2. fundur, 03.06.2013

Fundarfrásögn

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um verndun og nýtingu orkusvæða

2. fundur, 03.06.2013, 9:00-11:00

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

Mætt: Stefán Gíslason (SG), Helga Barðadóttir (HB), Elín R. Líndal (ERL), Ragnheiður Helga Þórarinsdóttir (RHÞ), Ólafur Örn Haraldsson (ÓÖH), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (ÞEÞ) og Herdís Helga Schopka (HHS). HHS skrifar fundargerð.

  1. SG setur fund kl. 09:09.
  2. RHÞ: Biður um orðið og segir sig formlega úr verkefnisstjórninni sakir umboðsskorts vegna breytinga á forræði menningarminja í stjórnarráðinu.
  3. SG fer stuttlega yfir fund með ráðherra sl. fimmtudag. Allir tala sama tungumál en von er á viðauka við erindisbréf þar sem ráðherra mun leggja sérstaka áherslu á virkjanahugmyndirnar átta sem voru nefndar í 12. kafla nefndarálits, auk stækkunar á virkjunum á svæðum sem þegar hefur verið raskað (t.d. á Þjórsársvæði).
  4. Mótvægisaðgerðir: ERL vekur athygli á því að mótvægisaðgerðir séu ekki teknar með í vinnu verkefnisstjórnar, gerir athugasemdir við þetta og vill að þær séu teknar með. ÞEÞ svarar og kveður ekki gerlegt að taka mótvægisaðgerðir með í mati faghópa vegna þess hve misjöfn aðstaða sé fyrir málsaðila að koma að málum og skilgreina þessar aðgerðir. Sumar virkjunarhugmyndir eru lagðar fram til mats af orkufyrirtækjum sem skilgreina mótvægisaðgerðir sem hluta af framkvæmdinni sem fyrirtækið ætli að ráðast í, meðan aðrar hugmyndir eru á vegum Orkustofnunar sem hefur ekki umboð til þess að skilgreina bindandi mótvægisaðgerðir og binda þannig hendur orkufyrirtækja, sem kynnu að vilja hrinda þeirri virkjunarhugmynd í framkvæmd, í framtíðinni. ERL biður um að það sé hugsað um þetta áfram. Nefnir mótvægisaðgerðir við Urriðafoss (seiðaveitur) sem dæmi um að framkvæmdaaðili hafi unnið mikið starf til að minnka hugsanleg umhverfisáhrif virkjunar. ÞEÞ og SG benda á að það séu í raun tveir flokkar af mótvægisaðgerðum, annars vegar þær sem eru hannaðar inn í framkvæmdina og hins vegar illa skilgreindar tillögur, t.d. loforð um uppgræðslu á einhverjum öðrum stað.
  5. Orkuöflun með stækkun núverandi virkjana: ÓÖH óskar eftir að upplýsinga verði aflað um hversu mikla orku stækkun núverandi virkjana geti gefið og hversu hratt slík orkuöflun geti komið til skjalanna. Rétt sé að meta slíka kosti til samanburðar við nýjar virkjanir og tímasetningu þeirra. Nefnir hann að slegið hafi verið fram að betri nýting á örara vatnsrennsli vegna hlýnunar og bráðnunar jökla geti gefið svipaða orku og neðri Þjórsá.
  6. Samfélagsleg áhrif virkjana og virkjanaframkvæmda: ERL bendir á að áhrif virkjana og framkvæmda þeim tengdum á félagslega þætti sé ekki auðvelt að meta, sérstaklega langtímaáhrifin. SG bendir á að mörgum þyki samfélagsleg áhrif hafa haft lítið vægi í tillögum verkefnisstjórnar 2. áfanga. Mikill fjöldi umsagna um þær tillögur snerust um skort á rannsóknum á hinum félagslega þætti. Í þessu samhengi bendir ÓÖH á að drifkrafturinn á bak við allar virkjunarframkvæmdir sé í raun samfélagslegur. ERL talar um að það sé erfitt að mæla tilfinningar og þar skipti tímapunkturinn máli – hvenær fara rannsóknir fram? SG talar um að rannsaka þurfi bæði skammtíma- og langtímaáhrif og að nokkrar aðferðir hafi verið þróaðar til þess.  ERL bendir á að gríðarlegar rannsóknir hafi farið fram á t.d. byggðamálum og brottflutningi ungs fólks.
  7. Flutningskerfi raforku: ERL og HB vekja athygli á að flutningskerfi raforkunnar þarfnist verulegra endurbóta, jafnvel þótt ekki sé verið að tala um nýjar virkjanir eða stórnotendur. ÞEÞ telur að gera þurfi betur varðandi línulagnir í þessum áfanga, erfitt sé að fá góðar upplýsingar frá framkvæmdaaðilum, sem oft voru varla farnir að hugsa um línulagnir þegar virkjanahugmyndir voru lagðar fram til mats. HB nefnir í þessu sambandi hvort það muni verða sett í reglugerð að tiltækar séu lágmarksupplýsingar um línulagnir með beiðni um að hugmyndir verði teknar til mats. ÓÖH rifjar upp að 2. áfanga rammaáætlunar hafi val á línustæði oft verið afgerandi þáttur í mat á viðkomandi virkjanahugmynd og skortur á slíkum upplýsingum hafi þá verið mjög bagalegur.  ÞEÞ bendir á að af hugmyndunum átta sem nefndar voru í 12. kafla nefndarálitsins kalli fimm á verulega nýbyggingu á raflínum, þ.e. allar nema virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár. HB bendir á að styrkja þurfi Byggðalínuna til að anna núverandi flutningi.
  8. Faghópar: SG útskýrir að í  2. áfanga voru fjórir faghópar og að langeinfaldasta lausnin í 3. áfanga sé að hafa þessa fjóra hópa áfram. Þó sé hugsanlegt að sleppa faghópi IV enda séu þeirra niðurstöður komnar og ekki líklegar til að breytast.
    1. Samskipti faghópa og verkefnisstjórnar: Hvernig vill verkefnisstjórn að samskiptum faghópa og verkefnisstjórnar sé háttað? HB bendir á að það sé einfaldlega góð stjórnsýsla að faghópar vinni án beinnar aðkomu verkefnisstjórnar. Svo taki verkefnisstjórn við niðurstöðum faghópa. Þá sé hægt að boða formenn faghópa á fundi með verkefnisstjórn eins og þurfi. ÓÖH bendir á að séu formenn líka á verkefnastjórnarfundum séu þeir mun betur upplýstir og færir um að sinna starfinu. HB bendir á að ef faghópar vinna sjálfstætt frá verkefnisstjórn þá þurfi að tryggja góð samskipti verkefnisstjórnar við faghópana. Aðrir taka undir það sjónarmið.
    2. Skipan í faghópa: ERL leggur til að verkefnisstjórn handvelji ekki fólk í hópana heldur kalli eftir tilnefningum, þar sem það bjóði upp á meiri vídd í samsetningu faghópanna. SG og HB leggja til milliveg þar sem t.d. stofnanir fá að tilnefna. Mikilvægt sé að skilgreina vel hvernig fagsviðum við erum að leita að. ÞEÞ lýsir hversu mikilvægt henni fannst á sínum tíma, trúverðugleikans vegna, að fólk í faghópum væri viðurkenndir sérfræðingar á sínu sviði. Í 2. áfanga var reynt að velja fólk í faghópana frá hinum ýmsu stofnunum ríkisins og var fólk handvalið. Í fyrsta áfanga var kallað eftir tilnefningum, þá barst fjöldi kvartana frá stofnunum og félagasamtökum sem ekki var kallað eftir tilnefningum frá. Á heildina litið er það mat ÞEÞ að það sé erfitt að setja saman faghópa með góðu jafnvægi hagsmunaaðila og sérfræðiþekkingar þegar óskað er eftir tilnefningum. ÞEÞ bendir jafnframt á að verði kallað eftir tilnefningum þá megi líta á faghóp I í 1. áfanga sem ákveðið leiðarljós, en þar var fólk frá bæði ríkisstofnunum og frjálsum félagasamtökum. ÓÖH veltir upp spurningunni hvort í faghópunum eigi að sitja fagfólk eða hagsmunaaðilar og bendir á að þegar eingöngu hagsmunaaðilar sitji við borðið sé oft erfitt að ná málamiðlunum. Aðrir benda á að skilin milli hagsmunaaðila og fagfólks séu oft óljós. Ákjósanlegur fjöldi meðlima í faghópunum var stuttlega ræddur, m.t.t. þess að finna góðan milliveg milli fjölbreyttra sjónarmiða (fleiri meðlimir) og þess að skipulag vinnunnar sé viðráðanlegt (færri meðlimir).
    3. Verksvið faghópa: Hvaða verksvið eiga faghópar að hafa og hve marga þarf? SG segir að það líti út fyrir að vilji sé innan verkefnisstjórnar fyrir að halda faghópum I og II að mestu óbreyttum frá 2. áfanga en jafnvel leggja niður faghóp IV. ERL bendir á að í 2. áfanga virtist faghópur I vera kominn á gott ról varðandi gögn og rannsóknaraðferðir en það virtist enn þurfa mikla aðferðafræðiþróun hjá faghópi II. ÓÖH nefnir að það sé alger skortur á rannsóknum og gögnum hvað snertir útivist og ferðamennsku. Samfélagsleg áhrif hugsanlega í sérhóp en mótvægisaðgerðir varla sérfaghópur. ERL og HB benda á að nauðsyn sé að skilgreina hvaða sérfræðinga við þurfum og SG býðst til að gera upphafstillögur sem svo megi ræða og gagnrýna. HB tekur að sér að leita álits Orkustofnunar um afstöðu þeirra til þess að faghópur IV verði lagður niður.
    4. Aðferðafræði faghópa: ÞEÞ bendir á að það sé mikil vinna fyrir nýja meðlimi að setja sig inn í aðferðafræðina bæði hjá faghópi I og II. Helst þarf fólk að hafa farið á svæðin og séð þau. Einnig er aðferðafræðin í faghópum I og II þess eðlis að þar er tekið tillit til allra viðfanga í einu og því þurfa meðlimir að hafa þekkingu á áhrifum virkjana á þættina (viðföng) sem eru til umræðu í hverjum faghópi fyrir sig. HB spyr hvort aðferðafræði sé alveg tilbúin, segir hún hafi þótt mjög flókin á t.d. kynningarfundum. ÞEÞ bendir á að aðferðafræðin sé í grunninn sú sama hjá faghópum I og II og nánast sú sama og er notuð víða í Evrópu við MÁU. Eigi niðurstaðan að vera rekjanleg þarf aðferðin að vera þrepaskipt, en hingað til hefur einmitt verið stuðst við slíka aðferð við gerð rammaáætlunar (Analytical Hierarchy Process, eða AHP). Í þessari aðferð er ekkert eitt atriði sem ræður öllu varðandi mat á ákveðnum virkjunarhugmyndum heldur er fundin nokkurs konar vegin meðaleinkunn þar sem allar breytur eru teknar með í matið samkvæmt fyrirfram ákveðnu kerfi. SG segir frá hvernig aðferðafræðin var valin á sínum tíma, í kringum aldamótin, og lýsir hvaða rökstuðningur réði við það val.
  9. Forgangsverkefni skv. beiðni ráðherra og nefndaráliti: ERL bendir á að það hafi verið komin niðurstaða í hugmyndirnar átta sem verkefnisstjórnin eigi að fást við fyrst, þannig að þær séu vel þekktar. Því þurfi faghópar væntanlega ekki að fara jafnítarlega í þær hugmyndir og í 2. áfanga. Í þessu samhengi kom upp fyrirspurn um þær virkjunarhugmyndir þar sem gögn höfðu glatast og ÞEÞ gerði grein fyrir atvikum í stuttu máli. SG bendir á að það megi kannski vinna vinnuna aðeins öðruvísi fyrir kostina átta. Allir eru sammála um að það sé mikilvægt að fá sem fyrst gögn varðandi stækkanir – Blanda, Hrauneyjafoss, Búrfell og aðrar. Hafa þarf samband við Orkustofnun eða Landsvirkjun varðandi þessar upplýsingar sem fyrst. SG bendir á að til að verkefnisstjórn geti metið virkjunarhugmyndir í neðri Þjórsá virðist þurfa að kalla eftir endurmati allra gagna sem safnað hefur verið í ánni varðandi vistfræði laxa. Veiðimálastofnun (VMST) hefur sinnt þeim rannsóknum fyrir Landsvirkjun árum saman. Það er viss hætta á að bæði VMST og þeir vísindamenn sem North Atlantic Salmon Fund (NASF) hafa kallað eftir áliti frá séu vanhæf og í því tilfelli þarf að finna óháðan sérfræðing til að fara yfir gögnin.
  10. Tímarammi: HHS bendir á að ef tillögur eigi að vera tilbúnar fyrir þingið þann 1. mars þurfi vinna faghópanna að vera tilbúin um miðjan október. ÞEÞ spyr hvort það sé vilji til að hafa sömu faghópa og síðast eigi að skila niðurstöðum svona fljótt, því það taki langan tíma að þjálfa nýtt fólk í aðferðafræðinni. ÓÖH nefnir að að hans mati sé mikilvægt og gott að blanda nýju blóði í faghópana.  Einnig leggur ÓÖH til að verkefnastjórn fari í vettvangsferð að virkjanahugmyndunum átta núna í sumar, líklega tveggja daga ferð.
  11. Næsti fundur ákveðinn 10. júní kl. 9:00-12:00, sama stað.
  12. Fundi slitið um kl. 11:00.