Orkunýting
Orkugjafarnir sem rammaáætlun nær til
Rammaáætlun tekur til
... landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti til orkuvinnslu, jafnt innan eignarlanda sem þjóðlendna.
(sjá 2. grein laganna um rammaáætlun). Lögin skilgreina hugtakið virkjunarkost sem
Áætluð framkvæmd vegna virkjunar til orkuvinnslu á tilgreindum virkjunarstað.
Ekki er talið upp í lögunum hvaða orkugjafa sé þar um að ræða. Rammaáætlun nær ekki yfir fyrirhugaða leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis á Drekasvæðinu, enda væri þar um orkuvinnslu á sjó að ræða en ekki á landi. Hins vegar er í raun ekkert því til fyrirstöðu að finnist t.d. kolalög eða olíulindir í jörðu á Íslandi, sem þó verður að telja nánast útilokað, myndi rammaáætlun ná yfir slíka orkuvinnslu.
Orkulindir þær sem rammaáætlun nær til eru þær sem langstærstur hluti orkuvinnslu landsmanna byggir á - þ.e. vatnsafl og jarðvarmi. Í 3. áfanga hefur vindorka bæst við.
Vatnsafl og vindorka eru endurnýjanlegar orkulindir. Jarðvarmi (einnig kallaður jarðhiti) er þá aðeins endurnýjanleg orkulind að ekki sé tekin meiri orka úr jarðhitakerfinu en streymir inn í það úr iðrum jarðar. Nánar er fjallað um orkulindir, endurnýjanleika þeirra og sjálfbærni hér.
Enda þótt rammaáætlun nái aðeins til skilgreindra virkjunarkosta verður að hafa í huga að án veitumannvirkja er lítið gagn í að reisa virkjun. Þess vegna eru orkufyrirtæki og veitufyrirtæki oft rædd í sömu andránni. Á Íslandi er óheimilt að sama fyrirtæki sinni bæði orkuframleiðslu og veitu. Hins vegar er augljóst að án orkufyrirtækjanna væru veitufyrirtækin ekki til og öfugt.
Virkjanir á Íslandi í dag
Vatnsaflsvirkjanir á Íslandi í dag (2024) eru tæplega 51 talsins. Langstærsta fyrirtækið á þessu sviði er Landsvirkjun. Uppsett afl í vatnsorkuverum Landsvirkjunar er tæp 1990 MW og orkuvinnsla á ársgrundvelli rúmar 13.740 GWst. Næststærsti framleiðandi vatnsorku á Íslandi er Orkusalan með tæplega 37 MW uppsett afl og 80 GWst orkuvinnslu á ári. Orkubú Vestfjarða og Orka náttúrunnar hafa hvort um sig um 11 MW uppsett afl í sínum vatnsaflsvirkjunum, sem eru alls 10 talsins. Aðrir framleiðendur vatnsorku reka afar smáar virkjanir sem samtals framleiða langt innan við 1% af vatnsafli í landinu.
Jarðvarmavirkjanir á Íslandi í dag eru sjö talsins og eru reknar af fjórum fyrirtækjum. Langstærsta fyrirtækið á þessu sviði er Orka náttúrunnar með 423 MW uppsett afl í Hellisheiðar- og Nesjavallavirkjunum. HS Orka rekur jarðvarmavirkjanir í Svartsengi og á Reykjanesi og er uppsett afl þeirra samtals tæp 180 MW. Landsvirkjun rekur þrjár jarðvarmavirkjanir; Kröflu, Gufustöðina (áður Bjarnarflag) og Þeistareykjastöð, með samanlagt uppsett afl upp á 155 MW og orkuvinnslu um 1.280 GWst/ár. Minnsta jarðvarmavirkjun landsins, uppsett afl 2 MW og orkuvinnsla um 14 GWst/ár, er rekin af Orkuveitu Húsavíkur.
Vindorka
Vinnsla orku úr vindi er enn á tilraunastigi á Íslandi. Frá því í desember 2012 hefur Landsvirkjun rekið tvær vindmyllur á Hafinu við suðurrönd hálendisins, rétt ofan við Búrfell við Þjórsá. Reynslan af þessari tilraunastarfsemi hefur verið framar öllum vonum og má búast við að vindorka verði beisluð í auknum mæli hérlendis í framtíðinni.
Landsvirkjun er enn sem komið er eina fyrirtækið sem framleiðir vindorku inn á dreifikerfi raforku, ef frá eru taldar tvær smærri vindmyllur fyrirtækisins Biokraft ehf. í Þykkvabæ. Fjárhagsleg þýðing þessa orkugjafa fyrir hagkerfi landsins og fyrirtæki er enn lítil en mun eflaust fara vaxandi.
Orku- og veitufyrirtæki
Í nokkrum tilfellum samnýta orku- og veitufyrirtæki starfsfólk í skrifstofurekstri og því er einfaldara að gera grein fyrir heildarstarfsmannafjölda í greininni en að skipta störfunum upp í störf tengd orkuvinnslu og störf tengd veitum. Sá háttur verður því hafður hér á. Starfsfólk í orku- og veitufyrirtækjum á Íslandi er rúmlega 1200 talsins. Fimm þessara fyrirtækja hafa yfir 100 starfsmenn og er Orkuveita Reykjavíkur þeirra stærst með 420 starfsmenn. Séu einstök fyrirtæki skoðuð kemur í ljós að hlutfall kvenna er 12-30% eftir fyrirtækjum. Á heildina litið er hlutfall kvenna í greininni 23%. Flestar konur vinna skrifstofustörf en afar fáar eru í tæknilegum störfum. Vísbendingar eru um að hlutur kvenna í tæknistörfum sé að aukast hægt og bítandi.
Helstu einkenni mannauðs í orku- og veitugeiranum er annars vegar hátt menntunarstig starfsfólks og hins vegar hár starfsaldur. Hlutfall háskólamenntaðs starfsfólks er hið sama og á almennum vinnumarkaði á Íslandi en hlutfall iðnmenntaðs starfsfólks er mun hærra. Laun í geiranum eru einnig nokkuð há miðað við sambærilega geira og helgast það af háum starfs- og lífaldri starfsmanna.
Heimildir: Heimasíður og ársskýrslur orkufyrirtækjanna