Umsögn: |
Flestir þeirra sem koma til Íslands fyrsta sinni stíga fæti á íslenska jörð þar sem heitir Reykjanesskagi. Ef heppnin hefur verið með þeim hafa þeir úr lofti fengið litið þennan mikilfenglega skaga í margbreytileika sínum. Fyrsta ökuferð Íslandsfaranna er einnig um Reykjanesskagann, oftast frá Keflavíkurflugvelli til innnesja (Höfuðborgarsvæðisins). Þeir fá þá tækifæri til þess að virða fyrir sér sérstæða náttúru þessa skaga sem sumum finnst hrjóstrug öðrum tilkomumikil, en fáir fara þar um án þess að ferð sú veki hjá þeim einhver viðbrögð. Ferðamenn þessir eru að fara innum hlið Íslands, innganginn að íslenskri náttúru. Margir húseigendur, bæjarfélög og aðrir þeir sem skartað geta hliðum, leggja mikla áherslu á að hliðið sé sem glæsilegast, að inngangurinn til heimilis þeirra bjóði velkomna aufúsugesti. Fyrstu áhrifin sem gestirnir verða fyrir við komuna verða oft mikils um ráðandi um afstöðu þeirra síðar meir, hvað sem heimsóknin annars ber í skauti sér. Því skulum við gæta vel að hliði Íslands og standa vörð um innganginn að íslenskri náttúru Reykjanesskagann. Samkvæmt þeim drögum sem nú liggja fyrir að þingsályktunartillögu varðandi rammaáætlun eru 14 virkjunarkostir af 51 í nýtingar- eða biðflokki staðsettir á Reykjanesskaga eða um 28%. Hér getur að líta níu af 24 svokölluðum nýtingarsvæðum þ. e. um 38% og fimm af þeim 27 svæðum sem hafna í biðflokki eða um 19%. Nesjavellir og Svartsengi eru ekki á meðal nýtingar- eða biðsvæða rammaáætlunar en þar eru nú þegar jarðvaramavirkjanir auk virkjanna á Reykjanesi og Hellisheiði. Þegar þess er gætt hvert það landsvæði er sem við köllum Reykjanesskaga held ég að nánast allir, jafnvel öflugustu virkjanasinnar, gætu fallist á að þröngt muni verða setinn bekkurinn verði það úr að jarðvarmavirkjanir verði á öllum þeim nýtingar- og biðsvæðum sem stasett eru á Reykjanessskaga samkvæmt núverandi drögum að rammaáætlun. |