3. fundur faghóps 2, 14.10.2014
Fundarfrásögn
Faghópur 2 í 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu landsvæða
3. fundur, 14.10. 2014, 09:00-11:00
Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu
Mætt: Anna Dóra Sæþórsdóttir (ADS), Anna G. Sverrisdóttir (AGS), Áki Karlsson (ÁK), Einar Torfi Finnsson (ETF), Guðni Guðbergsson (GG), Jóhannes Sveinbjörnsson (JS), Sigrún Valbergsdóttir (SV), Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir (SSJ) og Sveinn Runólfsson (SR).
Fundarritari: Herdís Helga Schopka (HHS).
Dagskrá fundarins:
1. Samþykkt fundargerðar
2. Umræða um OECD skýrsluna (OECD Environmental Performance Reviews: Iceland 2014.
3. Fyrsta tilraun faghópsins að því að meta virkjunarkosti í biðflokki
4. Önnur mál
- Fundur settur kl. 09:10.
- Fundargerð síðasta fundar samþykkt með einni breytingu.
- Formannafundur – ADS sagði frá fundi formanna í rammaáætlun (Stefáni Gíslasyni (SG) og Skúla Skúlasyni (SS) ásamt HHS) þann 29. september sl. Þar kom í ljós að endanlegur listi yfir virkjunarkosti sem faghópurinn mun meta mun líklega ekki liggja fyrir fyrr en í janúar. Vegna þröngs tímaramma mun SG leggja til við verkefnisstjórnina að faghóparnir byrji samt sem áður vinnuna með því að skoða 20 virkjunarhugmyndir sem eru í biðflokki og orkufyrirtækin hafa lýst áhuga á. SG benti á að gott væri ef faghóparnir gerðu yfirlit yfir hvaða rannsóknir þyrfti helst að gera sumarið 2015.
- Þriðja umhverfisskýrsla OECD um Ísland– ADS kynnti helstu niðurstöður skýrslunnar sem tengdust starfi faghópsins og vinnu við rammaáætlun almennt.
-
Mat á virkjunarkosti, Hólmsá við Atley –
- ADS lagði til að faghópurinn myndi byrja að æfa sig á matsaðferðum með því að skoða tillögur Landsvirkjunar um virkjun Hólmsár við Atley. Faghópurinn telur erfitt að vinna mat án gagna um raflínur. HHS lagði til að hópurinn myndi leggja fram rökstudda beiðni til verkefnisstjórnar um að ráðist yrði í vinnu við að skilgreina líklegustu línuleiðir og útbúa kort sem sýndi sjónræn áhrif línanna, í líkingu við gögn sem voru kynnt fyrir verkefnisstjórn á fundi með fulltrúa Landsnets þ. 14. október 2013. HHS var falið að skrifa uppkast að bréfi til verkefnisstjórnar og senda til ADS.
- Skilgreiningar á orðinu „víðerni“ voru ræddar. Hvaða skilgreiningu á að nota? Er skilgreiningin úr náttúruverndarlögum of þröng? Ákveðið var að notast við huglæg víðerni, þ.e. hvort ferðamenn upplifðu svæði sem víðerni.
- ADS kynnti stuttlega niðurstöður rannsóknar á viðhorfum ferðamanna vegna virkjunar Hólmsár við Atley og raflínu frá henni.
- Sú spurning kom upp hvort faghópurinn eigi að meta áhrif á ferðamennsku (þ.e. ferðamenn og ferðaþjónustu) eða bara á ferðamenn? Ef fyrra, þá þyrfti að huga að efnahagsáhrifum ferðaþjónustunnar og byggðaáhrifum. Ekki var talið ljóst hvort slíkt mat væri á borði faghóps 2 eða hvort einhver annar faghópur ætti að fjalla um efnahagslegu hliðina.
- ETF sagði frá skýrslu um ævintýraferðamennska (e. adventure tourism) en hún væri sá angi ferðaþjónustu sem yxi hraðast, ekki síst hérlendis, og að slík ferðamennska væri sú tegund ferðamennsku sem yrði fyrir hvað mestum áhrifum af hvers konar virkjanaframkvæmdum.
- Hópurinn æfði sig í að meta virði viðfanga fyrir Hólmsá við Atley. Í þeirri vinnu var notuð tafla yfir virðismat og Excel-skjal með reikniformúlu úr 2. áfanga. Allir fulltrúar í hópnum voru sammála um að þetta séu mjög nauðsynlegt tól til að hafa við matið, þannig séu niðurstöður rekjanlegar og einnig sambærilegar milli áfanga.
-
Önnur mál
- Minnisblað um þóknun til fulltrúa faghópa – HHS kynnti formlegt minnisblað frá skrifstofu fjármála og rekstrar í UAR um fyrirkomulag þóknunar til fulltrúa faghópa. Mikil óánægja var meðal fundarmanna um að ráðuneytið hygðist ekki greiða fyrir fyrstu 72 klst. (6 klst./mán. x 12 mánuðir) eða tæplega tvær vinnuvikur á ári. Ekki sé víst að fjársveltar stofnanir geti tekið á sig að greiða fyrir svo mikla vinnu utan fjárlagaramma viðkomandi stofnunar. Einnig þótti fráleitt að þeir sem væru sjálfstætt starfandi þyrftu að vinna launalaust 72 tíma á ári við rammaáætlun. Höfuðatriði er, að mati fundarmanna, að fólk geti tekið þátt í starfi við rammaáætlun án þess að bíða fjárhagstjón af.
- Fundi slitið kl. 11:15.
Herdís H. Schopka