Innsend umsögn
Nafn: | NASF verndarsjóður villtra laxastofna |
---|---|
Númer umsagnar: | 306 |
Landsvæði: | Almenn umsögn |
---|---|
Virkjunarhugmynd: | Urriðafossvirkjun - R3131A |
Umsögn: | Verkefnastjórn Rammaáætlunar www.ramma.is Reykjavík EFNI: Krafa um að tillögur verkefnisstjórnar Rammaáætlunar um að setja virkjanir í neðri hluta Þjórsár í nýtingarflokk verði dregnar til baka. I. Lögð hefur verið fram tillaga verkefnisstjórnar Rammaáætlunar um að setja Holtsvirkjun og Urriðafossvirkjun í nýtingarflokk. Með bréfi þessu er farið fram á að sú tillaga verði dregin til baka, enda er hún byggð á ófullnægjandi forsendum og hefur að engu þau skilyrði um takmörkuð umhverfisáhrif sem sett hafa verið í öllu ferli Rammaáætlunar. NASF, Verndarsjóður villtra laxastofna sendi erindi til Skipulagsstofnunar þann 28. september 2015 þar sem krafist var endurskoðunar á mati á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar. Sjá fylgiskjöl 5-12. Öll rök sem þar komu fram eiga við í þessu máli og vísast því til rökstuðnings sem fram kom í þeim skjölum. Málið er nú rekið fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hér á eftir verður sýnt fram á veigamikla galla og rangfærslur á málsmeðferðinni og færð rök fyrir því að tillögur um að setja þessar virkjanir í nýtingarflokk standist ekki vísindalegt mat miðað við þær kröfur sem nú eru gerðar um takmörkun umhverfisáhrifa virkjana. Ennfremur verður bent á að tillögurnar eru reistar á mati stofnunar sem er bæði vanhæf til að leggja mat á ýmsa mikilvæga þætti í verkefninu og skortir þekkingu til að geta metið þá. Þá verða settar fram aðrar athugasemdir sem NASF vill koma á framfæri. Sérstaklega skal bent á niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá 4. maí sl. um að hér á landi hafi löggjöfin ekki verið aðlöguð tilskipunum ESB sem veita almenningi og hagsmunaaðilum vernd fyrir umhverfisárásum öflugra fyrirtækja sem starfa í skjóli stjórnvalda. Íslensk stjórnvöld fengu frest til 4. júlí að bregðast við – en hafa enn ekkert gert. Því er ríkari ástæða en ella að bíða með allar ákvarðanir sem þessi tilskipun nær ótvírætt til. Í upphafi skal tekið fram að faghópur sem skipaður var 22. október 2013 af verkefnisstjórn RÁ3 til að meta helsta ágreiningsefni þessa máls komst að þeirri ótvíræðu niðurstöðu að engri óvissu hefði verið eytt um afdrif laxfiska í Þjórsá ef af virkjunum í neðri hluta árinnar yrði. Sjá fylgiskjal 13. Hugmynd hópsins um að skipta Þjórsá upp í náttúruleg og ónáttúruleg búsvæði laxfiska og réttlæta þannig að gera tilraun með Hvammsvirkjun til að sjá hvernig til tækist, breytir engu um þá meginniðurstöðu. Um þetta er fjallað hér að neðan og rakið hvernig ótvíræð niðurstaða faghópsins hefur verið affærð og misnotuð með ósannindum í málflutningi verkefnisstjórnar Rammaáætlunar og Landsvirkjunar. Við teljum að þessi blekkingaleikur hafi leitt umræðuna á villigötur og dregið athyglina frá aðalatriðum málsins. II. Að okkar áliti hefur raunverulegt mat á umhverfisáhrifum virkjana í neðri hluta Þjórsár, eins og núgildandi lög kveða á um, aldrei farið fram. Árin 2001-2003 var lagt fram mat sem margir óháðir sérfræðingar hafa talið ófullnægjandi. Sérfræðingar okkar hafa bent á að sama máli gegni um mörg fleiri gögn sem kallað hefur verið eftir og því sé langt í land með að hægt sé að taka ákvarðanir um verkfræðilegar aðgerðir á fyrirhuguðu virkjunarsvæði. Í málsmeðferðinni hefur nær eingöngu verið stuðst við samantekt frá Veiðimálastofnun sem NASF telur vanhæfa vegna veigamikilla fjárhags- og hagsmunatengsla við Landsvirkjun og að stofnunina skorti þekkingu á viðfangsefninu. Verður það nánar rakið undir kafla III hér að neðan. Samantektin frá 2001-2003 er löngu úrelt. Sett hafa verið ný lög um umhverfismat með nýjum áherslum byggðum á nýrri þekkingu og alþjóðakröfum þar sem gilda ströng skilyrði um verndun náttúruverðmæta, umhverfisvernd og sjálfbærni. Á loftslagsráðstefnunni í París í desember sl. var sýnt fram á þann mikla skaða sem stíflur og uppistöðulón vegna vatnsaflsvirkjana valda lífríkinu. Þar ber hæst tjón á fiskstofnum vegna búsvæðataps, rennslisbreytinga og setefnisflutninga. Því var lögð höfuðáhersla á að lífríkið yrði undantekningalaust kannað til hins ýtrasta og umhverfisáhrif metin af þar til bærum aðilum áður en verkfræðingar fengju að hlutast til um mannvirkjagerð í straumvötnum. Margt í samantekt Veiðimálastofnunar hefur töluvert upplýsingagildi en getur varla talist fagleg greining á hugsanlegum áhættuþáttum og mótvægisaðgerðum. NASF telur að ekki sé nægjanlegt að benda á að hugsanlega geti einhvers konar „seiðaveitur“ auðveldað niðurgöngu seiða þar sem flestar seiðaveitur í veröldinni hafa reynst gagnslitlar þrátt fyrir áratuga tilraunastarfsemi. Eins og segir í einni skýrslu sérfæðinga okkar, sjá fylgiskjal 1a bls. 5: „There has been insufficient collection of the appropriate biological data and an insufficient evaluation of the potential impacts using population viability analyses.“ Ekki verður séð að samantekt Veiðimálastofnunar hafi verið gerð í samráði við landeigendur og heimafólk á bökkum Þjórsár. Nokkur hundruð aðilar eiga land að Þjórsá og nýta hlunnindi vatnasvæðisins með margvíslegum hætti. Veiðimálastofnun og Landsvirkjun leggja þá alla að jöfnu og hunsa sjónarmið margra þeirra að því er virðist til þess eins að þjóna hagsmunum Landsvirkjunar. Hér er um að ræða þrjú til fjögur hundruð einstaklinga með ólíka hagsmuni eftir því hvar land þeirra liggur að vatnakerfinu. Fjölmörg grundvallaratriði er varða lífríki Þjórsár liggja ekki fyrir að mati sérfræðinga sem NASF hefur leitað til um ráðgjöf. Vísað er til umsagnar NASF til Skipulagsstofnunar frá 29. september 2015, m.a. um að gera þurfi efna- og eðlisfræðigreiningar á vatni og botngróðri Þjórsár og þverám hennar. Athygli vekur að faghópurinn tekur ekki fram að gera þurfi slíkar grunnrannsóknir af fagfólki – sem stangast á við það sem einn þátttakandi í faghópnum benti á í rannsóknaráætlunum vegna virkjunaráætlana í Hvammsá í Vopnafirði í mars 2006. Sjá fylgiskjal 3. Veiðimálastofnun útbjó samantekt á upplýsingum um ýmiss konar efnisatriði. Ábyrgir sérfræðingar sem NASF leitaði til, innlendir og erlendir, eru á einu máli um að sú samantekt sé ekki nægjanlegur grunnur að umhverfismati. Margt í samantektinni hefur upplýsingagildi en er ekki fagleg greining á hugsanlegum áhættuþáttum og mótvægisaðgerðum. Ekki nægir að benda á að hugsanlega geti „einhvers konar seiðaveitur“ auðveldað niðurgöngu seiða því að fæstar slíkar „veitur“ hafa komið að gagni þrátt fyrir áratuga tilraunastarfsemi. Rétt er að vekja athygli á lífslíkum sjóbirtingsstofnins í Þjórsá. Sjóbirtingur getur orðið 10-12 ára og þarf á hverju ári (stundum oftar en einu sinni) að komast út í sjó og ganga aftur í ána. Hvað sem seiðaveitum líður eru allir sérfræðingar sammála um það, hvaða stofnun sem þeir tilheyra, að þetta mun aldrei takast í reynd ef af virkjunum verður og að sjóbirtingur í Þjórsá muni því fljótlega líða undir lok. Bjartsýni Landsvirkjunar um mögulegan árangur af seiðaveitum við að halda lífi í drjúgum hluta laxastofnsins byggist ekki á neinum reynsluvísindum. Þegar við bætist að rannsóknir á lífríkinu eru ófullnægjandi, eins og rakið er í fylgigögnum þessarar kæru, blasir við að málið þarfnast miklu betri skoðunar. Sjá fylgiskjal 2. Í bréfi dagsettu 20. janúar, 2016, sjá fylgiskjal 1a, ásamt fylgiskjölum 1b og 1c er ítarleg greinargerð frá dr Margaret J. Filardo, Ph.D. Supervisory Fish Biologist, einum helsta sérfræðingi í áhrifum mannvirkja á lífríki vatnasvæða hjá Fish Passage Center í Portland, Oregon. Dr. Filardo fer faglega yfir alla helstu lífríkisþætti er varða áætlanir um Hvammsvirkjun og bendir á upplýsingar sem vantar áður en lengra er haldið, dregur fram óvissuþætti og sýnir fram á ónóga þekkingu þeirra sem að málinu hafa komið. Lokaorð hennar eru þessi: In summary, the process that has occurred thus far regarding the movement of the Hvammur hydroproject to the utilization category and the decision to forgo an updated Environmental Assessment, relies on building the dam and then observing what the effectiveness of the countermeasures are on aquatic life in the Thjórsá River.This approach does not address the substantial information of the impacts of hydro development on aquatic populations from rivers around the world. If that information were taken into consideration the only logical conclusion would be that there is more “certainty” associated the impacts of hydro development than “uncertainty.” Regardless of the implementation of countermeasures and monitoring, once Hvammur is built there will be substantial negative impacts to the aquatic life of the Thjórsá. Eins og fram kom í upphafi þessa bréfs mótmælir Verndarsjóður villtra laxastofna tillögum verkefnisstjórnar þess efnis að færa virkjanir í neðri hluta Þjórsár í nýtingarflokk vegna þess að tillögurnar byggjast á röngum og ónógum forsendum og misvísandi málatilbúnaði, allt frá því að verkefnisstjórn Rammaáætlunar skilaði inn tillögum um að færa Hvammsvirkjun úr biðflokki í nýtingarflokk til þess tíma að Landsvirkjun skilaði inn síðustu athugasemdum sínum til Skipulagsstofnunar. Þegar Alþingi samþykkti að færa virkjanir í neðri hluta Þjórsár úr nýtingarflokki, eins og verkefnisstjórn hafði í fyrstu lagt til, í biðflokk var það vegna óvissu um afdrif laxfiska í ánni, ef af virkjunum yrði. Það hefur alla tíð verið forsenda fyrir því að ljá máls á þessum virkjunum í ánni að tryggt væri að þær hefðu ekki verulega neikvæð áhrif á laxfiska. Þegar verkefnisstjórn setti fram tillögu sína hið fyrra sinn hafði Landsvirkjun í samvinnu við Veiðimálastofnun talið stjórnarmönnum trú um að óvissu um afdrif laxfiska í Þjórsá hefði verið eytt með mótvægisaðgerðum, einkum seiðaveitum og fiskvegum. Í athugasemdaferlinu, áður en Alþingi samþykkti Rammaáætlun, kom í ljós að það var langur vegur frá því að þeirri óvissu hefði verið eytt. Þvert á móti voru lögð fram gögn sem sýndu að sambærilegar mótvægisaðgerðir hefðu litlum sem engum árangri skilað þar sem þær hefðu verið reyndar í Bandaríkjunum — en þær aðgerðir voru helsta fyrirmynd Landsvirkjunar og Veiðimálastofnunar í málinu. Því mætti búast við algjöru hruni laxfiskastofna í ánni ef ráðist yrði í virkjanir, þrátt fyrir allar boðaðar mótvægisaðgerðir sem kynnu e.t.v. að halda lífi í 10-15% af laxastofninum. Eins og áður sagði var alltaf vitað að sjóbirtingur myndi alveg þurrkast út. Alþingi brást við þessum athugasemdum með því að samþykkja að virkjanir í neðri hluta Þjórsár skyldu settar í biðflokk á meðan farið yrði betur yfir hættuna sem villtum laxfiskum í Þjórsá stafaði af virkjunum. Þegar þarna var komið í málsmeðferðinni var ljóst að Veiðimálastofnun var orðin vanhæf til að fjalla um málið og því var skipaður faghópur óháðra líffræðinga, undir forystu Skúla Skúlasonar, sem skyldi fara yfir gögn um virkjanir og mótvægisaðgerðir með tilliti til möguleika laxfiska í Þjórsá að lifa af í ánni ef af virkjunum yrði. Með Skúla í hópnum voru Hilmar Malmquist, Sigurður Már Einarsson og Sigurður S. Snorrason. Hópnum var falið að meta „óvissu fyrirliggjandi upplýsinga um áhrif Hvamms-, Holta- og Urriðafossvirkjana í neðri hluta Þjórsár á laxfiska í ánni“ eins og segir í efnisfyrirsögn á lokaskýrslu faghópsins sem send var verkefnisstjórn Rammaáætlunar hinn 4. nóvember 2013. Niðurstaða hópsins er skýr: Ekki hafi dregið úr neinni óvissu um afdrif laxfiska í ánni, ef af virkjunum verði. Sjá fylgiskjal 13. Hins vegar býr hópurinn til það nýmæli í allri umfjöllun um málið að setja svæðið ofan Hvammsvirkjunar skör lægra en önnur svæði árinnar vegna þess að það sé „utan náttúrulegs útbreiðslusvæðis göngufiska“. Vegna þessarar heimatilbúnu flokkunar á mikilvægi búsvæða laxfiska í Þjórsá ályktar hópurinn að óhætt sé að gera tilraun með Hvammsvirkjun og sjá hvernig til tekst. Þannig kemst faghópurinn að þeirri niðurstöðu að það sé „réttlætanlegt að færa Hvammsvirkjun úr biðflokki í nýtingarflokk.“ Faghópurinn var ekki spurður að því í hvaða flokk ætti að skipa virkjunum í Þjórsá. Hópurinn átti að meta hvort óvissu um afdrif laxfiska í Þjórsá hefði verið eytt með boðuðum mótvægisaðgerðum við óhjákvæmileg áhrif virkjana. Mat hópsins var ótvírætt um að þeirri óvissu hefði ekki verið eytt. Þessa niðurstöðu faghópsins, sem leidd var af vangaveltum hans um náttúruleg búsvæði í Þjórsá, tekur verkefnisstjórn Rammaáætlunar síðan og notar sem röksemd fyrir því að leggja til við Alþingi að Hvammsvirkjun verði færð úr biðflokki í nýtingarflokk. Í Greinargerð verkefnisstjórnar rammaáætlunar 21. mars 2014 til Alþingis segir um starf faghópsins og ályktanir verkefnisstjórnar af niðurstöðum hans (undirstrikun er okkar): „Eina verkefni faghópsins felst í því að meta hvort fyrirliggjandi upplýsingar um áhrif virkjananna þriggja á laxfiska í Þjórsá hafi dregið nægjanlega mikið úr þeirri óvissu, sem leiddi til þess að virkjunarkostirnir voru færðir úr nýtingarflokki í biðflokk við endanlega afgreiðslu á tillögum verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar, til þess að unnt sé að raða einhverjum þeirra eða öllum í nýtingarflokk á nýjan leik.“ Faghópurinn taldi að nokkuð skýrt mat lægi fyrir á áhrifum hvers virkjunarkosts um sig á laxfiska með gönguhegðun í Þjórsá og komst að þeirri niðurstöðu að óvissa varðandi áhrif Hvammsvirkjunar á laxfiska hefði minnkað nægjanlega til að réttlætanlegt væri að færa virkjunina í nýtingarflokk á nýjan leik. Hins vegar hefði ekki verið dregið nægjanlega úr óvissu hvað varðar Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun. Faghópurinn gerði greinarmun á þeim svæðum í Þjórsárkerfinu þar sem útbreiðsla göngufiska er náttúruleg og þeim svæðum þar sem útbreiðslan er vegna atbeina mannsins. Skýrsla faghópsins er aðgengileg á vef rammaáætlunar. Eins og rakið er hér að ofan er það ekki satt að faghópurinn hafi talið óvissu hafa „minnkað nægjanlega til að réttlætanlegt væri að færa virkjunina í nýtingarflokk á nýjan leik.“ Við hjá NASF mótmæltum þessum ósannindum verkefnisstjórnar strax en stjórnin lagði síðan eftirfarandi svar fram með gögnum málsins til Alþingis: Því er mótmælt harðlega að Hvammsvirkjun verði reist sem eins konar tilraunastofa til að kanna virkni mótvægisaðgerða í virkjunum neðar í ánni. Verkefnisstjórn telur að í þessum umsögnum komi ekki fram nýjar upplýsingar sem gefi tilefni til að endurskoða fyrri afgreiðslu verkefnisstjórnarinnar. Þetta „svar“ verkefnisstjórnar tekur ekki tillit til þess að það er ósatt að faghópurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að óvissu hafi verið eytt. Það er erfitt að koma með nýjar upplýsingar til að hrekja það. Það stendur og blasir við í skýrslu faghópsins. Til frekari staðfestingar á þessu er bent á nýlegan dóm í Bandaríkjunum þar sem hafnað er áætlunum stjórnvalda þar í landi um mótvægisaðgerðir í Columbiaánni í fylkjunum Washington og Oregon, sem ætlað var að draga úr neikvæðum áhrifum virkjana í vatnakerfinu (https://www.scribd.com/doc/311532671/NWFvNMFS). Málið var höfðað fyrir hönd samtaka frumbyggja, náttúruverndarsinna og veiðimanna og flutt af umhverfislögfræðingum sem kalla sig EarthJustice. Þessi dómur á sér beina skírskotun til áforma Landsvirkjunar um að virkja í neðri hluta Þjórsár en þetta er í fimmta sinn sem dómur fellur í þessari 20 ára gömlu deilu um laxfiskstofna í Columbiaánni. Undanfarna áratugi hafa alls kyns sérfræðingar í málefnum virkjana og umhverfisáhrifum þeirra, verkfræðingar og líffræðingar, legið yfir áætlunum um mótvægisaðgerðir og bandarísku orkufyrirtækin hafa mokað peningum í fiskvegi, seiðasleppingar og seiðaveitur en allt hefur komið fyrir ekki. Dómurinn telur að skynsemisrök, forsjálni og ráðdeild hafi ekki ráðið för heldur er talað um að málflutningur virkjanasinna sé byggður á duttlungum og gerræðissjónarmiðum; þ.e. þeir velji úr þeim upplýsingum sem fyrir liggi til þess að auka líkurnar á að málflutningur þeirra hljómi vel fremur en að leitast við að komast að rökréttum niðurstöðum miðað við fyrirliggjandi gögn. Hin upphaflegu ósannindi um niðurstöðu faghópsins hafa gengið aftur í allri meðferð málsins og eru síðast ítrekuð í lokaskýrslu Landsvirkjunar, sem hún lagði fyrir Skipulagsstofnun eftir að allar athugasemdir höfðu komið fram (undirstrikun okkar): 1.7.10. Áhrif á fiskstofna - samantekt Tekið var á öllum ofangreindum atriðum í mati á umhverfisáhrifum 2003. Sú viðbótarþekking sem komið hefur fram á sl. árum er í samræmi við úrskurð og skilyrði Skipulagsstofnunar vegna matsins, þar sem farið var fram á þær viðbótarrannsóknir, útfærslu mótvægis- og vöktunaraðgerða sem lagðar voru til af Veiðimálastofnun. Þess má einnig geta að í tengslum við 3. áfanga Rammaáætlunar hafa áhrif Hvammsvirkjunar á lífríki Þjórsár farið í gegnum rýnivinnu margra sérfræðinga, innlendra og erlendra, og var það niðurstaða þeirra vinnu að dregið hefði nægilega úr óvissu varðandi áhrif virkjunarinnar til að unnt væri að raða henni í nýtingarflokk á nýjan leik. Nánar er fjallað um þróun framkvæmdartilhögunar, mótvægis- og vöktunaraðgerðir í 10. kafla rýniskýrslu, þar sem tekin eru saman gögn. Eftir stendur að niðurstaða hins óháða faghóps sem var falið að leggjast yfir fyrirliggjandi gögn var ótvíræð um að óvissu um afdrif laxfiska í Þjórsá hefði ekki verið eytt. Sú leið sem faghópurinn bauð verkefnisstjórn upp á um að greina á milli náttúrulegra og ónáttúrulegra búsvæða í Þjórsá, og álykta síðan sjálfur um flutning Hvammsvirkjunar úr biðflokki í nýtingarflokk, var algjörlega utan verksviðs hópsins. Ályktunin byggði að auki ekki á neinu fordæmi í mati á umhverfisáhrifum mannvirkja. Ekki er hægt að meta slík áhrif nema út frá núverandi ástandi umhverfisins. Ekki er í boði að reyna að ímynda sér hugsanleg áhrif á umhverfi eins og það var á ótilgreindum tíma í fortíðinni, til dæmis við landnám áður en maðurinn hóf að láta til sín taka í umhverfinu á Íslandi. Fiskvegurinn við fossinn Búða hefur nú í hartnær mannsaldur opnað laxfiskum gönguleið á frjósöm búsvæði í Þjórsá. Stiginn er því fyrir löngu orðinn hluti af umhverfinu og þeir fiskar sem um hann ganga eru á engan hátt ónáttúrulegri en aðrir fiskar. Það er ótækt að verkefnisstjórn skuli nú byggja á þessum málatilbúnaði og rangfærslum til að ganga enn lengra og leggja til að allar virkjanir í neðri hluta Þjórsár verði færðar í nýtingarflokk. Sú ótvíræða niðurstaða stendur óhögguð að engri óvissu um afdrif laxfiska í Þjórsá hefur verið eytt. Og það er sú niðurstaða sem hefði með réttu átt að liggja til grundvallar endanlegum tillögum verkefnisstjórnar en ekki rangfærslur þeirra sem hafa hagsmuni af því að reisa virkjanir á svæðinu –og vakta áhrif þeirra. III. Hér að framan hefur verið bent á að forsendur sem tillögur verkefnisstjórnar Rammaætlunar byggja á standast ekki. Eins og rakið hefur verið eru þær reistar á samantekt frá Veiðimálastofnun. Að mati NASF er stofnunin vanhæf til að veita hvers konar álit í umræddum málum vegna tengsla við Landsvirkjun og jafnframt skortir hana grundvallarþekkingu og hæfi til að geta veitt álitið, hvað sem líður áðurnefndum hagsmunatengslum sem leiða til vanhæfis. Um vanhæfið er vísað til þess að Veiðimálastofnun er opinber stofnun. Virðist því augljóst að hún er bundin af stjórnsýslulögum. Þar þarf því að gæta vandaðra stjórnsýsluhátta. Við höfum ástæðu til að ætla að pottur sé brotinn m.a. hvað varðar hæfi og hlutleysi stofnunarinnar til að veita Landsvirkjun ráðgjöf um áhrif virkjanaframkvæmda á göngu villtra laxa og silunga í Þjórsá. Telja verður að tengsl stofnunarinnar, fjárhagsleg og fagleg, við Landsvirkjun séu þess eðlis að ástæða sé til að draga í efa hlutleysi stofnunarinnar til að gefa álit í samræmi við lögbundið hlutverk hennar. Það er staðreynd að mjög stór hluti tekna Veiðimálastofnunar hafa í mörg ár komið frá Landsvirkjun og er því ástæða til að benda á vanhæfi sérfræðinga hennar við að veita umsagnir og semja álitsgerðir er varða Landsvirkjun. Það veldur óhjákvæmilega tortryggni ef þeir sem hafa beinan fjárhagslegan hag af niðurstöðum vísindamanna greiða rannsóknarvinnu þeirra. Í svo veigamiklum málum þar sem hagsmunir hundruða einstaklinga eru í húfi og Veiðimálastofnun er fjárhagslega háð Landsvirkjun er ástæða til draga hlutleysi hennar í efa. Til stuðnings því að Veiðimálastofnun geti ekki talist hafa næga þekkingu til að veita ofangreint álit bendum við á að hún hefur ekki á að skipa sérfræðingum á sviði straum- og rennslismælinga, frumframleiðslu eða áhrifum vatnsaflsvirkjana á lífslíkur fiskstofna. Sjá fylgiskjal 4. IV. Eins og að ofan greinir teljum að margt fleira skorti til að réttlæta tillögur um að færa virkjanir á borð við Holta- og Urriðafossvirkjun í nýtingarflokk og að allt sé gert til að víkja sér undan fagmennsku hjá verkefnisstjórn og til að fyrirbyggja að landeigendur og aðrir hagsmunaaðilar geti tryggt eignir sínar og stöðu til frambúðar gagnvart hótunum um þjóðnýtingu. Í þessu sambandi má og benda á ótvíræða og rökstudda niðurstöðu sem ESA sendi frá sér 4. maí sl. (http://www.eftasurv.int/media/esa-docs/physical/792444.pdf) um að hér á landi hefði löggjöfin ekki verið aðlöguð tilskipunum ESB sem veita almenningi og hagsmunaaðilum vernd fyrir umhverfisárásum öflugra fyrirtækja sem starfa í skjóli stjórnvalda. ESA telur að tilskipun Evrópusambandsins frá 2011/92/EU um hvernig staðið skuli að mati á umhverfisáhrifum framkvæmda hafi ekki verið innleidd hér á landi en henni sé einmitt ætlað að verja rétt einstaklinga og samfélagsins alls fyrir skaðlegum áhrifum af umsvifum athafnamanna eða ríkisins – og tryggja að tekið sé lögmætt og rökrétt tillit til sjónarmiða umhverfissinna og hagsmunaaðila. Þannig tekur ESA undir öll sjónarmið og meginrök okkar. ESA veitti íslenskum stjórnvöldum frest til 4. júlí sl. til að laga löggjöfina að tilskipuninni. Stjórnvöld hafa enn ekki brugðist við. Með því að virða áðurgreinda rökstudda niðurstöðu að vettugi eru íslensk stjórnvöld enn á ný að leggja stein í götu almennings og þeirra hagsmunaaðila sem vilja standa vörð um lífríkið. Ótvírætt hefur verið sýnt fram á að umhverfinu er hætta búin af framangreindu ráðslagi verkefnisstjórnarinnar. Því er brýnni nauðsyn en ella að beðið sé með allar ákvarðanir um breytt nýtingaráform á svæðinu. Eftir stendur síðan að verkefnisstjórnin hefur affært ótvíræða niðurstöðu faghópsins frá 4. nóvember 2013 um að engri óvissu hafi verið eytt um afdrif laxfiska í Þjórsá, ef af virkjunum yrði, og aldrei svarað fram komnum athugasemdum með öðru en ofangreindum útúrsnúningi um að ekki hafi komið „fram nýjar upplýsingar sem gefi tilefni til að endurskoða fyrri afgreiðslu verkefnisstjórnarinnar“. Það eru því engin málefnaleg rök fyrir tillögum verkefnisstjórnar um að færa virkjanir í neðri hluta Þjórsár í nýtingarflokk. Áskilinn er allur réttur til þess að koma á framfæri frekari kröfum, sjónarmiðum og málsástæðum, sem og gögnum, á síðari stigum þessa máls eftir því sem tilefni kann að verða til. Sérstaklega er áskilinn réttur til að krefjast úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2011 Virðingarfyllst, Orri Vigfússon, formaður NASF,Verndarsjóðs villtra laxastofna Fylgiskjal 1a Bréf frá Margaret Filardo Ph. D. 20 janúar 2016 Fylgiskjal 1b Bréf frá Margaret Filardo Ph. D 15. nóvember 2013 Fylgiskjal 1c Bréf frá Margaret Filardo Ph. D 9. nóvember 2011 Fylgiskjal 2 Fiskvegurinn við Búða – seiðaveitur ofl. Fylgiskjal 3 Lífríki Hvammsár í Vopnafirði- Kynning á rannsóknarhugmyndum Fylgiskjal 4 Tengsl Landsvirkjunar og Veiðimálastofnunar Fylgiskjal 5 Endurskoðun á mati á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar sept2015 Fylgiskjal 6 Haesker et al 2012 Fylgiskjal 7 Scheuerell et al 2009 Fylgiskjal 8 Petrosky & Schaller EFF_2010 Fylgiskjal 9 Delayed Mortality paper0503106FDcphs Fylgiskjal 10 Schaller& Petrosky_NAJFM_2007 Fylgiskjal 11 Budy et al NAJFM_2002 Fylgiskjal 12 cjfas2014Schaller Fylgiskjal 13 Mat faghóps frá 4. nóvember 2013 |
---|