Lög og reglur um rammaáætlun
Um rammaáætlun gilda lög nr. 48 frá 2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun sem samþykkt voru samhljóða á Alþingi 16. maí 2011. Lögin tóku gildi að hluta 20. maí 2011 og síðan að fullu þann 14. janúar 2013, eftir að Alþingi samþykkti tillögu til þingsályktunar sem kveðið er á um í 3. grein laganna. Í þingsályktuninni birtast niðurstöður 2. áfanga rammaáætlunar, þar sem virkjunarkostum var raðað í verndar-, bið- eða orkunýtingarflokka. Þessi röðun er enn í gildi (október 2014) og heldur gildi sínu þar til Alþingi samþykkir nýja þingsályktun um málið.
Vilja Alþingis með lagasetningunni og tilganginum með rammaáætlun er lýst nokkuð ítarlega í greinargerð með lagafrumvarpi því sem varð að lögum 48/2011. Ítarlega umfjöllun um vilja löggjafans og skiptar skoðanir Alþingismanna er einnig að finna í nefndaráliti sem lagt var fram með þingsályktunartillögunni sem vísað er í að ofan.
Orkustofnun hefur það hlutverk samkvæmt lögum nr. 48/2011 að taka við umsóknum um að verkefnisstjórn rammaáætlunar taki virkjunarkosti til umfjöllunar og að meta hvort gögn sem fylgja með umsókninni séu nægileg til að meta virkjunarkostinn. Í reglugerð 540/2014 er tilgreint nánar hvaða gögn þurfi að fylgja slíkum umsóknum.
Reglur um starfshætti verkefnisstjórnar voru undirritaðar af umhverfis- og auðlindaráðherra þann 22. maí 2015 og birtar í Stjórnartíðindum þann 12. júní sama ár. Nánari upplýsingar um setningu reglnanna er að finna í frétt á vef rammaáætlunar frá 9. júlí 2015.