Önnur nýting
Rammaáætlun snýst ekki bara um náttúruvernd og orkunýtingu
Samkvæmt lögunum um rammaáætlun ber ekki einungis að taka tillit til verndargildis náttúru og hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta þegar virkjunarkostum er raðað. Hér verður gerð stuttlega grein fyrir annars konar nýtingu og hagsmunum sem verkefnisstjórn og faghópar þurfa að horfa til í störfum sínum.
Menningarsögulegar minjar
Menningarminjar teljast ummerki um sögu þjóðarinnar, m.a. fornminjar og menningar- og búsetulandslag. Allar fornleifar á Íslandi eru friðaðar og sumar þeirra njóta meiri verndar með friðlýsingu. Nokkur fyrirtæki og stofnanir sinna fornleifarannsóknum hérlendis, t.d. Fornleifafræðistofan og Fornleifastofnun Íslands, og einnig taka ýmsir einstaklingar slíkar rannsóknir að sér. Á Íslandi eru nú rúmlega 100 menntaðir fornleifafræðingar en fjöldi þeirra sem vinna við fagið getur verið mjög breytilegur. Starfandi fornleifafræðingar vinna margir hverjir við tengd fög en áætla má að um 30 manns sinni uppgröftum, skráningu á gripum o.þ.h. verkefnum. Fé til fornleifarannsókna fer í gegnum Fornminjasjóð en einnig kemur rannsóknarfé erlendis frá.
Virkjunarframkvæmdir geta haft ýmiss konar áhrif á menningarsögulegar minjar, t.d. fært þær í kaf undir lón eða valdið rofi á þeim séu þær nálægt vatnsborði lónsins.
Það hefur verið á forræði faghóps 1 að meta minjar af þessu tagi á áhrifasvæðum virkjunarkosta. Tekið er tillit til mats hópsins á verndargildi minjanna þegar virkjunarkostum er raðað. Lendi virkjunarkostur í verndarflokki fyrst og fremst vegna verndargildis menningarsögulegra minja ber að friða það landsvæði samkvæmt lögum um minjavernd.
Ferðaþjónusta
Ferðaþjónustan er orðin stærsti útflutningsatvinnuvegur þjóðarinnar og dregur ríflega 800.000 ferðamenn til landsins á ári (2013). Hlutur ferðaþjónustunnar í gjaldeyristekjum þjóðarinnar var 26,8% árið 2013 og aflaði greinin þannig meiri tekna en bæði sjávarútvegur og stóriðja. Kannanir sýna að um 80% erlendra ferðamanna koma til landsins til að upplifa íslenska náttúru. Nýjustu tölur um fjölda starfsfólks í ferðaþjónustu eru frá 2009, en á því ári vann um 5% vinnuafls í greininni. Ætla má að með mikilli fjölgun ferðamanna síðan þá hafi störfum í greininni einnig fjölgað hlutfallslega.
Virkjunarframkvæmdir hafa margs konar áhrif á ferðaþjónustu. Sem dæmi má benda á vegaframkvæmdir sem yfirleitt fylgja byggingu virkjana og lóna. Þessir vegir eru oft mun betri en þeir vegir sem fyrir voru á svæðinu og þannig benda stuðningsmenn virkjunarframkvæmda á að iðnaðaruppbygging auki aðgengi almennings og ferðamanna að áður lítt aðgengilegum svæðum. Á móti benda náttúruverndarsinnar á að manngerð náttúra hafi minna verndargildi en óröskuð náttúra og hafi því minna aðdráttarafl fyrir ferðamenn - þ.e., að betri vegur sé til lítils ef enginn hafi áhuga á að skoða svæðið sem hann liggur til.
Faghópur 2 metur áhrif virkjunarkosta á hagsmuni ferðaþjónustunnar og tekið er tillit til þess mats þegar virkjunarkostum er raðað.
Ferðamennska og útivist
Íslendingar jafnt sem erlendir ferðamenn sækja mikið í að ferðast um íslenska náttúru hvort heldur er fótgangandi, á reiðhjólum, á hestbaki eða á jeppum og mótorhjólum. Fjölmörg samtök um útivist og ferðamennsku á Íslandi hafa sent inn umsagnir um fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir og niðurstöður rammaáætlunar. Af þessum umsögnum, og fjölda greina í blöðum og tímaritum, má ráða að innan þessa geira sé veruleg andstaða við frekari virkjunarframkvæmdir í óbyggðum landsins.
Veiðihlunnindi
Veiðihlunnindi geta verið margs konar en þau sem skoðuð eru í rammaáætlun eru fyrst og fremst veiði á fiskum í ám og vötnum. Vatnsaflsvirkjanir geta haft mikil áhrif á vistkerfi í ám og skiptir þá miklu máli hvernig rekstri virkjunarinnar er háttað og hvaða mótvægisaðgerða er gripið til. Ekki eru til nægileg gögn til að meta áhrif virkjunarkosta á hlunnindi af fugla- og hreindýraveiðum.
Faghópur 2 metur áhrif virkjunarkosta á veiðihlunnindi og tekið er tillit til þess mats þegar virkjunarkostum er raðað.
Beitarhlunnindi og aðrar landnytjar
Beitarhlunnindi eru mjög mikilvægur þáttur í sauðfjárrækt á Íslandi og geta jafnvel skipt sköpum um hvort hagkvæmt sé að halda úti býli eður ei. Í rammaáætlun er sjónum fyrst og fremst beint að sauðfjárbeit en einnig eru hugsanleg áhrif virkjana á hrossabeit, túnrækt og aðrar ræktar- og beitarnytjar könnuð, þar sem það á við.
Landbúnaður er ein af undirstöðuatvinnugreinum landsins þó að tiltölulega lítill hluti vinnuafls landsins sæki þangað vinnu. Um 4800 manns höfðu atvinnu af landbúnaði árið 2013, eða um 3% allra á vinnumarkaði.
Faghópur 2 metur áhrif virkjunarkosta á beitarhlunnindi og tekið er tillit til þess mats þegar virkjunarkostum er raðað.
Þjóðhagsmál, atvinnulíf og byggðaþróun
Til þess að hægt sé að meta virkjunarkosti út frá sjónarhóli sjálfbærrar þróunar er nauðsynlegt að taka með í reikninginn væntanleg áhrif framkvæmda á samfélagið, atvinnulíf og byggðaþróun.
Í 2. áfanga rammaáætlunar var faghópi 3 falið að sinna þessu verkefni. Niðurstöður hópsins voru hafðar til hliðsjónar þegar virkjunarkostum var raðað.
Lýðheilsa
Lýðheilsa vísar til almenns heilsufars þjóðar eða þjóðfélagshóps. Snertifletir hennar við rammaáætlun eru aðallega tveir, þ.e. annars vegar ferðamennska og útivist almennings og hins vegar mengun frá virkjunum. Skertir möguleikar á útivist vegna virkjunarframkvæmda og reksturs virkjana hafa neikvæð áhrif á lýðheilsu og sama má segja um mengun frá virkjunum, t.d. vegna brennisteinstvíildis.
Í 2. áfanga rammaáætlunar var lýðheilsa ekki skoðuð sérstaklega. Stefnt er að því að bæta úr því í 3. áfanga, sem stendur nú yfir.