Störf verkefnisstjórnar og faghópa 2017-2019
Þegar verkefnisstjórn 4. áfanga tók við störfum var henni ákveðinn vandi á höndum. Ferlið um málsmeðferð virkjunarkosta í áætluninni hafði ekki gengið til enda, þ.e. Alþingi hafði ekki enn afgreitt tillögu ráðherra um flokkun virkjunarkosta úr 3. áfanga, og því var ekki ljóst hvaða virkjunarkosti, ef nokkra, ný verkefnisstjórn gæti tekið til mats.
Í skipunarbréfi verkefnisstjórnar var lögð áhersla á að verkefnisstjórn ynni áfram að þróun aðferðafræði, með hliðsjón af reynslu úr fyrri áföngum rammaáætlunar. Verkefnisstjórn lagði því snemma áherslu á mikilvægi þess að þróa aðferðir og þekkingu til að meta virkjunarkosti.
Ný verkefnisstjórn nýtti einnig fyrstu mánuði starfstíma síns í kynningarfundi með starfsmönnum umhverfis- og auðlindaráðuneytis, fyrri verkefnisstjórn og formönnum faghópa, og helstu stofnunum sem koma að málefnum rammaáætlunar, s.s. Orkustofnun, Skipulagsstofnun og Náttúrufræðistofnun.
Nánari upplýsingar er að finna í kafla 2.2 í skýrslu verkefnisstjórnar .
Möguleikar á mati á virkjunarkostum úr fyrri áföngum
Verkefnisstjórn hóf um haustið 2017 að kanna möguleika á því að taka til mats þá kosti sem verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar hafði raðað í biðflokk, svo og kosti í biðflokki gildandi rammaáætlunar, þ.e. kosti sem afgreiddir voru af Alþingi í janúar 2013 eftir 2. áfanga.
Rannsóknir faghópa og þróun aðferðafræði við mat virkjunarkosta
Faghópar voru skipaðir um vorið 2018 og tóku þeir strax til starfa. Þar sem ekki lá fyrir hvaða virkjunarkostir, ef nokkrir, kæmu til mats í 4. áfanga var framan af lögð áhersla á að sinna rannsóknum sem nýst gætu almennt í vinnunni síðar, t.d. við þróun aðferða við mat á landslagi og óbyggðum víðernum. Rannsóknir voru gerðar á náttúrufari og menningarminjum á líklegum virkjunarsvæðum, auk rannsókna á áhrifum virkjana á ferðaþjónustu og aðra nýtingu lands. Einnig var efnt til samráðsfunda með hagaðilum um aðferðafræði.
Vindorka - staða þekkingar og aðferðafræði við mat á vindorkukostum
Í ljósi vaxandi áhuga á virkjun vindorku en takmarkaðrar reynslu, ákvað verkefnisstjórn að fá hingað til lands erlenda sérfræðinga um vindorku til að deila reynslu sinni, sjá (hlekkur á síðu um málþing og samráðsfundi). Einnig fundaði verkefnisstjórn með íslenskum sérfræðingum á þessu sviði.