Innsend umsögn
Nafn: | Atli Gíslason |
---|---|
Númer umsagnar: | 64 |
Landsvæði: | Suðurland - Þjórsá (Vatnasvið) |
---|---|
Virkjunarhugmynd: |
Umsögn: | Rammaáætlun Iðnaðarráðuneytinu Arnarhvoli 150 Reykjavík. Reykjavík, 10. nóvember 2011. Umsögn um rammaáætlun. Í rammaáætlun eru virkjanir í neðri hluta Þjórsár settar í nýtingarflokk. Gerð er krafa til þess að neðri hluti Þjórsár verði settur í verndarflokk en til vara í biðflokk. Ljóst má vera að nefndar virkjanir hafa í för með sér veruleg óafturkræf umhverfisspjöll. Nægir þar að nefna að umhverfi árinnar og rennsli verður gjörbreytt. Þrjú virkjanalón eru fyrirhuguð. Laxastofn árinnar, stærsti laxastofn landsins, er í raunverulegri útrýmingarhættu og fyrirséð að boðaðar mótvægisaðgerðir breyti þar engu. Gönguleiðir laxa upp ána eru torveldaðar verulega og nánast útilokað að laxaseiði nái að ganga niður ána gegnum hverfla og lón, eins og reynsla erlendis hefur leitt í ljós. Mikilvæg hrygningar- og uppeldissvæði verða eyðilögð að verulegu leyti. Í umhverfismati er ekki gerð minnsta tilraun til að meta hvort hald sé í meintum mótvægisaðgerðum. Laxastofninn er ekki látinn njóta vafans fremur en náttúra og umhverfi Þjórsár almennt séð. Fyrirhugaðar virkjanir með tilheyrandi lónum á að byggja á virku jarðskjálftasvæði og hripleku hrauni. Alkunna er að brunnar í Skeiðahreppi fyllast þegar hækkar í ánni og rennsli er neðanjarðar milli Þjórsár og Hvítár. Við blasir að lónin haldi ekki vatni og gjörbreyting muni verða á grunnvatnsstöðu. Þá er það staðreynd að væntanlegt rennsli í ánni fram hjá virkjunum og lónum mun verða afar breytileg, allt að tífaldast frá minnsta rennsli til þess mesta. Það þýðir að allt lífríki á bökkum árinnar verður að mestu lagt í rúst sem leiðir til annarra afdrifaríkra umhverfisáhrifa. Sandfok verður viðvarandi þegar vatnsstaða árinnar er lægst. Svo mætti lengi telja. Niðurstaða í rammaáætlun varðandi Þjórsá er vanreifuð að þessu leyti og nauðsynleg rannsaka þessa þætti og fleiri, sbr. neðanskráðar röksemdir, áður en þingsályktun um rammaáætlun verður lögð fram. Framanrituð rök og mörg fleiri hafa verið tíunduð í athugasemdum í skipulagsferli vegna breytinga á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps í þágu hinna fyrirhuguðu virkjana. Voru gerðar 29 almennar athugasemdir, 16 athugasemdir vegna náttúruþátta, 5, athugasemdir vegna samgangna, 6 athugasemdir vegna grunnvatnsstöðu, jarðskjálfta- og flóðahættu, 4 athugasemdir vegna lífríkis, 2 athugasemdir vegna ferðaþjónustu, 15 athugasemdir vegna einstakra jarða og 2 athugasemdir frá umsagnaraðilum. Hjálagt fylgir yfirlit yfir þessar athugasemdir og ljósrit af þeim. Einnig fylgir samantekt Skeiða- og Gnúpverjahrepps yfir móteknar athugasemdir. Ég geri þessar athugasemdir að mínum til stuðning þeim kröfum sem gerðar eru í upphafi umsagnar þessarar. Ég áskil mér rétt til að koma fram með frekari rökstuðning og leggja fram viðbótargögn. Virðingarfyllst, Atli Gíslason, hrl. og alþingismaður. Ath. Ég mun á morgun, 11. nóvember 2011, leggja fram í iðnaðarráðuneytinu undirritaða umsögn ásamt þeim fylgigögnum sem ég tilgreini í umsögninni. |
---|
Fylgigögn: |
---|