47. fundur, 27.05.2015

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða

47. fundur, 27.05.2015, 09:00-12:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Elín R. Líndal (ERL), Helga Barðadóttir (HB), Hildur Jónsdóttir (HJ), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð.

  1. Fundur settur kl. 09:15.  
  2. Staða mála á Alþingi: Miklar umræður hafa staðið á Alþingi um breytingartillögu meirihluta atvinnuveganefndar við tillögu ráðherra um að Hvammsvirkjun verði færð í orkunýtingarflokk. Í tengslum við þetta mætti formaður á fund atvinnuveganefndar að morgni 26. maí. Formaður gerði grein fyrir helstu atriðum sem þar voru rædd.   
  3. Ákvörðun varðandi umfjöllun um Kjalölduveitu: Í samræmi við ákvörðun síðasta fundar voru lögð fram kort sem sýndu staðsetningu Norðlingaölduveitu og Kjalölduveitu. Samþykkt var að óska eftir nákvæmari afstöðumyndum og fresta endanlegri afgreiðslu málsins til 48. fundar verkefnisstjórnar 30. júní nk. 
  4. Fjölgun virkjunarkosta til umfjöllunar í faghópum: Í framhaldi af samþykkt síðasta fundar hafði formaður rætt við formenn faghópa 1 og 2 um möguleikann á að taka til umfjöllunar einhverja þeirra 29 virkjunarkosta sem ekki hafa enn verið sendir faghópum. Ljóst er að í fæstum tilvikum mun takast að ljúka umfjöllun um þessa kosti á þeim knappa tíma sem til ráðstöfunar er. Engu að síður samþykkti verkefnisstjórn að afhenda faghópum alla þessa kosti til umfjöllunar. Allir þessir kostir eru nú þegar í reynd í biðflokki skv. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 48/2011, en með því að faghópar fái þá til umfjöllunar er tryggt að þeir fái í það minnsta einhverja efnislega umfjöllun, enda þótt tímamörk og gagnaskortur geti gert það að verkum að ekki verði hægt að taka þá til endanlegs mats.  
  5. Skipun faghóps 3: Enn er unnið að mönnun faghópsins. Í ljósi þess að næsti fundur verkefnisstjórnar verður ekki fyrr en eftir rúman mánuð var samþykkt að fela formanni að leggja tillögu um skipun faghópsins fyrir verkefnisstjórn til samþykktar í tölvupósti svo fljótt sem verða má.   
  6. Rannsóknaráætlun: Faghópar hafa gert rannsóknaráætlanir og eru nokkrar rannsóknir nú þegar komnar af stað. Stýrihópur rannsókna (formenn faghópa og formaður verkefnisstjórnar) er í nær daglegu sambandi. Unnið er að ráðningu verkefnisstjóra fyrir ferðamálarannsóknirnar og mun hann hafa aðsetur við HÍ.  
  7. Umhverfismat rammaáætlunar: Formenn faghópa, formaður verkefnisstjórnar og HHS hittu fulltrúa Skipulagsstofnunar á fundi í liðinni viku þar sem rætt var hvernig best væri að standa að umhverfismati áætlana fyrir rammaáætlun. Skrifa þarf matslýsingu og hafa samráð um hana við Skipulagsstofnun í upphafi matsferilsins. Formaður lýsti stuttlega tillögu Skipulagsstofnunar að einfaldri útfærslu á mati á samlegðaráhrifum, en slíkt mat hefur í reynd ekki farið fram áður. Gert er ráð fyrir að verkefnisstjórn og faghópar geti að mestu leyti tvinnað matið inn í rammaáætlunarferlið án utanaðkomandi aðstoðar. 
  8. Meint vanhæfi ÞEÞ v/Búlandsvirkjunar: Beðið hefur verið álits UAR á hugsanlegu vanhæfi ÞEÞ í framhaldi af bréfi framkvæmdastjóra Suðurorku ehf., dags 18.12.2014, sbr. fundargerð 37. fundar verkefnisstjórnar. Að mati UAR ber verkefnisstjórn sjálfri að úrskurða um málið. Samþykkt var að fela formanni að svara erindi Suðurorku á þá leið að í ljósi framkominna gagna telji verkefnisstjórnin ekki að um vanhæfi sé að ræða.  
  9. Önnur mál: Engin önnur mál voru lögð fyrir fundinn.  
  10. Fundi slitið kl. 12:15.

 

Herdís H. Schopka