1. fundur faghóps 1, 21.05.2014
Fundarfrásögn
Faghópur 1 í 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða
1. fundur, 21.05.2014, 13:00-16:00
Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu
Mætt: Skúli Skúlason (SS) formaður hópsins, Ása Lovísa Aradóttir (ÁLA), Birna Lárusdóttir (BL), Kristján Jónasson (KJ), Sólborg Una Pálsdóttir (SUP), Sólveig K. Pétursdóttir (SKP), Tómas Grétar Gunnarsson (TGG) og Þorvarður Árnason (ÞÁ).
Gestir: Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ) prófessor og meðlimur verkefnisstjórnar RÁ3, Stefán Gíslason (SG) formaður verkefnisstjórnar RÁ3.
Fjarverandi: Gísli Már Gíslason (GMG) og Þorvaldur Þórðarson (ÞÞ) höfðu boðað forföll.
Fundarritari: Herdís Helga Schopka (HHS).
- Fundur settur kl. 13:18.
- Kynning á meðlimum faghópsins – Fundargestir gerðu grein fyrir störfum sínum og fyrri aðkomu að rammaáætlun, ef einhver er.
-
Kynning á viðfangsefni 3. áfanga rammaáætlunar – SG útskýrði grunnviðfangsefnið og fór stuttlega yfir atburðarás í RÁ3 fram að þessu.
- Fyrst ræddi SG lista Orkustofnunar yfir virkjunarkosta í RÁ3 og sýn hans á hvernig verkefnisstjórn beri að vinna úr honum. Formaðurinn benti einnig á að enn sé nokkur óvissa um hvaða kostir nákvæmlega munu lenda á borði faghópanna því ekki er enn víst að allir kostir muni uppfylla gagnakröfur væntanlegrar reglugerðar. Einnig ræddi hann lögfræðiálit UAR frá 12. mars sl. um endurmat á virkjunarkostum sem flokkaðir voru í 2. áfanga rammaáætlunar.
- Orkustofnun mun að öllum líkindum taka sér fjóra mánuði til að skila fullbúnum gagnapakka til verkefnisstjórnar eftir að reglugerð um virkjunarkosti verður samþykkt. Þannig verður ekki hægt að fara í gegnum lista stofnunarinnar yfir virkjunarkosti og grisja hann fyrr en í fyrsta lagi í haust. Hugsanlega má byrja að skoða kosti sem eru í biðflokki og virkjunaraðilar hafa beðið um að séu metnir í 3. áfanga áður en Orkustofnun skilar af sér endanlegum lista.
- Samkvæmt erindisbréfi verkefnisstjórnar þarf hún að skila tillögum til ráðherra í tæka tíð til þess að ráðherra geti lagt fram þingsályktunartillögu á vorþingi 2017. Tillögur verkefnisstjórnar þurfa því að fara í samráðs- og kynningarferli eigi síðar en í september 2016 og til þess að svo megi verða þurfa faghópar að skila niðurstöðum sínum á vordögum 2016.
- SG lýsti forsendunum sem verkefnisstjórnin studdist við er fulltrúar í faghópa voru valdir. Hver og einn fulltrúi er í hópnum fyrst og fremst á forsendum eigin sérfræðiþekkingar og sem viðurkenndur vísindamaður á sínu sviði. Fulltrúar í faghópum eru ekki fulltrúi stofnana eða fyrirtækja og/eða atvinnugeira. Einnig var verkefnisstjórninni mikilvægt að fá sem blandaðastan hóp hvað varðar reynslu af störfum við rammaáætlun, starfsvettvang, kyn og búsetu.
- Rætt um gagnakröfur, bæði varðandi virkjunarkosti og önnur gögn sem snerta hvern kost. SG ræðir mörk landsvæða sem til umræðu eru þegar verið er að skilgreina svæði til friðunar. Fulltrúar almennt á þeirri skoðun að faghópar 1 og 2 geti ekki notað sömu skilgreiningar.
- Erindisbréf – SS fór stuttlega í gegnum texta erindisbréfs hópsins.
-
Fjármál og samningar við fulltrúa í faghópum – HHS fór yfir hvernig þóknun til faghópa verður háttað.
- Þau mál eru ekki fullfrágengin enn en ljóst er að samningar verða gerðir við hvern fulltrúa og tímakaup verður greitt, upp að ákveðnu þaki á tímafjölda. Ekki er gert ráð fyrir að greitt sé fyrir fyrstu 5-6 klukkustundir hvers mánaðar, enda slíkt venja í nefndum hins opinbera. Fram kom að mikilvægt sé að stofnanir geri fulltrúum sem þar vinna kleift að vinna að faghópastörfum á dagvinnutíma.
- Líklega munu fulltrúar úr einkageiranum fá sama tímakaup og fulltrúar sem vinna við stofnanir hins opinbera.
- Ferðakostnaður vegna 5 funda á ári verður endurgreiddur. Almenn óánægja var með þá ráðstöfun meðal fundarmanna þar sem hún er talin mismuna fulltrúum eftir búsetu.
- SG lagði til að uppgjör vegna vinnu við faghópa verði gert fyrir sem styst tímabil, t.d. mánuð í einu, svo allir aðilar séu alltaf meðvitaðir um tímanotkun og kostnað. Hann lagði einnig til að einstök verkefni faghópanna verði kostnaðarmetin.
-
Kynning á aðferðafræði – ÞEÞ kynnti aðferðafræði faghóps 1 í fyrri áföngum. Eftir kynninguna spunnust nokkrar umræður um aðferðafræðina, ýmsa þætti hennar og hugsanlegar breytingar á henni.
- ÞEÞ benti á að ekki hafi fengist fjármunir í lok 2. áfanga til að skrásetja rökstuðning fyrir mati faghópanna á verðmætum. Þannig sé ekki hægt að nota þessi gögn aftur, vinna hópanna nýtist ekki í þessum áfanga, og það þurfi að vinna alla vinnuna frá grunni aftur.
- Rætt var um gagnrýni sem fram kom á rammaáætlun á haustmánuðum 2013 að hún sé að seilast inn á verksvið mats á umhverfisáhrifum. ÞEÞ benti á að í þeim tilfellum þar sem mótvægisaðgerðir eru hluti af hönnun virkjana sé erfitt að komast framhjá því að meta mótvægisaðgerðir í rammaáætlun. Slíkar mótvægisaðgerðir séu einfaldlega allt annars eðlis en þær sem hafa engin áhrif á virkjunarstaðnum sjálfum.
- KJ benti á ákveðinn galla við aðferðafræði fyrri áfanga, þar sem svæðum er raðað eftir meðaltali einkunna fyrir mörg viðföng. Náttúruminjar sem eru einstakar á heimsvísu geta fengið lága meðaleinkunn ef einkunnir fyrir önnur viðföng eru lág. Skoða þarf leiðir til að bæta úr þessu.
- SSk benti á nauðsyn þess að hópurinn ræði frekar um aðferðafræðina og hugsanlegar breytingar á henni.
-
Önnur mál – Nokkrar almennar fyrirspurnir komu fram:
- Spurt var hvernig væri ákveðið hvaða rannsóknir eru gerðar og hver eigi að gera þær. Þetta var rætt stuttlega m.t.t. reynslu af vinnu í RÁ2. Í þriðja áfanga er miðað við að faghópurinn skilgreini rannsóknaverkefni sem þarf að vinna og beri þau undir verkefnisstjórn, sem svo felur UAR að gera verksamning við viðkomandi rannsóknastofnun eða rannsakanda.
- Undirbúningstími – er þörf á að hópurinn samræmi tímafjölda sem fólk notar í undirbúning eða á hver að dæma sjálf/-ur um hve mikill tími eigi að fara í það?
- Ákveðið var að fólk myndi nota sumarið í að setja sig inn í gögn úr þessum og fyrri áföngum rammaáætlunar og sinna öðrum undirbúningi fyrir framhald vinnunnar.
- Næsti fundur var ákveðinn fimmtudaginn 19. júní kl. 13-16.
- Fundi slitið kl. 16:00.
Herdís H. Schopka