7. fundur, 19.09.2013

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og nýtingu orkusvæða

7. fundur, 19.09.2013, 13:00-14:30

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Helga Barðadóttir (HB), Elín R. Líndal (ERL), Hildur Jónsdóttir (HJ), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifar fundargerð.

Fjarverandi: Ólafur Örn Haraldsson.

  1. Fundur settur kl. 13:16.
  2. Jón Geir Pétursson, skrifstofustjóri í UAR, komst ekki á fundinn að ræða fjármál faghópanna eins og ráðgert hafði verið. Því máli var því frestað til næsta fundar.
  3. Reglugerð: Stærstur hluti fundarins fór í að ræða um reglugerð þá sem ber að setja skv. lögum nr. 48/2011.
    1. SG lagði fyrir fundinn drög að lista yfir þá þætti sem þurfa að liggja fyrir svo virkjunarkostur sé tekinn til umfjöllunar. Listinn var ræddur nokkuð ítarlega og atriðum bætt á hann eins og þurfa þótti. Ljóst er að vegna ólíks eðlis vatnsafls- og jarðvarmavirkjana þarf mismunandi gögn fyrir þessar tvær tegundir af virkjunum og þarf þetta að koma skýrt fram í reglugerð. Horfa verður til laganna varðandi það hvaða gagna er krafist af framkvæmdaraðilum svo hægt sé að fjalla um fyrirhugaða virkjanakosti.
    2. Fundarmenn töldu mikilvægt að í umfjöllun um jarðvarmavirkjanir sé strax á frumstigum fjallað um niðurdælingu, hvort hún sé fyrirhuguð og hvernig staðið verði að henni. Einnig þarf að gera í umsókn grein fyrir fyrirhugaðri meðferð kælivatns, enda eru þetta þau atriði sem hafi valdið hvað mestum ófyrirséðum vandamálum við virkjun jarðvarma. Annað mjög mikilvægt atriði, ekki síst hvað varðar lýðheilsu, er losun brennisteinsvetnis. 
    3. Í umsóknum um vatnsaflsvirkjanir er mjög mikilvægt að fram komi gögn um væntanlegan niðurdrátt í lónum. Einnig þarf að gera grein fyrir vatnsborðssveiflu í lónum bæði í tíma og rúmi. Er þá átt við hversu miklu munar á lægstu og hæstu stöðu vatnsyfirborðs í lóninu og hvenær lónið fer að tæmast, er í lágmarki og (mikilvægast) hvenær það fyllist. Einnig þarf að gera grein fyrir lágmarksrennsli í farvegi neðan virkjunar.
    4. Rætt var um hvernig samskiptum framkvæmdaaðila, Orkustofnunar og verkefnisstjórnar skuli háttað. Orkustofnun mun sjá um öll samskipti við orkufyrirtækin. Öll gögn um fyrirkomulag virkjunar eiga að berast til Orkustofnunar sem sér um að skrá gögnin og koma þeim til verkefnisstjórnar. Einnig kom aðkoma Landsnets til umræðu. Þar sem það er á ábyrgð framkvæmdaraðila að leggja Orkustofnun til gögn um virkjunarhugmyndir mun það verða á ábyrgð framkvæmdaraðila að leita til Landsnets til að sjá til þess að í gögnunum séu einnig upplýsingar um fyrirhugaðar tengingar virkjunar við dreifikerfið.
    5. Ákveðið var að SG taki að sér að bæta þeim punktum sem komu fram á fundinum við upprunalega listann og komi þeim gögnum til HHS. Hún mun svo sjá um að koma málinu áfram innan ráðuneytisins.
  4. Önnur gögn: Töluverð umræða spannst um hvernig ætti að afla þeirra gagna sem ekki snúa að framkvæmdinni sjálfri en eru engu að síður nauðsynleg til að meta virkjunarkosti og flokka. Það sem helst vantaði upp á í 2. áfanga voru rannsóknir í ferðaþjónustu og rannsóknir á landslagi, landslagsheildum, upplifunargildi og fagurfræði. Nauðsynlegt verður að ráðast í þessar rannsóknir nú til að geta metið á fullnægjandi hátt marga þeirra virkjunarkosta sem nú eru í biðflokki. Rannsóknir á samfélagslegum áhrifum virkjana eru einnig aðkallandi þótt erfiðar séu viðfangs. HJ benti á að hvað samfélagsleg áhrif virkjana snerti sé um tvær víddir að ræða, þ.e. nútímann og framtíðina. Sums staðar tengjast áhrif á landslag samfélagslegum áhrifum, t.d. við neðri Þjórsá. Rætt var að verkefnisstjórn ætti að kynna sér hvaða rannsóknir á þessum sviðum eru í gangi og stofna til samvinnu við rannsakendur, þannig að fé til rannsókna nýtist sem best.
  5. Mat á umhverfisáhrifum (MÁU) og umhverfismat áætlana (UMÁ) – HB benti á að nauðsynlegt sé að fara að huga að þessum málum. SG mun hafa samband við Skipulagsstofnun um málið.
  6. Skýrsla um uppbyggingu dreifikerfis raforku, sem nýlega var lögð fram, á fullt erindi við verkefnisstjórnina að mati HB og mun hún senda skýrsluna á verkefnisstjórnina. Skýrsla um jarðstrengi var lögð fram í vor og verður lögð fram á Alþingi ásamt skýrslu um möguleika þess að leggja sæstreng til Evrópu. HB mun kanna hvort verkefnisstjórn getur fengið kynningu á skýrslunum.
  7. Kynningar: Upp úr þessari umræðu spratt sú hugmynd að setja upp lista yfir málefni sem æskilegt væri að verkefnisstjórn fengi kynningu á. Í viðbót við þær tvær kynningar sem minnst er á í 6. lið hér að ofan taldi verkefnisstjórnin nauðsynlegt að fá kynningu á stöðu þekkingar og rannsókna í ferðamennsku, aðallega hvað hálendið snertir.
  8. Starfsreglur – HHS sendi út drög að starfsreglum fyrir verkefnisstjórnina fyrir fundinn. Þau drög voru rædd stuttlega og ákveðið að fela lögfræðingi skrifstofu landgæða í UAR að fullvinna drögin í tillögur að starfsreglum.
  9. Fundi slitið kl. 14:41.