Innsend umsögn

Nafn: Svæðisfélag VG Skagafirði
Númer umsagnar: 357
Landsvæði: Almenn umsögn
Virkjunarhugmynd: Villinganesvirkjun - R3108A
Umsögn: Umsögn vegna rammaáætlunar frá Svæðisfélagi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Skagafirði

Vinstrihreyfingin grænt framboð í Skagafirði fagnar tillögum verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar 2013 – 2017 um orkunýtingu og vernd, þar sem lagt er samhljóða til að jökulsárnar í Skagafirði fari í verndarflokk. Verndun jökulsánna í Skagafirði hefur verið baráttu mál VG í Skagafirði um árabil. Vísað er til ályktunar og stefnuskrár Vg í Skagafirði :
Í ályktun félagsfundar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Skagafirði frá 8. júní 2005 segir:
„Héraðsvötnin og jökulárnar móta ásýnd og ímynd Skagafjarðar og eru undirstaða hins síkvika lífkerfis héraðsins allt frá jöklum til hafs. Tækifæri framtíðarinnar felast í að vernda þau og nýta óspjölluð í tengslum við fjölþætta útivist, veiði, ferðaþjónustu, landbúnað og aðra umhverfisvæna atvinnustarfsemi. Þýðing Vatnanna fyrir, fuglalíf, uppeldi fiskseiða, bæði ferskvatnsfiska og sjávarfiska er einnig ómetanleg. Félagsfundur VG í Skagafirði leggst því alfarið gegn öllum hugmyndum um virkjanir í Jökulsánum í Skagafirði.“
Ferðaþjónusta í Skagafirði er í örum vexti og hafa fljótasiglingar skapað svæðinu mikla sérstöðu.
Augu æ fleiri eru að opnast fyrir verðmæti ósnortinnar náttúru og ábyrgð okkar gagnvart komandi kynslóðum. Náttúran á sinn eigin sjálfstæða rétt. Við höfum hana að láni frá komandi kynslóðum. Jökulsárnar í Skagafirði eru mikilvægar fyrir lífkerfi héraðsins frá jöklum til sjávar. Vötnin hafa ekki aðeins mótað skagfirska náttúru heldur einnig skagfirska menningu og daglegt líf. Þau eru lífæð Skagafjarðar.

Umsögnin á við alla virkjanakostnaði í jökulsánum í Skagafirði.
Fylgigögn: