Innsend umsögn
Nafn: | Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands |
---|---|
Númer umsagnar: | 96 |
Landsvæði: | Almenn umsögn |
---|---|
Virkjunarhugmynd: |
Umsögn: | Sérstaða Reykjanesskagans v/rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Reykjanesskaginn – ein heild. Reykjanesskaginn er gjarnan skilgreindur sem eldvirknisvæðið frá Þingvallavatni að Reykjanesi. Neðansjávarhryggurinn sem liggur eftir Norður-Atlantshafi kemur á land vestast á skaganum og liggur eftir honum endilöngum. Samhliða gosreinar raða sér yfir skagann frá suðvestri til norðausturs. Líta má á Reykjanesskagann sem eina jarðfræðilega heild eins og t.d. Torfajökulssvæðið. Fólkvangar og friðlýst svæði. Tveir stórir fólkvangar eru á Reykjanesskaga: Reykjanesfólkvangur og Bláfjallafólkvangur. Þeir eru friðlýst svæði, hugsuð sem útivistarsvæði fólks í þéttbýlinu í kring. Þá liggur Þingvallaþjóðgarður að Reykjanesskaga að austanverðu og friðland Reykjavíkur og fleiri sveitarfélaga – Heiðmörk að fólkvöngunum að norðanverðu. Auk þess eru nokkur fjöldi friðlýstra svæða á Reykjanesskaga og önnur verndarsvæði. Fólkvangarnir taka yfir stærsta hlutann af miðhluta Reykjanesskagans. Fjölbreytt og ósnortin náttúra við bæjardyr mesta þéttbýlis landsins. Í niðurstöðum faghópa um rammaáætlunina á bls. 38 er nefnt að mikilvægi ósnortinna svæða í nágrenni við þéttbýli og stóra ferðamarkaði sé vanmetið í skýrslunni. Þetta er undirstrikað á bls. 36 um fjarlægð frá markaði, þar sem Reykjanes fékk einkunnina 10 en Hágöngur aðeins 1. Á Reykjanesskaga er fjöldi ósnortinna- eða lítt snortinna svæða sem aðeins tekur skamma stund að koma til. Nú er mikilvægara en nokkru sinni að varðveita náttúrugildi þessara svæða, en jafnframt að gera þau mörg hver aðgengilegri fyrir ferðafólk. Útivist á Reykjanesskaganum er að stóraukast. Helgafell ofan Hafnarfjarðar er innan Reykjanesfólkvangs. Árið 1996 var komið þar fyrir gestabók. Það ár skráðu sig 2096 í bókina. Árið 2010 voru þeir orðnir 14868. Eftir hrunið svokallaða hefur ganga á fellið stóraukist. Sumarið 20ll var fylgst með komu fólks að hverasvæðinu í Seltúni í Krýsuvík. Að jafnaði komu þar um og yfir 1000 manns á degi hverjum yfir sumarmánuðina. Komur þangað yfir vetrarmánuðina eru að stóraukast. Ætla má að sama þróun sé um allan Reykjanesskagann. Komur í Seltún gætu verið á bilinu 150 – 200 þús manns yfir árið. |
---|
Fylgigögn: |
---|