Umsögn: |
Athugasemdir mínar snúa að eftirtöldum virkjanakostum á Holtamannaafrétti; Skrokkölduvirkjun, Hágönguvirkjun, Norðlingaölduveitu/Kjalölduveitu, Tungnaárlóni og Sköflungi.
Þó að virkjanir og miðlunarlón geti fallið vel að landi og jafnvel verið lítt sýnileg, þá verður að hafa það í huga að tengja þarf virkjanir við flutningskerfi raforku. Í dag virðist eini raunhæfi kosturinn til þess vera með háspennulínu. Samkvæmt könnunum þá eru raflínur þau mannvirki sem ferðamönnum og ferðaþjónustuaðilum hugnast síst á miðhálendi Íslands.
Við það að ám sé veitt úr farvegi sínum minnkar vatnsmagn í náttúrulegum farvegi þeirra. Það á t.d. við um Þjórsá, en með gerð Norðlingaölduveitu/Kjalölduveitu þá minnkar vatnsmagn neðar í Þjórsá. Það hefur áhrif á fjóra fossa í ánni; Hvanngiljafoss, Hrútshólmafoss, Dynk og Búðarhálsfoss. Þó hugsanlega yrði tryggt lágmarksrennsli um farveginn yrðu þessir fossar ekki þeir sömu og þeir eru í dag.
Áhugi ferðamanna á ósnortnum svæðum hefur aukist og talið er að áfangastaðir með ósnortna náttúru verði verðmætir í framtíðinni. Á Holtamannaafrétti eru vannýtt tækifæri í ferðaþjónustu og tel ég að framtíðarvirði svæðisins til ferðamennsku sé meira heldur en af frekari virkjanaframkvæmdum. |