6. Fundur, 11.09.2013
Fundarfrásögn
Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og nýtingu orkusvæða
6. fundur, 11.09.2013, 10:00-13:00
Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu
Mætt: Stefán Gíslason (SG), Helga Barðadóttir (HB), Elín R. Líndal (ERL), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Hildur Jónsdóttir (HJ), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifar fundargerð.
- Fundur settur kl. 10:15.
- SG lýsti fundi með ráðherra sem haldinn var þann 10.9.2013. Þar var staða mála rædd og SG lýsti hverju mætti búast við að væri lokið innan þess tímaramma sem verkefnisstjórn er settur. Virkjunarkostirnir átta eru að mati SG í grófum dráttum af þremur erfiðleikagráðum, Þjórsá léttust og Skrokkalda/Hágöngur erfiðastar, Hólmsá og Hagavatn þar á milli. Fundir SG og ráðherra munu verða haldnir mánaðarlega héðan í frá.
-
Tímalína verkefnisins var rædd. Mikil tímapressa verður á verkefninu fram í febrúar og spunnust nokkrar umræður um orsakir þessarar tímapressu. ERL lýsti þeirri skoðun sinni að verkefnisstjórn eigi að geta unnið hratt og vel að Þjórsá, Hólmsá og Hagavatni, sammála skilgreiningum SG á erfiðleikastigi kostanna sem eru til meðferðar. Umræða spannst um Hólmsá (var ekki fullnægjandi afgreidd í faghópum) og Hagavatn (spurningar um línutengingar og nánari útfærslu virkjunarframkvæmda). ERL lagði mikla áherslu á að reynt verði að skoða Hólmsá og Hagavatn líka í haust. SG gerði grein fyrir þáttum sem geta tafið fyrir því. Í hnotskurn lítur tímalínan svona út (dagsetningar eru ekki nákvæmar):
Dagsetning Atburður, ferli sem fer af stað 25.09.2013 Sérfræðingar skila sinni vinnu vegna virkjunarkosta í neðri hluta Þjórsár. 07.10.2013 Verkefnisstjórn sendir tillögur að flokkun til umsagnar á helstu hagsmuna- og umsagnaraðila. Frestur til að skila umsögnum verður 2-3 vikur. 21.10.2013 Verkefnisstjórn vinnur úr umsögnum, vinnur tillögur sínar frekar. 08.11.2013 Tillögur verkefnisstjórnar fara í almennt kynningarferli sem lögum samkvæmt skal ekki vera skemmra en 12 vikur. 31.01.2014 Lögbundnu almennu umsagnarferli lýkur. Verkefnisstjórnin fer yfir umsagnir og metur hvort þær gefi tilefni til að breyta flokkuninni. 15.02.2014 Verkefnisstjórn skilar endanlegri skýrslu til ráðherra. - Faghópar: Töluverð umræða fór fram á fundinum um faghópa. Einna fyrirferðarmest var umræðan um skilgreininguna á faghópi, bæði í skilningi laga nr. 48/2011 og í praktískum skilningi. Einnig voru fjármál faghópa rædd og ríkti einhugur um að óvissu um það mál þurfi að eyða áður en hægt verður að skipa í faghópa.
-
- Mikið var rætt hvort það sé rétt og eðlilegt að skipa ad hoc faghópa til að taka fyrir einstök mál sem tengjast einstökum virkjunarkostum og nota niðurstöður slíkra athugana sem grundvöll flokkunar, í stað þess að senda alla kostina sem nú eru til flýtimeðferðar til fullskipaðra faghópa. ÞEÞ var þessari nálgun mjög ósammála og taldi það vega að trúverðugleika rammaáætlunar verði aðferðum við úrvinnslu virkjanakosta breytt í einstaka tilfellum. HB tók undir þær áhyggjur en taldi verkefnisstjórn hafa heimild í lögum (9. gr, síðasta mgr.). ÞEÞ taldi þá grein ekki taka fram fyrir hendur málsmeðferðarinnar sem lýst er í 10. gr. ERL benti á að flestir kostirnir sem nú eru í flýtimeðferð hafi þegar fengið umfjöllun hjá faghópum og að því sem út af standi sé nákvæmlega lýst í gögnum Alþingis. Því sé verjanlegt að flokka þessa kosti að undangengnum athugunum á því sem út af stóð án aðkomu fullskipaðra faghópa. ÓÖH lýsti sig samþykkan þessari nálgun en lagði á það áherslu að ad hoc faghóparnir væru nægilega mannaðir til að geta skilað tæmandi niðurstöðum.
- Nokkur umræða spannst um það hvaða viðfanga nákvæmlega ætti að taka tillit til í meðförum verkefnisstjórnar og faghópa á þeim kostum sem nú eru í flýtimeðferð. HJ lýsti þeirri skoðun sinni að í þeim tilfellum sem viðföngum sem eftir væri að taka afstöðu til væri lýst í samþykktum Alþingis eða lægju til grundvallar að kostur hafi verið fluttur í biðflokk úr verndarflokki beri verkefnisstjórninni að vinna út frá því,. Sem dæmi má nefna að ef viðföng eru ekki nefnd í greinargerð eða nefndaráliti með þingsályktun þá séu þau ekki á borði verkefnisstjórnar. ÞEÞ benti á að sjálfbær þróun væri nefnd í 1. gr. laganna og að þ.a.l. væru samfélagslegu áhrifin alltaf á borði verkefnisstjórnar.
- SG velti fyrir sér hvort það standist lögin að notast við niðurstöður faghópa fyrri áfanga í þeim tilvikum þar sem færsla virkjunarkosts í biðflokk við afgreiðslu þingsályktunartillögunnar á síðasta vetri var byggð á einu vafaatriði sem talið var þurfa nánari skoðun. Umræða spannst í hópnum um lagalegan grundvöll aðferðafræðinnar og hvað sé „faghópur“ í skilningi laganna. ÞEÞ benti á vísindalega óvissu og spurninguna um hvernig eigi að meta hana. Hópurinn komst að þeirri niðurstöðu að í tilfelli Þjórsár verði nauðsynlegt að fá tvo aðra sérfræðinga til að meta vinnu Skúla, enda sé hann ekki einungis að fara í gegnum gögn sem lágu fyrir þegar fyrri faghópar höfðu virkjunarkostina í neðri Þjórsá til umfjöllunar. Lagt var til að viðkomandi sérfræðingar þekki helst til jökuláa, einnig að annar verði íslenskur og hinn erlendur. Í þessu samhengi voru nokkur nöfn nefnd. ÓÖH, SG og HHS taka að sér að hafa samband við þá aðila.
- SG lýsti nýju fjárhagsmódeli fyrir faghópa sem er í mótun innan UAR. Í því kerfi væri einungis einkaaðilum greitt fyrir setu í faghópum en ætlast yrði til þess að opinberir starfsmenn í faghópum myndu sinna því starfi á venjulegum vinnutíma. Hins vegar væri greitt fyrir útselda sérfræðivinnu skv. verksamningum. Mikil andstaða kom fram við þessa tilhögun. Var sérstaklega á það bent að enda þótt fulltrúar í faghópunum ynnu ekki sjálfir við rannsóknirnar væri mjög mikil vinna í því fólgin að setja sig inn í niðurstöður sérfræðivinnunnar. Efasemdir komu fram um hve raunhæft það sé að áætla að meðlimir faghópanna geti unnið þá vinnu á sínum venjulega vinnutíma og að viðkomandi stofnanir geti borgað fyrir það vinnuframlag. Einnig var bent á jafnræðissjónarmið og þá staðreynd að stofnanir hafi mismikið svigrúm til að hagræða. SG nefndi að e.t.v. liggi einmitt þau jafnræðissjónarmið að baki hugmynd ráðuneytisins, þ.e. að óeðlilegt sé að borgað sé fyrir setu í einni nefnd en ekki annarri. Fram kom að í upphafi 2. áfanga hafi NÍ lagt til að faghópur I yrði lagður niður og öll vinnan yrði unnin á NÍ. Það var ekki gert þá vegna þess að talið var mikilvægt trúverðugleikans vegna að hafa sem fjölbreyttastan hóp sérfræðinga í faghópnum, en nú gæti það orðið valkostur ef fjárhagi faghópanna yrði sniðinn jafnþröngur stakkur og þessar tillögur gera ráð fyrir. Fundarmenn samþykktu að bjóða Jóni Geir Péturssyni, skrifstofustjóra í UAR, á næsta fund til að gera frekari grein fyrir þessum málum.
- Fulltrúar í faghópum: SG kynnti endurskoðaðan lista með hugmyndum um formenn og aðra fulltrúa í faghópum. Listinn var ræddur stuttlega. ERL lýsti þeirri tillögu sinni að tveir fulltrúar verði handvaldir, þar af væri annar formaður og valinn fyrst. Síðan væru þrjár valdar stofnanir beðnar um tilnefningar og loks væri tekin ákvörðun um síðari handvalda aðilann. Ákveðið var að bíða með að hafa samband við fólk uns línur skýrast með fjármál og greiðslur fyrir setu í faghópum. Fjöldi fulltrúa var einnig ræddur stuttlega, líklegt þótti að hann yrði um 5-7 manns. Í 2. áfanga var faghópur I tvöfaldaður alveg í lok vinnunnar til að fá inn fleiri sjónarmið. Vel er hugsanlegt að beita þeirri aðferð aftur í 3. áfanga.
- Verkefnisskil og framhald: SG lagði til að hafist verði handa strax við að skrifa uppkast að niðurstöðuskýrslu verkefnisstjórnar og að fyrst yrði skrifað um Hagavatn og Hólmsá til að skilgreina endanlega hvað stendur út af. Ákveðið var að fela HHS að hafa samband við Orkustofnun varðandi frekari gögn um þessa tvo kosti, einkum m.t.t. línulagna en hvað Hagavatn snertir, einnig m.t.t. nánari útfærslu á virkjunaráformum.
- HB lagði til að verkefnisstjórn fari þess á leit við Orkustofnun að hún fari yfir orkukosti í biðflokki og athugi hvort allir þeir kostir séu enn inni á áætlunum orkufyrirtækja. Í einhverjum tilvikum kunna áform um virkjanir að vera aflögð og þá ástæðulaust að verkefnisstjórn taki viðkomandi virkjunarkosti til afgreiðslu að óbreyttu.
- Fundi slitið kl. 12:55.