Seinni verkefnisstjórn 2. áfanga

2007-2011

Fulltrúar í seinni verkefnisstjórn 2. áfanga

Í september 2007 skipuðu iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra þriðju verkefnisstjórn rammaáætlunar og var hún skipuð 12 aðilum: 

  • Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð, skipuð sem formaður verkefnisstjórnar sameiginlega af iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra.
  • Elín R. Líndal, oddviti Húnaþings vestra, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
  • Anna Sverrisdóttir, ráðgjafi, tók í ágúst 2008 við af Eydísi Aðalbjörnsdóttur, verkefnisstjóra, sem fulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar.
  • Friðrik Dagur Arnarson, framhaldsskólakennari, tók sæti í verkefnisstjórn í janúar 2009 í stað Freysteins Sigurðssonar, jarðfræðings, sem lést í árslok 2008, sem fulltrúi náttúruverndarsamtaka. 
  • Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, tilnefndur af Orkustofnun
  • Hjörleifur B. Kvaran, aðstoðarforstjóri Orkuveitu Reykjavíkur (forstjóri frá október 2008), tilnefndur af Samorku.
  • Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, tilnefnd af Umhverfisstofnun.
  • Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins, tilnefnd af menntamálaráðherra.
  • Stefán Arnórsson, prófessor við Háskóla íslands, tilnefndur af iðnaðarráðherra.
  • Unnur Brá Konráðsdóttir, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra (alþingismaður frá apríl 2009), tilnefnd af forsætisráðherra.
  • Þorbjörg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri vinstri grænna flokkahópa á Norðurlöndum, tók í febrúar 2010 við af Þorsteini Tómassyni, skrifstofustjóra, sem fulltrúi landbúnaðarráðherra.
  • Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, tilnefnd af umhverfisráðherra.

Með verkefnastjórn störfuðu og sátu fundi fulltrúar iðnaðar- og umhverfisráðuneyta. Síðsumars 2008 var ráðinn sérstakur starfsmaður til verkefnisins. 

Skilum verkefnisstjórnar var seinkað til febrúarloka 2010 og aftur til júníloka 2011.  

Hlutverk verkefnisstjórnar

Meginhlutverk verkefnisstjórnar samkvæmt erindisbréfi var að semja tillögu að rammaáætlun þar sem virkjunarkostir væru flokkaðir með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, áhrifa þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar svo og á aðra landnýtingu. Helstu faglegu verkefnin voru þessi:

  • Að skilgreina og afmarka viðfangsefnið.
  • Að móta verkreglur fyrir starf faghópanna, einkum hvað varðar stigagjöf þeirra vegna einstakra orkuverkefna og styðja þá í starfi.
  • Að finna og skilgreina aðferðir til að meta orkukostina í heild á grundvelli stigagjafar faghópanna.
  • Að fjalla um tillögur faghópanna hvað varðar gagnaöflun og rannsóknarþörf.
  • Að vinna úr niðurstöðum faghópanna og flokka virkjunarkostina á grundvelli stigagjafar faghópanna.

Áherslur stjórnvalda

Skömmu eftir að síðari verkefnisstjórn 2. áfanga tók til starfa barst henni erindi frá stjórnvöldum þar sem stjórnvöld gerðu verkefnisstjórninni grein fyrir því að henni bæri að leggja sérstaka áherslu á eftirfarandi:

  1. Verndun menningar- og náttúruminja - Áréttað var að stjórninni bæri að taka sérstakt tillit til verndunar menningar- og náttúruminja í samræmi við reglur er falla undir heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO).
  2. Reglur um nýtingu háhitavæða - Verkefnastjórn var falið að semja drög að tveimur reglugerðum er lúta að nýtingu háhitasvæða, þar sem önnur reglugerðin átti að tryggja að framkvæmdir valdi sem allra minnstum umhverfisáhrifum á svæðunum og hin átti að tryggja sjálfbæra nýtingu jarðvarma. Í samræmi við verkefnið um sjálfbærni jarðhita gerðist verkefnastjórnin aðili að sérfræðihópi sem þegar var að störfum á vegum Orkustofnunar og hafði forystu um fjölþjóðlegt samstarf  um sjálfbæra nýtingu jarðvarma.