50. fundur, 17.09.2015
Fundarfrásögn
Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða
50. fundur, 17.09.2015, 13:00-17:00
Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu
Mætt: Stefán Gíslason (SG), Elín R. Líndal (ERL), Helga Barðadóttir (HB), Hildur Jónsdóttir (HJ), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifaði fundargerð.
- Fundur settur kl. 13:00.
- Svör við andmælabréfum Orkustofnunar og virkjunaraðila. Í framhaldi af samþykkt síðasta fundar hefur formaður með aðstoð lögmanna lagt drög að svarbréfum til Orkustofnunar og virkjunaraðila sem andmælt hafa þeirri fyrirhuguðu ákvörðun verkefnisstjórnar að taka tiltekna 26 virkjunarkosti í verndarflokki og orkunýtingarflokki ekki til endurmats þrátt fyrir óskir þar um og að taka Kjalölduveitu heldur ekki til umfjöllunar þar sem þar sé eingöngu um að ræða aðra útfærslu af Norðlingaölduveitu sem flokkuð var í verndarflokk í 2. áfanga á grundvelli náttúruverðmæta á áhrifasvæði virkjunarkostsins. Drögin voru rædd og formanni falið að leggja endanleg drög að svarbréfum fyrir næsta fund verkefnisstjórnar 1. október nk. Í framhaldi af þessu var rætt um hnitsetningu svæða. Fram kom að æskilegt væri að hnitsetja einnig þá virkjunarkosti og landsvæði í verndarflokki og orkunýtingarflokki sem ekki verða tekin til endurmats í 3. áfanga.
- Hagkvæmnimat virkjunarkosta: Í framhaldi af umræðum á síðasta fundi um það hvernig nýta beri niðurstöður Orkustofnunar um hagkvæmniflokkun virkjunarkosta hefur m.a. verið viðruð sú hugmynd að skipa sérstakan faghóp til að vinna frekar úr þessum niðurstöðum og skoða hugsanlega aðra hagfræðilega þætti sem snúa að einstökum virkjunarkostum. Samþykkt var að veita formanni umboð til að ganga frá skipun þriggja til fimm manna faghóps um hagræna þætti fyrir næsta fund verkefnisstjórnar 1. október nk. með hliðsjón af framkomnum hugmyndum um hugsanlega fulltrúa.
- Vettvangsferðir: Fram kom að fyrirhugaðri vettvangsferð að Austurgilsvirkjun hefði verið aflýst vegna bágborins ástands vegarslóða að virkjunarsvæðinu. Engin ákvörðun hefur verið tekin um dagsetningu dagsferðar á Reykjanes en samþykkt var að stefna áfram að henni.
- Þýðingar efnis á vefsíðu: Fram voru lögð fjögur tilboð í þýðingu efnis á vefsíðu rammaáætlunar í framhaldi af umræðum á fyrri fundum. Samþykkt var að fela starfsmanni verkefnisstjórnar að ganga frá málinu.
- Önnur mál: Engin önnur mál voru lögð fyrir fundinn.
- Fundi slitið kl. 17:00.
Herdís H. Schopka