Umsögn: |
Suðvesturland – Eldfjallaþjóðgarður eða eitraðar gufur?
Í drögum að þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, Rammaáætlun, fellur ekkert svæði á Reykjanesskaga vestan Brennisteinsfjalla (68) í verndarflokk og einungis tvö í biðflokk, Trölladyngja (65) og Austurengjahver (67). Þessi þrjú svæði, auk tveggja svæða í orkunýtingarflokki, Sandfells (64) og Sveifluháls (Krýsuvík) (66) eru öll innan Reykjanesfólkvangs, eins vinsælasta útivistarsvæðis í nágrenni höfuðborgarsvæðisins (Innnesja og Suðurnesja). Sveifluhálsi (Krýsuvík) tilheyra m.a. hverasvæðin í Seltúni og Baðstofu undir Hverafjalli. Við álítum að orkunýting á þessu svæði samrýmist ekki markmiðum fólkvangsins og leggjum því til að þau verð öll sett í verndarflokk og stefnt að stofnun eldfjallaþjóðgarðs á Suðvesturlandi. Mörgum spurningum er enn ósvarað hvað varðar Hellisheiðarvirkjun svo sem um, hversu vel er unnt að hefta útblástur eiturgufa frá virkjun og borteigum og hvort neysluvatn kann að spillast af vatni sem fellur frá virkjuninni. Það vatn sem nú er dælt niður mun nema um 550 sekúndulítrum við Húsmúla og 150 við Gráhnúka. Þá er einnig athyglivert að sá rammi laga og reglugerða, sem búinn er Hellisheiðarvirkjun í eign Orkuveitu Reykjavíkur, inniheldur ekki enn afdráttarlausa kröfu um varnir gegn mengun lofts og grunnvatns á virkjanasvæðinu. Reynsla næstu ára og jafnvel áratuga mun ein geta sagt til um hversu mikil eða lítil mengun verður frá þessum jarðvarmavirkjunum. Ef illa tekst til mun sú mengun vara um áratugi. Þá er því einnig ósvarað hvort eða hversu lengi sá jarðhitageymir, sem þar er sótt til, muni endast. Öðrum spurningum svo sem um aukna jarðkjálftatíðni til langs tíma vegna niðurdælingar er einnig ósvarað. Þó horft sé aðeins til tæknilegra úrlausnarefna sýnist ekki hyggilegt að hefja gerð annarra stórra jarðvarmavirkjanna á næstu árum eða áratugum á Hengilssvæðinu. Sé einnig horft til annarrar nýtingar eins og útivistar og ferðamennsku verða forsendur fleiri virkjanna á þessu svæði enn veikari. |