu frá faghópum sem sýni afmörkun landsvæðisins og staðsetningu Norðlingaölduveitu og Kjalölduveitu innan þess.
- Afmörkun nýtingarsvæðis Hverahlíðarvirkjunar: Borist höfðu svör faghópa (sbr. dagskrárlið 2) við erindum formanns verkefnisstjórnar frá 2. og 26. mars varðandi það hvort Norðurhálsar hafi verið hluti af nýtingarsvæði virkjunarkostsins R3271A Hverahlíð eins og hann var skilgreindur í 2. áfanga rammaáætlunar. Að mati faghópa liggur ljóst fyrir að svo hafi ekki verið. Verði útfærslu Hverahlíðarvirkjunar breytt þannig að Norðurhálsar verði innan nýtingarsvæðisins, eins og gert er ráð fyrir í gögnum Orkustofnunar til verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar, þarf því að taka virkjunarkostinn til umfjöllunar á nýjan leik. Verði fallið frá þessari breytingu verður virkjunarkosturinn R3271A Hverahlíð áfram í orkunýtingarflokki. Verkefnisstjórn er tilbúin að taka Norðurhálsa til umfjöllunar sem sérstakan virkjunarkost, verði þess óskað.
- Fjölgun virkjunarkosta til umfjöllunar í faghópum: Faghópar hafa fengið 26 virkjunarkosti til umfjöllunar. Rætt var hvort mögulegt væri að bæta t.d. 5-10 virkjunarkostum á þann lista, en enn hefur engin endanleg ákvörðun verið tekin varðandi umfjöllun um 29 af þeim virkjunarkostum sem Orkustofnun hefur afhent verkefnisstjórn gögn um. Samþykkt var að fela formanni að kanna hvort raunhæft sé að mati faghópa að taka fleiri virkjunarkosti til umfjöllunar að teknu tilliti til aðferðafræði faghópa og þess knappa tíma sem til ráðstöfunar er. Niðurstaða þeirrar könnunar verði lögð fyrir næsta fund verkefnisstjórnar í formi mótaðrar tillögu um fjölgun kosta.
- Rannsóknaráætlun: Fram kom að faghópar 1 og 2 hefðu unnið markvisst að því undanfarnar vikur og mánuði að skilgreina rannsóknaþörf og að nú lægi sameiginleg rannsóknaráætlun hópanna fyrir í grófum dráttum. Þar vegur þyngst greining á landslagi og víðernum, rannsóknir á áhrifum virkjana sem þegar hafa verið byggðar og rannsóknir á ferðamennsku á landsvæðum sem fjallað verður um í 3. áfanga. Rætt var um hvernig staðið skyldi að ákvarðanatöku varðandi rannsóknir, þar sem brýnt kann að vera að leysa úr ýmsum málum á milli funda verkefnisstjórnar. Formaður lagði til að hann og formenn faghópa myndi stýrihóp rannsókna sem fái umboð frá verkefnisstjórn til að taka ákvarðanir um forgangsröðun rannsóknarverkefna. Sú tillaga var samþykkt samhljóða.
- Skipun faghóps 3: Fram kom að skipun faghóps 3 væri í nokkru uppnámi eftir að ljóst varð að tveir af þremur fulltrúum í undirbúningshópi gæfu ekki kost á sér til setu í faghópnum. Samþykkt var að fela formanni að leggja nýja tillögu að skipun hópsins fyrir næsta fund verkefnisstjórnar.
- Umhverfismat rammaáætlunar: Ekki tókst að koma á fyrirhuguðum vinnufundi með Skipulagsstofnun og faghópum, sem boðaður hafði verið mánudaginn 11. maí. Undirbúningshópur mun hittast mánudaginn 18. maí til að ræða framhald málsins.
- Fundargerðir faghópa: Fundargerðir 7. fundar faghóps 1 og 8. fundar faghóps 2 voru lagðar fram.
- Vettvangsferð: HB vakti máls á skipulagningu vettvangsferða sumarsins. Engar ákvarðanir hafa verið teknar, en rætt hefur verið um að fara 12.-14. ágúst með möguleika á framlengingu til 15. ágúst. Fram kom að brýnt væri að skipuleggja ferðina sem fyrst, en endanleg útfærsla getur þó ráðist af því hvaða virkjunarkostum verði bætt á þann lista sem til umfjöllunar er í faghópum.
- Fundi slitið kl. 13:05.
Herdís H. Schopka